Drangey [tónlistartengdur staður] (1945-65)

Drangey Laugavegi 58

Drangey Laugavegi 58

Verslunin Drangey sem margir þekkja í Smáralindinni á sér langa og merka sögu og er hluti þeirrar sögu (1945-65) tengdur íslenskri tónlistarsögu.

Drangey var upphaflega matvöruverslun á Grettisgötu 1 en þar opnaði hún 1934. Árið 1936 keypti María Samúelsdóttir Ammendrup verslunina og fimm árum síðar flutti hún á Laugaveg þar sem hún var staðsett næstu áratugina.

Um þetta leyti var Drangey einkum með vefnaðar- og leðurvöru en þegar sonur Maríu, Tage Ammendrup kom inn í reksturinn urðu plötur og hljóðfæri hluti af vöruúrvalinu.

Tage stofnaði einnig plötuútgáfuna Íslenska tóna í húsnæðinu að Laugavegi 58 vorið 1947 og starfrækti þar ennfremur í bakherbergi hljóðver sem var eitt hið fyrsta sinnar tegundar hérlendis, og líklega hið fyrsta utan Ríkissjónvarpsins. Tage starfrækti aukinheldur útgáfu á tónlistartímaritum (Jazz og Musica) í Drangeyjarhúsinu.

Íslenskir tónar var fyrsta íslenska hljómplötuútgáfan sem gaf út 45 snúninga plötur en það var árið 1954, þá varð Drangey fyrsta verslunin til að selja slíkar plötur.

Plötur og hljóðfæri voru seld í Drangey allt fram á miðjan sjöunda áratuginn en síðan hefur verslunin sérhæft sig í leðurvarningi og gjafavörum og er enn starfandi, nú í Smáralindinni.