Íslenskir tónar [1] [útgáfufyrirtæki] (1947-78)

islenskir-tonar-logo

Merki Íslenskra tóna

Íslenskir tónar (Íslenzkir tónar) var öflug plötuútgáfa í eigu Tage Ammendrup en hún starfaði í nærri tvo áratugi og gaf út fjölda hljómplatna sem í dag eru sígildar í íslenskri tónlistarsögu.

Íslenskir tónar voru nátengdir versluninni Drangey við Laugaveg 58 en Tage rak hana ásamt móður sinni (Maríu Ammendrup), þar voru seldar bæði plötur og hljóðfæri. Um tíma gaf Tage einnig út nótur og lagatexta (Vinsælir danslagatexar) auk þess sem hann ritstýrði tímaritum um tónlist, Jazz og Musica.

Tage setti vorið 1947 upp lítið hljóðver í bakherbergi á lóðinni við Drangey og þar voru teknar upp plötur með upptökutækjum sem hann flutti sjálfur til landsins, mestmegnis voru það plötur ætlaðar til einkanota en ekki útgáfu.

Þegar Tage hugðist gefa út tveggja laga plötu (Christopher Columbus / Summertime) með básúnuleikaranum og söngvaranum Birni R. Einarssyni má segja að saga Íslenskra tóna hafi hafist. Sú saga hófst reyndar fremur illa því að þegar Tage hafði fengið upplagið af plötunni til landins (um 330 eintök) kom í ljós að Björn hafði aldrei gefið leyfi fyrir útgáfunni enda hélt hann að um væru að ræða prufuupptökur og þær meingallaðar að auki, söngurinn og hljóðfæraleikurinn langt frá því gallalaus og upptakan slæm. Deilum þeirra Tage og Björns lauk með málaferlum, eftir að Tage hafði hafnað boði Björns um að kaupa upplagið, með því að lögbann var sett á plötuna 1952 og hún kom því aldrei út. Eintök af henni eru því væntanlega sjaldséð og illfáanleg.

Það var því ekki fyrr en eftir þessa byrjunarörðugleika sem útgáfan fór af stað fyrir alvöru, og síðla árs 1952 komu út fáeinar plötur, m.a. með Litlu flugu Sigfúss Halldórssonar.

Í kjölfarið fór af stað blómleg og kraftmikil útgáfa, og um hundrað 78 snúninga plötur litu dagsins ljós þar til 45 snúninga plöturnar tóku yfir um miðjan sjötta áratuginn. Aðrar hundrað plötur komu út í þeirri stærð en munurinn á þeim fólst m.a. í að meira efni komst á 45 snúninga plöturnar, þær voru ennfremur gefnar út með plötuumslagi sem var nýlunda á þeim tíma. Tvær 33 snúninga plötur komu ennfremur út hjá Íslenskum tónum en það munu hafa verið fyrstu slíku plöturnar sem komu út hérlendis.

Og fleiri nýjungar litu dagsins ljós hjá Íslenskum tónum, útgáfan gerði tilraunir með útgáfu litaðra platna og platna sem voru einnig jólakort.

Margar af plötum Íslenskra tóna voru teknar upp í Ríkisútvarpinu en einnig var tekið upp í hljóðveri Drangeyjar, einhver hluti þeirra var ennfremur hljóðritaður erlendis. Efni þeirra var nokkuð blandað léttu efni og klassík þótt léttara efnið væri alltaf mun fyrirferðameira. Tage beitti ýmsum brögðum til að auglýsa útgefnar plötur, og hélt hann t.d. stundum miðnæturtónleika með vinsælustu söngvurunum til að vekja athygli á þeim.

Ragnar Bjarnason - Skipstjóravalsinn ofl

Plata með Ragnari Bjarnasyni frá 1963

Íslenskir tónar var starfandi til ársins 1964 en um það leyti voru 33 snúninga plöturnar að hefja innreið sína fyrir alvöru og Tage fór að sinna öðrum verkefnum, hann hóf t.a.m. störf hjá Ríkissjónvarpinu þar sem hann starfaði lengi.

Svavar Gests fyllti upp í tómarúmið sem Íslenskir tónar skildu eftir sig með SG-hljómplötum og svo fór áratug síðar að Svavar keypti Íslenska tóna og útgáfuréttinn af efninu, hann gaf út fáeinar safnplötur 1977 og 78 undir merkjum útgáfunnar en lét þar við sitja. Sá útgáfuréttur átti síðar eftir að hafa viðkomu hjá nokkrum aðilum tengdum plötuútgáfu á Íslandi áður en Sena eignaðist hann og hóf að gefa út undir undirmerkinu Íslenskir tónar aftur, það er þó önnur saga.

Margar af skærustu söngstjörnum sjötta og sjöunda áratugarins gáfu út plötur sínar hjá Íslenskum tónum, þeirra á meðal má nefna Óðin Valdimarsson, Alfreð Clausen, Ellyju Vilhjálms, Helenu Eyjólfsdóttur og Ragnar Bjarnason svo fáein dæmi séu hér tiltekin. Segja má að Íslenskir tónar hafi þannig átt sinn þátt í að gera þessar söngstjörnur að því sem þær urðu.