
Páll Ísólfsson þáttarstjórnandi
Útvarpsþátturinn Takið undir er án efa einn allra vinsælasti þáttur allra tíma í íslenskri útvarpssögu en í honum má segja að íslenska þjóðin hafi sameinast í söng og eflst í þjóðernisvitund sinni mitt í miðri sjálfstæðisbaráttunni.
Það mun hafa verið Páll Ísólfsson sem átti hugmyndina að þættinum en í honum smalaði hann saman litlum hópi söngfólks í útvarpssal, í fyrstu voru í honum tíu af hvoru kyni en síðar yfirleitt á bilinu átta til tíu manns, sem hann stjórnaði í beinni útsetningu og söng þjóðin með við viðtækin hringinn í kringum landið.
Mestmegnis var um að ræða þekkt ættjarðarlög og var það sjálfsagt meðvituð ákvörðun mitt í miðri heimsstyrjöld og sjálfstæðisbaráttu þjóðar sem verið hafði undir stjórn Dana sem um þetta leyti voru undir hæl Þjóðverja, þá var ástæðan ekki síður sú að erlend áhrif á menningu okkar með komu útlends hers voru mikil og því bæri að sporna við þeim áhrifum með söng íslenskra laga.
Kórinn sem söng í útvarpssal söng einraddað sem átti sjálfsagt stóran þátt í að þjóðin tók undir, enda fór svo að smám saman fékk hann nafnið Þjóðkórinn. Textar laganna og nótur birtust oft í Útvarpstíðindum fyrir þá sem ekki kunnu þá og hjálpaði það mörgum að læra lögin. Þá fléttaði Páll ýmsum fróðleik um tónlistina saman við efnið svo úr varð hálfgildings skemmtidagskrá en hann hafði lag á að blanda umfjöllunina kímni.
Takið undir var á dagskrá útvarpsins í nokkur ár, meira að segja eftir að sjálfstæðið var fengið. Þegar sú ákvörðun var tekin að taka hann af dagskránni árið 1947 féll það í grýttan jarðveg hjá landanum en Páll hafði þá engan veginn tíma til að sinna þessari þáttagerð samhliða öðrum verkefnum, Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari hafði reyndar stundum hlaupið í skarðið fyrir Pál þegar hann var erlendis og reyndar hafði þátturinn ekki verið alveg reglulega á dagskránni undir það síðasta.
Þegar til stóð að þátturinn yrði tekinn af dagskránni var ákveðið að efna til samkeppni meðal Íslendinga um hverjir kynnu flest lög. Sigurvegari þeirrar keppni reyndist kunna um þrettán hundruð laga eins og sá sem hafnaði í öðru sæti en alls voru sjö Íslendingar sem kunnu yfir þúsund lög.
Það fór þó ekki svo að Takið undir hætti alveg að svo stöddu, þátturinn var endurvakinn um þremur árum síðar og var hann á dagskrá útvarpsins (óreglulega að vísu) allt til ársins 1960, hann naut þó ekki jafn mikilla vinsælda og hann hafði gert á árunum 1940-47.
Líklegt er þó að þátturinn hafi skilað hlutverki sínu að sporna við erlendum áhrifum á íslenska tungu og sjálfsagt einnig haft einhver áhrif á þjóðernisvitund íslensku þjóðarinnar mitt í miðri sjálfstæðisbaráttunni þótt líklega hefur það ekki þurft til.