Friðjón Jóhannsson (1956-)

Friðjón Jóhannsson

Tónlistarmaðurinn Friðjón Jóhannsson hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi og m.a. starfrækt hljómsveit í eigin nafni sem hefur haft það meginmarkmið að vinna að því hugsjónastarfi að varðveita alþýðutónlist af austanverðu landinu, tónlist sem annars hefði horfið í glatkistuna.

Friðjón Ingi Jóhannsson er fæddur vorið 1956 í Eiðaþinghá fyrir austan, þar sem hann sleit barnsskónum, að loknu búfræðinámi og síðan námi í mjólkurfræðum flutti hann til Egilsstaða og starfaði þar með fjölda hljómsveita samhliða starfi sínu sem mjólkurfræðingur.

Tónlistarferill Friðjóns mun hafa hafist á skólaárunum á Eiðum en þar starfaði hann með hljómsveitinni Thule 2,5%, í kjölfarið komu sveitir eins og Völundur, Bigg-Fí-Band, Panic og Slagbrandur en með síðast töldu sveitinni lék hann fyrst inn á plötur, tveggja laga smáskífu með lögum tengdum Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands (ÚÍA) og breiðskífunni Grimmt og blítt. Friðjón söng og lék á bassa með fyrrgreindum sveitum en hann mun einnig eitthvað hafa leikið á gítar og harmonikku með þeim. Friðjón lék síðan með hljómsveitum eins og Skruggu, Mánatríóinu, Bergmáli og Tríói Eyþórs áður en hann stofnaði sveit í eigin nafni, Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar en hún hefur starfað með hléum í áratugi.

Árið 2000 flutti Óðinn til Akureyrar og hefur búið þar síðan, starfað þar að ýmsum tónlistartengdum viðburðum (og reyndar víðar um land) en haldið þó um leið tengslum sínum við átthagana fyrir austan. Friðjón kom m.a. að söngdagskrá á Akureyri sem tileinkuð var minningu Óðins Valdimarssonar en sú sýning naut mikilla vinsælda og var sett upp einnig í Austurbæ í Reykjavík. Þá hefur hann unnið töluvert með Daníel syni sínum (sem er trommuleikari hljómsveitar Friðjóns) og m.a. í Tríói Rutar Guðmundsdóttur tengdadóttur sinnar. Hann hafði einnig verið mikilvirkur í félagsmálum eystra, bæði í ungmenna- og íþróttastarfinu sem og þjóðfélags- og auðvitað tónlistarmálum eins og fyrr segir.

Friðjón á sínum yngri árum

Með danshljómsveit sinni hefur Friðjón unnið mikið og göfugt hugsjónastarf við að varðveita austfirska tónlist með því að leita uppi lög almennings í landshlutanum og gefa þeim opinbert líf með útgáfu en fyrsta plata þess efnis kom út árið 1996 undir titlinum Austfirskir staksteinar, síðan hafa komið út fleiri plötur undir sömu merkjum en einnig hefur hljómsveit hans sent frá sér plötur með lögum Óðins G. Þórarinssonar. Þessi lög hefðu annars aldrei komið fyrir sjónir almennings svo enginn getur efast um varðveislugildi slíks hugsjónastarfs. Þess má geta að Friðjón hefur í nokkur skipti farið með hljómsveit sinni á vinsælt danshljómsveitafestival – Dansbandsveckan í Svíþjóð sem tugir þúsunda gesta heimsækja ár hvert.

Friðjón hefur sungið inn á fjölda platna í gegnum tíðina, ýmist með hljómsveit sinni og með öðru tónlistarfólki. Fyrr eru nefndar Austfirsku staksteinarnir en einnig hefur hann sungið (og leikið á bassa) á safnplötum eins og Í laufskjóli greina og Fjörðurinn okkar (þar sem hann söng átta af nítján lögum plötunnar), og á plötum tónlistarmanna eins og Aðalsteins Ísfjörð, Snorra Evertssonar og Sólveigar Björnsdóttur.

Efni á plötum