Afmælisbörn 14. mars 2023

Jón Sigurðsson

Í dag eru fimm tónlistartengd afmælisbörn á lista Glatkistunnar:

Bernharður St. Wilkinson (Bernard Wilkinson) stjórnandi og flautuleikari er sjötíu og tveggja ára gamall í dag. Hann er Breti sem kom hingað til lands 1975 til að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur starfað hér meira og minna síðan, leikið inn á fjöldann allan af plötum og stjórnað hljómsveitum og kórum eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands, Blásarakvintett Reykjavíkur, Lúðrasveit æskunnar og Söngsveitinni Fílharmóníu svo dæmi séu tekin. Hann hefur verið búsettur í Færeyjum undanfarið.

Svavar Austmann Traustason bassaleikari í rokksveitinni Sólstöfum er fjörutíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Svavar hefur verið bassaleikari sveitarinnar frá því í kringum aldamót og tekið þátt í þeirri velgengni sem sveitin hefur skapað sér með plötum á borð við Köld, Svartir sandar og Ótta.

Friðjón Ingi Jóhannsson mjólkurfræðingur og tónlistarmaður er sextíu og sjö ára gamall í dag. Hann er líkast til kunnastur fyrir að starfrækja hljómsveit í eigin nafni, Danshljómsveit Friðjón Jóhannssonar sem hefur haft það aðal markmið að varðveita tónlist af Austurlandi en sveitin hefur sent frá sér nokkrar plötur. Friðjón hefur einnig leikið í gegnum tíðina með ýmsum hljómsveitum fyrir austan og norðan s.s. Thule 2,5%, Völundi, Slagbrandi, Mánatríóinu, Panic, Skruggu og mörgum fleirum.

Hildigunnur Rúnarsdóttir söngkona og tónskáld fagnar í dag fimmtíu og níu ára afmæli. Hildigunnur nam tónlist með tónsmíðar sem aðalgrein hér heima, í Þýskalandi og Danmörku og hefur samið tónlist af ýmsu og fjölbreyttu tagi bæði fyrir raddir og önnur hljóðfæri. Verk hennar hafa verið gefin út hér heima og erlendis en söng hennar er sömuleiðis að finna á fjölmörgum útgefnum plötum.

Jón „bassi“ Sigurðsson átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést 2007. Jón (f. 1932) lék með flestum betri hljómsveitum bæjarins hér á árum áður eins og KK sextett, Sumargleðinni, Sinfóníuhljómsveit Íslands (allt frá stofnun), Hljómsveit Jan Morávek, Hljómsveit Björns R. Einarssonar og Sextett Jón Sigurðssonar, svo nokkrar séu hér nefndar.

Vissir þú að Tage Ammendrup starfrækti útgáfufyrirtækið Íslenzka tóna í bakherbergi leðurverslunarinnar Drangeyjar?