Sigurður Ágústsson frá Birtingaholti (1907-91)

Sigurður Ágústsson frá Birtingaholti

Tónlistarfrömuðurinn Sigurður Ágústsson frá Birtingarholti sinnti tónlist með einum eða öðrum hætti alla sína ævi, hann stjórnaði kórum, var organisti, kennari og skólastjóri, tónskáld og textaskáld samhliða bú- og félagsstörfum í sveitinni sinni.

Sigurður Ágústsson var fæddur vorið 1907 í Birtingaholti í Hrunamannahreppi í Árnessýslu, hann var yngstur níu systkina og sýndi ungur tónlistarhæfileika á orgel heimilisins svo hann var sendur í orgelnám ellefu ára gamall hjá Kjartani Jóhannessyni en einnig nam hann tónfræði síðar hjá Sigfúsi Einarssyni og Sigvalda Kaldalóns. Hann var því ekki hár í loftinu þegar hann var farinn að leika á orgel í messum í heimabyggð sinni, líklega um þrettán ára aldur.

Sigurðu var einungis sautján ára gamall þegar hann stofnaði karlakór í sveitinni sem hlaut nafnið Hreppakórinn, þeim kór stjórnaði hann til ársins 1950 þegar hann var lagður niður – utan smá tíma sem hann var búsettur í Keflavík ásamt nýgiftri eiginkonu sinni en á þeim tíma stofnaði hann og stjórnaði Karlakór Keflavíkur (hinum fyrri) um eins árs skeið. Sigurður stofnaði og stjórnaði fleri kórum, Flúðakórnum í tíu ár og Söngfélagi Hreppamanna (sameiginlegum kór Gnúpverja og Hrunamanna) sem báðir voru blandaðir kórar en hann var jafnframt undirleikari þeirra kóra. Þegar síðarnefndi kórinn var lagður niður 1973 stofnaði Sigurður nýjan Flúðakór en sá kór gekk inn í stórt verkefni sem þá var framundan, hátíðardagskrá í tilefni af 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974 en stofnaður var svokallaður Þjóðhátíðarkór Árnesinga sem samanstóð af kórum úr sýslunni. Sigurður var stjórnandi þessa stóra kórs sem flutti Hátíðarkantötu eftir hann við texta Guðmundar Daníelssonar rithöfundar, sú kantata mun síðar hafa verið hljóðrituð en hefur líklega þó ekki komið út á plötu. Einnig stjórnaði Sigurður Árnesingakórnum í Reykjavík um tíma.

Sigurður Ágústsson

Sigurður hafði byrjað að semja tónlist strax í æsku og um miðja öldina voru kórar hans farnir að syngja lög eftir hans. Mörg laga hans hafa komið út á plötum og má þar m.a. nefna lög eins og Árnesþing, Haust, Inga Dóra, Glerbrot og Kvöldljóð en tvö sönglagahefti hafa komið út með lögum hans, Sönglög 1 og Sönglög 2. Þá samdi hann einnig fjölda texta sem sumir hverjir hafa orðið þekktir svo sem Fangakórinn, Flökkumaðurinn, Kibba-Kibba og síðast en ekki síst Kötukvæði sem allir þekkja væntanlega. Reyndar hafði Sigurður orðið fyrir miklu tjóni þegar íbúðarhúsið að Birtingaholti brann í febrúar 1951 en þar eyðilögðust handrit af yfir hundruð tónverkum eftir hann. Árið 1983 kom út plata á vegum Fálkans sem hafði að geyma úrval af sönglögum hans, hún bar titilinn Söngkveðjur: Lög eftir Sigurð Ágústsson frá Birtingaholti og voru nokkrir af kunnustu einsöngvurum þjóðarinnar flytjendur laganna, s.s. Guðmundur Jónsson, Svala Nielsen, Magnús Jónsson og Kristinn Hallsson en Ólafur Vignir Albertsson og Guðrún A. Kristinsdóttir önnuðust undirleik á píanó.

En Sigurður kom að ýmsum fleiri tónlistartengdum verkefnum um ævina, hann kenndi söng við Héraðsskólann á Laugarvatni um tíma og kenndi reyndar víða um Suðurland auk þess að vera skólastjóri bæði Barnaskólans á Flúðum og Tónlistarskóla Árnesinga, þá gegndi hann um skeið stöðu formanns Tónlistarfélags Árnessýslu en hann var fremstur í flokki þeirra sem börðust fyrir tilveru tónlistarskólanna og að lög yrðu sett um þá. Hann var organisti í Hrepphólakirkju í yfir sex áratugi og einnig organisti í Hrunakirkju í mörg ár.

Sigurður Ágústsson frá Birtingaholti

Fyrir störf sín að tónlistarmálum hlaut Sigurður margvíslegar viðurkenningar, hann fékk t.a.m. fálkaorðuna, var gerður að heiðursborgara í Hrunamannahreppi, heiðursfélagi Ungmennafélags Hrunamannahrepps, Tónlistarfélags Árnessýslu og Landssambands blandaðra kóra svo nokkur dæmi séu nefnd. Sigurður gegndi stöðu hreppstjóra í Hrunamannahreppi um tíma auk ýmissa félags- og trúnaðarstarfa samhliða daglegum störfum bóndans sem hann var vissulega líka.

Sigurður Ágústsson frá Birtingaholti lést árið 1991 en hans hefur reglulega verið minnst í heimabyggð sinni með tónleikahaldi, t.d. árið 2007 þegar aldarafmæli hans var minnst með afmælishátíð þar sem nokkrir kórar í Árnessýslu fluttu lög hans. Af sama tilefni sendi Karlakór Hreppamanna frá sér plötuna Karlakór Hreppamanna 10 ára / Sigurður Ágústsson aldarafmæli sem tileinkuð var tónlist og ljóðum Sigurðar.

Efni á plötum