Tage Ammendrup (1927-95)

Tage Ammendrup

Tage Ammendrup kom víða við í íslensku tónlistarlífi þótt flestir tengi nafn hans við útsendingar Ríkissjónvarpsins þar sem hann starfaði í áratugi, hann var hins vegar einnig tónlistarmaður, útgefandi, ritstjóri og sitthvað fleira.

Tage, sem var hálf danskur (átti danskan föður), fæddist í Reykjavík 1927 og snerist líf hans fljótlega um tónlist, hann var ekki orðinn tvítugur þegar hann kom inn í rekstur foreldra sinna sem ráku verslunina Drangey við Laugaveg sem hafði einkum upp á að bjóða leðurvarning, og bætti inn í vöruúrvalið hljómplötur og hljóðfæri. Hann hafði þó byrjað að starfa hjá fyrirtækinu mun fyrr og fyrr en varði tók hann við rekstri fyrirtækisins af foreldrum sínum.

Fljótlega fékk hann hljóðupptökutæki til landsins og byrjaði að taka upp tónlist í bakherbergi í Drangey, sem síðan var gefin út undir útgáfumerkinu Íslenzkir tónar sem Tage stofnaði í kjölfarið. Reyndar byrjaði sú útgáfa ekki sérlega vel þar sem honum hafði láðst fyrir misskilning að fá leyfi Björns R. Einarssonar (sem söng á fyrstu plötunni) fyrir útgáfu hennar.

Þrátt fyrir þessa byrjunarörðugleika gekk plötuútgáfan vel og hún átti eftir að skila af sér yfir 300 plötur, fyrst 78 snúninga og síðar 45 snúninga en Íslenzkir tónar lifðu allt til ársins 1964, varð stærst plötuútgáfa á Íslandi á því tímabili og gaf út mjög fjölbreytt úrval af tónlist þó mestmegnis væri um að ræða létta tónlist. Meðal listamanna sem hann gaf út má nefna Óðin Valdimarsson, Helenu Eyjólfsdóttur, Svavar Lárusson, Alfreð Clausen, Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason. Tage kom einnig að útgáfu Stjörnuhljómplatna sem var undirmerki Íslenzkra tóna. Samhliða plötuútgáfunni flutti Tage einnig inn hljómplötur til dreifingar og sölu hérlendis.

Löngu síðar eða um miðjan áttunda áratuginn seldi hann útgáfuréttinn af efni sínu til Svavars Gests (SG-hljómplatna) en Tage hafði átt megnið af útgáfurétti tónlistar á Íslandi á árunum á milli 1950 og 64. Sá útgáfuréttur átti síðar eftir að fara á mikið flakk en það er önnur saga.

Tage Ammendrup

Á þessum árum hafði Tage ennfremur verið mikilvirkur með annars konar útgáfu tengdri tónlist, hann hafði um tvítugt farið að gefa út tímaritið Jazz og í framhaldi af því tímaritið Musica. Þá gaf hann út nótur og kennslubækur í hljóðfæraleik undir merkjum Drangeyjar allt til ársins 1960.

Tage hafði aukinheldur stundað nám við Tónlistarskólann í Reykjavík á árunum 1945-50, hann lærði þar á fiðlu og mandólín og var í Mandólínhljómsveit Reykjavíkur og MAJ tríóinu um tíma.

Þá stóð Tage fyrir innflutningi á erlendu tónlistarfólki um tíma en frægt er þegar hann hugðist flytja djasshljómsveit Rex Stewart til landsins um 1950 en fékk ekki leyfi frá yfirvöldum hérlendis á þeim forsendum að þar var á ferð hljómsveit skipuð hörundsdökkum tónlistarmönnum. Hann stjórnaði ennfremur kabarettsýningum Íslenzkra tóna og stofnaði Jazzklúbbinn svo fáein dæmi séu tekin.

Árið 1964 urðu mikil tímamót í lífi Tage, hann hætti með plötuútgáfu sína og verslunarrekstur, og réðist til starfa hjá Ríkissjónvarpinu sem þá var að taka til starfa en það fór í loftið haustið 1966. Hann sótti í tilefni af því fjölda námskeiða erlendis, m.a. hjá Danska Ríkissjónvarpinu og BBC í Bretlandi auk styttri námskeiða í Bandaríkjunum og í Svíþjóð.

Reyndar hafði Tage starfað sem dagskrárgerðarmaður hjá útvarpinu áður, fyrst 1945-46 og síðar 1962-64, en hjá Ríkissjónvarpinu átti hann eftir að starfa þar til yfir lauk, við dagskrárgerð, útsendingastjórn, sem fulltrúi dagskrárstjóra og ýmislegt annað. Í minningargrein um hann segir að hann hafi komið að gerð um 1340 þátta fyrir Sjónvarpið.

Tage kom að ýmsum öðrum hliðum íslensks lista- og menningarlífs, hann sat í leiklistaráði og ýmsum öðrum nefndum og ráðum, hann ritaði fjölda greina í blöð og tímarit og var afar virtur í heimi fjölmiðla og tónlistar hérlendis.
Tage Ammendrup lést vorið 1995 á sextugasta og níunda aldursári.

Sjá einnig Íslenskir tónar [1] [útgáfufyrirtæki]