Þjóðleikhúskórinn (1953-95)

Þjóðleikhúskórinn

Þjóðleikhúskórinn var starfandi við Þjóðleikhúsið í áratugi og kom við sögu á hundruðum sýninga og tónleika meðan hann starfaði.

Það mun hafa verið Guðlaugur Rósinkranz þáverandi Þjóðleikhússtjóri sem stakk upp á því að kórinn yrði stofnaður árið 1953 en Þjóðleikhúsið hafði verið sett á laggirnar þremur árum fyrr. Dr. Victor Urbancic hljómsveitarstjóri leikhússins stofnaði hins vegar kórinn, hélt utan um inntökuprófin og stjórnaði honum fyrstu árin, flestir stofnmeðlima komu úr Tónlistarfélagskórnum.

Kórinn var blandaður kór, innihélt um tuttugu og fimm manns í upphafi en síðar var talan í kringum fjörutíu lengst af. Æfingar hófust í febrúar 1953 og í maí söng kórinn í fyrsta skipti opinberlega, í móttöku á hafnarbakkanum við Reykjavíkurhöfn fyrir finnskt listafólk sem hingað kom með Gullfossi. Síðar í sama mánuði var La traviata sett á svið í Þjóðleikhúsinu en það var fyrsta óperuuppfærslan sem kórinn söng við og langt í frá sú síðasta.

Þjóðleikhúskórinn söng ekki aðeins í óperum og óperettum heldur einnig í söngleikjum og almennum sýningum, auk þess sem kórinn kom reglulega fram á tónleikum, bæði sjálfstæðum tónleikum og með öðru söngfólki, jafnvel með kirkjulega tónlist. Meðal leikhúsverka má nefna Cavalleria Rusticana, Ævintýri Hoffmanns, Leðurblökuna, Oklahoma, Þrymskviðu, Sígaunabaróninn, My fair lady, Faust, Oliver Twist, Rigoletto og Carmen svo fáein séu nefnd.

Kórinn fór að minnsta kosti tvívegis í söngferðalög erlendis, á Íslendingaslóðir í Kanada þjóðhátíðarafmælisárið 1974 og til Færeyja þegar hann hélt upp á tuttugu og fimm ára afmælið 1978.

Eftir að Victor Urbancic lést 1958 var Róbert A. Ottósson um tíma stjórnandi Þjóðleikhúskórsins en síðan komu þau hvert á fætur öðru, Dr. Hallgrímur Helgason, Herbert Hriberschek, Ragnar Björnsson, Carl Billich, Páll Ísólfsson, Bodan Wodiscko, Garðar Cortes, Jón Ásgeirsson, Páll P. Pálsson, Agnes Löve og Þuríður Pálsdóttir, jafnvel enn fleiri. Enginn fastráðinn stjórnandi var eftir að Urbancic var með kórinn heldur var mestmegnis um að ræða tímabundnar lausráðningar tengdar ákveðnum verkefnum, Carl Billich var lengst fyrrgreindra kórstjóra við stjórnina.

Þjóðleikhúskórinn var alltaf sjálfstæð eining innan Þjóðleikhússins, með eigin stjórn en í nánu samstarfi við leikhúsið, kórinn starfaði líklega til ársins 1995.

Kórinn kom oftsinnis fram í útvarpi og sjónvarpi og einnig komu út plötur með söng hans, 1956 kom út tveggja laga plata útgefin af Íslenzkum tónum þar sem hann söng undir stjórn Victor Urbancic og árið 1970 kom út á vegum Fálkans tíu laga plata undir titlinum Raddir úr leikhúsi en á þeirri plötu er að finna tónlist úr ýmsum óperum og söngleikjum. Árið 1983 var síðan ráðist í stórvirkið Cavalleria Rusticana sem kórinn söng undir stjórn Jean-Pierre Jacquillat og gefin var út á tveimur plötum en það var í fyrsta skipti sem heil ópera var tekin upp og gefin út hérlendis. Óperan var tekin upp í Háskólabíói af Sigurði Rúnari Jónssyni um haustið 1983 en hafði verið í sýningu í Þjóðleikhúsinu um vorið.

Margt þekkts söngfólks var í Þjóðleikhúskórnum og þeirra á meðal nefna Þuríði Pálsdóttur, Ingibjörgu Þorbergs, Ketil Jensson, Berglindi Bjarnadóttur, Hjálmtý Hjálmtýsson, Elísabetur Eiríksdóttur, Sigurveigu Hjaltested, Ingibjörgu Hjaltested, Rósu Ingólfsdóttur og Magnús Jónssonar svo nokkur nöfn séu nefnd.

Efni á plötum