Þjóðkórinn (1940-69)

Þjóðkórinn syngur á Þingvöllum 1944 undir stjórn Páls Ísólfssonar

Þjóðkórinn svokallaði var afsprengi Páls Ísólfssonar en kórinn var aufúsugestur í útvarpsviðtækjum landsmanna um árabil, frá árinu 1940 og langt fram á sjöunda áratuginn.

Páll hafði áhyggjur, á þeim viðsjárverðum tímum sem stríðsárin voru, af erlendum áhrifum á menningu Íslendinga og fékk þá hugmynd að stofna kór sem hefði það hlutverk að syngja lög, einkum ættjarðarlög í sérstökum útvarpsþætti sem landsmenn gætu sungið með við útvarpstækin um land allt.

Í fyrstu var kórinn skipaður tíu körlum og tíu konum , hann var nafnlaus og var ætlað hlutverk sitt í þætti sem hlaut nafnið Takið undir og var í umsjá Páls. Kórinn söng einraddað og voru landsmenn hvattir til að syngja með en á milli laga fræddi Páll hlustendur um tónlistina og talaði jafnvel við höfunda tónlistarinnar, oft í léttum dúr.

Takið undir naut strax mikilla vinsælda og varð einn langlífandi útvarpsþáttur Ríkisútvarpsins. Vinsældir hans voru það miklar að segja má að þjóðin hafi þarna sameinast við viðtækin og þá orðið til hin séríslenska þjóðarsál sem styrktist ennfremur þegar kosið var um lýðveldi þjóðarinnar 1944, og poppar reglulega upp í tengslum við íþróttaviðburði og önnur tækifæri.

Þjóðkórinn á forsíðu Heimilisblaðsins Vikunnar

Sem fyrr segir var kórinn nafnlaus í byrjun en hlaut Þjóðkórs-nafn sitt frá einhverjum hlustandanum, og festist það nafn við kórinn enda var kórinn auðvitað þjóðin, kórinn sem söng í útvarpssal voru aðeins forsöngvarar.

Haustið 1941 var sagt frá því í fjölmiðlum að til stæði að kórinn myndi syngja inn á plötur en ekki virðist hafa orðið neitt úr þeim fyrirætlunum. Tveimur árum síðar var síðan í fyrsta skipti sungið utan útvarpsþáttanna þegar Páll stjórnaði hópi fólks í Vaglaskógi undir nafni Þjóðkórsins. Þar gátu áhorfendur tekið undir söng kórsins á staðnum og svo var líka þegar kórinn kom við sögu á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944 en þá tóku undir á staðnum á þriðja tug þúsunda manna. Frá og með 1947 og allt til ársins1966 söng kórinn á 17. júní skemmtunum í miðbæ Reykjavík undir stjórn Páls, utan tveggja skipta sem hann var erlendis en þá annaðist Þórarinn Guðmundsson kórstjórnina.

Þjóðkórinn söng ekki reglulega í útvarpinu og þegar langt leið á milli þátta voru landsmenn fljótir að minna á sig á lesendasíðum dagblaðanna. Reyndar fór svo í nokkur skipti að til stóð að hætta með þáttinn en alltaf þurfti að hverfa frá þeim fyrirætlunum vegna vinsælda hans.

Þar kom að í tengslum við þáttinn að sett var af stað samkeppni um hvaða Íslendingur kynni flest lög, það reyndist vera kona úr Kelduhverfinu fyrir norðan, organisti þar í sveit sem sigraði keppnina og reyndist kunna um þrettán hundruð laga.

Ekki liggur alveg fyrir hversu lengi Þjóðkórinn starfaði, í nokkur skipti segja fjölmiðlar frá því á sjöunda áratugnum að kórinn sé allur en alltaf kom hann þó aftur. Hann söng þó líklega sitt síðasta 1968 eða 69.

Þess má geta að fáeinum sinnum hefur verið gerð tilraun til að endurvekja Þjóðkórinn í einni eða annarri birtingarmynd, t.d. árið 1992 en tilefnið var þá Ár söngsins. Sú tilraun gekk ekki upp enda útvarps- og söngmenning með allt öðrum hætti en á blómaskeiði kórsins á fimmta, sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.