Páll Ísólfsson (1893-1974)

Páll Ísólfsson

Páll Ísólfsson

Páll Ísólfsson tónskáld og orgelleikari hlýtur að teljast einn af hornsteinum íslenskrar tónlistar enda einn af forystumönnum í íslensku tónlistarlífi sem hafði áhrif á kynslóðir tónlistarfólks hérlendis.

Páll fæddist 1893 á Stokkseyri og bjó þar til fimmtán ára aldurs þegar hann fór til Reykjavíkur til orgelnáms hjá Sigfúsi Einarssyni tónskáldi en faðir Páls, Ísólfur Pálsson var einmitt einnig organisti og tónskáld. Samhliða orgelnáminu starfaði Páll í prentsmiðju en til stóð að hann lærði þá iðn. Hann dvaldist einnig um tíma í Kaupmannahöfn þar sem hann lærði m.a. hljóðfærastillingar og -smíði en hann átti eftir að starfa lítillega við það síðar.

Þegar Páll varð tvítugur fór hann til frekara orgel- og tónlistarnáms í Leipzig í Þýskalandi þar sem hann nam hjá dr. Karl Straube og var jafnframt aðstoðarmaður hans og staðgengill um tveggja ára skeið við Tómasarkirkjuna þar sem Straube starfaði. Páll nam einnig píanóleik og tónfræði og síðar fór hann til framhaldsnáms í Frakklandi fyrir hvatningu Straube.

Að námi loknu hélt Páll heim til Íslands 1921 en áður hélt hann tónleika víða í Þýskalandi og Danmörku við góðan orðstír.

Á meðan Páll var við nám erlendis hafði hann komið heim og haldið sína fyrstu sjálfstæðu orgeltónleika en það var  haustið 1916, fjórum árum áður hafði hann komið fram í fyrsta skipti opinberlega þegar hann lék á orgel undir samsöng í Dómkirkjunni. Eftir heimkomuna 1921 fékkst hann fyrst í stað við tónlistarkennslu, hann hélt síðan reglulega tónleika framan af en síðar varð lengra á milli slíkra samkoma hjá honum enda verkefni af öðrum toga ærin.

Það var um 1930 sem hjólin fóru að snúast að ráði hjá Páli, Ríkisútvarpið tók til starfa það ár og hlaut hann sæti í útvarpsráði og tók síðar við starfi tónlistarráðunauts og tónlistarstjóra en síðarnefnda starfinu gegndi hann til 1959. Tónlistarskólinn í Reykjavík var stofnaður 1930 og varð Páll fyrsti skólastjóri hans og starfaði við það til 1957 en hann er almennt hafa unnið mikið starf fyrir íslenskt tónlistarlíf hjá Ríkisútvarpinu og Tónlistarskólanum.

Alþingishátíðin 1930

Frá Alþingishátíðinni 1930

Alþingishátíðin var einnig haldin 1930 og af því tilefni var haldin samkeppni um tónverk við hátíðarljóð sem öll helstu tónskáld þjóðarinnar tóku þátt í. Páll sigraði þá samkeppni með hátíðarkantötu sinni í samvinnu við Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi en kantatan hefur jafnan verið nefnd sem fyrsta stóra tónverkið í íslenskri tónlistarsögu. Alþingishátíðin var ennfremur stærsti vettvangur tónlistarflutnings á Íslandi til þess tíma. Síðar vann Páll einnig til verðlauna með Háskólakantötu sinni á Skálholtshátíðinni 1956.

Páll varð afar vinsæll þáttastjórnandi þegar hann annaðist útvarpsþættina Takið undir en í þeim stjórnaði hann fjöldasöng sem þjóðin öll tók þátt í, sá þáttur var á dagskrá Ríkisútvarpsins í fjölda ára um og eftir seinna stríð

Hér heima hafði hann tekið við stjórn Lúðrasveitar Reykjavíkur og gegnt því í tólf ár en hann starfaði við fleiri tónlistartengd verkefni, hann starfaði m.a. með Útvarphljómsveitinni, kenndi orgelleik við Háskóla Íslands, ritaði tónlistargagnrýni í Morgunblaðið um árabil, var organisti Fríkirkjunnar til margra ára og organisti Dómkirkjunnar í nærri því þrjá áratugi, stjórnaði hljómsveitum og kórum við ýmis tækifæri s.s. við flutning á óratóríunni Sköpuninni eftir Haydn, sem var sú fyrsta sem sett var á svið hérlendis. Þá eru ótalin öll þau skipti sem hann kom fram á tónleikum sem orgel- eða píanóleikari.

Að ofan eru nefndar verðlaunakantötur Páls en af öðrum stórum hljómsveitaverkum má nefna Hátíðarmars sem hann helgaði hálfrar aldar afmæli Háskóla Íslands, auk hátíðarforleiks fyrir vígslu Þjóðleikhússins. Hann samdi ennfremur smærri tónsmíðar s.s. fyrir píano, orgel og hljómsveitir.

Páll Ísólfsson1

Páll við orgelið

Páll varð einnig þekktur fyrir sönglög sín og mörg þeirra hafa öðlast sígildi, þeirra á meðal má nefna Sáuð þið hana systur mina, Blítt er undir björkunum (Ég beið þín lengi lengi), Í dag skein sól, Brennið þið vitar og Víst ert þú Jesús, kóngur klár. Tónlist hans úr leikritunum Gullna hliðinu, Veizlunni á Sólhaugum og Myndabók Jónasar eru einnig vel þekkt.

Páll sinnti ennfremur ýmsum félagsmálum tónlistarmanna, var í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var formaður Félags íslenskra organista, í stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna, formaður Tónskáldafélags Íslands og sat í útvarpsráði um skeið. Hann var ennfremur ritstjóri söngmálatímaritsins Heimis, formaður ritnefndar tímaritsins Tónlistarinnar og kom að stofnun STEFs ásamt fleirum.

Páll gat verið skapmaður og erfiður í umgengni, hann var mikill fullkomnunarsinni og gat einnig verið stressaður í plötuupptökum, allt að því veikur af stressi. Það breytir því þó ekki að hann fékk undantekningalaust góða dóma fyrir plötur sínar. Þeir Jón Leifs tónskáld (sem eins og Páll kom að starfsemi STEFs) áttu illa skap saman og e.t.v. átti samkeppnin þeirra á milli sinn hlut að máli.

Eins og gefur að skilja hlaut Páll margvíslegar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, hann hlaut stórkross Fálkaorðunnar, heiðursnafnbót við Oslóarháskóla og konunglegu sænsku akademíunnar auk annarra erlendra heiðursviðurkenninga.

Páll lést 1974, ríflega áttræður að aldri.

Páll Ísólfsson 1963

Páll við hálfrar aldar afmæli Háskóla Íslands 1963

Orgelleik Páls er að finna á fjölmörgum plötum, sú fyrsta kom út 1933 en tuttugu árum síðar komu út sex 78 snúninga plötur í möppu þar sem hann lék orgelverk eftir J. S. Bach, mappan kom út í fjögur hundruð eintökum. Tvær litlar plötur komu út með orgelleik Páls 1961 en það var síðan 1969 sem Alþingiskantata hans við ljóð Davíðs Stefánssonar kom út á stórri plötu leikin af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Róberts A. Ottóssonar og sungin af stórum kór.

Þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu Páls árið 1993 kom út tvöfalda platan Páll Ísólfsson: Aldarminning 1993, en á þeirri plötu er að finna upptökur með orgelleik Páls. Ári síðar var Alþingiskantatan aftur gefin út í flutningi Kórs Íslensku óperunnar, karlakórsins Fóstbræðra, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og fleiri undir stjórn Garðars Cortes en þá var hálf öld liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi.

1997 kom út platan Svipmyndir & glettur þar sem Örn Magnússon lék píanóverk Páls en þær höfðu hvergi komið út áður, fjórum árum síðar gaf Nína Margrét Grímsdóttir út plötuna Páll Ísólfsson: Complete orgiginal piano music en þar var að finna heildarútgáfa píanóverka Páls. Og 2004 kom út plata Björns Steinars Sólbergssonar organista á Akureyri, Páll Ísólfsson: Orgelverk.

Ótal margar plötur er ennfremur að finna þar sem tónlist Páls er að finna og þar sem hann leikur undir söng kóra og einstaklinga auk þess að stjórna kórum, hér má nefna plötur með Dómkirkjukórnum, Helenu Eyjólfsdóttur, Páli Kr. Pálssyni, Guðmundu Elíasdóttur, Elsu Sigfúss, Þuríði Pálsdóttur, Einari Sturlusyni og Þorsteini Hannessyni.

Að minnsta kosti þrjár bækur hafa verið gefnar út um Pál, í tveimur tilvikum var um að ræða samtalsbækur eftir Matthías Johannessen ritstjóra Morgunblaðsins, Hundaþúfan og hafið (1961) og Í dag skein sól (1964). 1963 kom ennfremur út bókin Páll Ísólfsson eftir Jón Þórarinsson en hún kom út í tilefni af sjötugs afmælis Páls. Páls er ennfremur nokkuð getið í ævisögu dóttur hans, Þuríðar Pálsdóttur söngkonu.

Efni á plötum