Hjálpum þeim [annað] (1985-)

Íslenska hjálparsveitin haustið 1985

Lagið Hjálpum þeim er án nokkurs vafa þekktasta „styrktarlag“ sem gefið hefur verið út á Íslandi en það hefur skapað tekjur fyrir hjálparstarf Hjálparstofnunar kirkjunnar í gegnum árin.

Fyrirmyndirnar að laginu og hjálparstarfsverkefninu í kringum það komu frá Bretlandi og Bandaríkjunum en haustið 1984 höfðu breskir tónlistarmenn sent frá sér smáskífuna Do they know it‘s christmas undir nafninu Band Aid til styrktar Eþíópíumönnum sem þá höfðu þurft að þola hungursneyð, og sumarið 1985 voru svo haldnir risatónleikar til styrktar sama verkefni á Wembley leikvanginum í London undir yfirskriftinni Live Aid. Í millitíðinni (vorið 1985) kom út sambærileg smáskífa í Bandaríkjunum með USA for Africa hópnum undir titlinum We are the world.

Axel Einarsson tónlistarmaður samdi því lag sem hann fékk Jóhann G. Jóhannsson til að semja texta við og úr varð smellurinn Hjálpum þeim. Í samstarfi við Hjálparstofnun kirkjunnar, auglýsingastofuna Nýtt útlit og Skífuna var farið af stað með sams konar verkefni haustið 1985 og í Bretlandi og Bandaríkjunum en hópurinn sem kom að verkefninu hér heima var ýmist kallaður Hjálparsveitin eða Íslenska hjálparsveitin.

Um sextíu tónlistarmenn komu að verkefninu og reyndar munu um hundrað manns samtals hafa gefið vinnu sína í þessu sjálfboðaliða verkefni, flest af þekktasta og vinsælasta tónlistarfólki landsins var þeirra á meðal og voru í þeim hópi bæði söngvarar úr röðum poppara og klassískrar tónlistar – poppararnir voru að sjálfsögðu sýnu meir áberandi en þarna voru m.a. Björgvin Halldórsson (sem hélt utan um tónlistarhluta verkefnisins), Pétur Kristjánsson, Laddi, Jóhann Helgason, Helga Möller, Helgi Björnsson, Kristján Jóhannsson, Diddú og Bubbi Morthens en sá síðast taldi var um það leyti sem lagið var hljóðritað staddur í Svíþjóð við upptökur og fór Gunnar Þórðarson sem vann að upptökunum sérferð þangað til að láta Bubba syngja sinn hluta í laginu.

Hluti Hjálparsveitarinnar 1985

Smáskífan Hjálpum þeim kom svo út í kringum 10. desember en á henni var að finna tvær útgáfur af laginu, hina sungnu og svo intrumental (ósungna útgáfu). Landsmenn voru fljótir að taka við sér og strax 13. desember hafði lagið stokkið beint í toppsæti Vinsældarlista Rásar 2 og skellti þar Herberti Guðmundssyni og Can‘t walk away af toppnum, og lagið var á toppi listans fram undir lok janúar þegar það vék fyrir Gaggó Vest með Eiríki Haukssyni en lagið var lengi á topp 30 listans. Platan seldist aukinheldur gríðarlega vel og þegar upp var staðið hafði hún selst í yfir sextán þúsund eintökum og að mestu leyti fyrir jól, þeim tveimur vikum frá útgáfunni og fram að jólum – platan varð að sjálfsögðu söluhæsta platan á Íslandi árið 1985 en reyndar er hér um smáskífu að ræða.

Ýmislegt var gert til að fylgja útgáfunni og söfnuninni eftir og t.a.m. mættu flestir af poppurunum niður í miðbæ Reykjavíkur og þá var gengið niður Laugaveginn niður að Lækjartorgi og staldrað við plötuverslanir í því skyni að kynna og selja plötuna. Allur ágóðinn af sölunni rann svo til Hjálparstofnunar kirkjunnar sem hafði milligöngu um að heimili fyrir munaðarlaus börn var reist í Eþíópíu.

Lagið varð strax klassískt og hefur alla tíð verið greypt í huga þjóðarinnar en sögu þess var þó hvergi nærri lokið, það var t.d. flutt í grín-útgáfu í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins ári síðar en reyndar mátti litlu muna að lögbann yrði sett á það þar vegna þess að það hafði láðst að fá leyfi fyrir tiltækinu.

Nokkrir af söngvurum 2005 útgáfunnar

Það var svo haustið 2005 að fregnir bárust af því að í bígerð væri endurgerð af laginu, það átti sér reyndar forsögu sem náði til 2004 en það haust hafði Mikael Torfason þáverandi ritstjóri DV stungið hugmyndinni að Einari Bárðarsyni sem þá var orðinn vel þekktur sem umboðsmaður og lagahöfundur, Einar talaði þá við Þorvald Bjarna Þorvaldsson upptökustjóra og útsetjara en ekki gafst tími til verkefnisins fyrr en haustið 2005 að ráðist var í endurgerðina – um það leyti höfðu orðið mjög mannskæðir jarðskjálftar í Pakistan og stóð Hjálparstofnun kirkjunnar fyrir fjársöfnun vegna þess, það þótti því kjörið að tengja útgáfu nýju útgáfunnar við þá söfnun. Þorvaldur Bjarni og Vignir Snær Vigfússon stjórnuðu því sem kom að upptökum á nýju útgáfu lagsins en í samstarfi við höfunda þess, Axel og Jóhann G. og Björgvin Halldórsson sem hafði komið að verkefninu tveimur áratugum fyrr, og aftur var hóað í fjölda tónlistarmanna – aðallega söngvara til að endurskapa lagið í nýrri mynd. Þar voru m.a. á ferð nokkrir þeirra sem höfðu tekið þátt í fyrri útgáfunni en einnig nýrri stjörnur s.s. Birgitta Haukdal, Stefán Hilmarsson, Páll Óskar, Gunnar Ólason, Selma Björnsdóttir, Eivör o.fl. Þess má geta að notast var m.a. við orgel Hallgrímskirkju við upptökurnar á laginu.

Lagið hlaut aftur ágætar viðtökur þótt þær væru ekki endilega alveg eins almennar og tuttugu árum áður, fyrsta upplagið – tíu þúsund eintök höfðu selst fyrir jólin og viðbótarupplag upp á fjögur þúsund eintök komu svo til landsins milli jóla og nýárs. Allur ágóðinn rann eins og í fyrri söfnuninni til Hjálparstofnunar kirkjunnar, fyrir utan að virðisaukaskattur rann til ríkisins en þegar hafði verið sótt um undanþágu um greiðslu skattsinss vegna málefnisins fékkst hann síðar endurgreiddur. Myndband var gert við lagið en það hafði einnig verið gert við fyrri útgáfu lagsins.

Hjálpum þeim – hópurinn 2005

Árið 2011 kom út tvöföld plata undir nafninu Hjálpum þeim / Help them, annars vegar sex laga plata sem hafði að geyma allar fyrri útgáfur plötunnar, þ.e. lögin sungin og ósungin frá 1985 og 2005 en einnig nýja útgáfu lagsins á ensku, flutta af söngvurum eins og Friðriki Ómari, Hafdís Huld, Þórunni Antoníu, Páli Rósinkranz o.fl. en þar var notast við sama undirleik og 2005 – hins vegar var dvd diskur með myndböndum tengdum laginu frá 1985 og 2005 en einnig nýtt efni. Þessi plata var gefin út til styrktar hjálparstarfi Hjálparstofnunar kirkjunnar í Austur-Afríku en sá hluti álfunnar hafði orðið illa úti í kjölfar hamfara af völdum náttúrunnar og mannsins. Það var fjölmiðlakonan Andrea Jónsdóttir sem hélt utan um þetta verkefni en Pétur Hjaltested stjórnaði upptökum.

Lagið Hjálpum þeim hefur því með reglulegum hætti poppað upp í íslenskri tónlistarsögu frá árinu 1985, og reyndar oftar en hér hefur verið nefnt – hér má t.a.m. nefna að lagið var flutt á tónlistarhátíðinni Jól Jólsson sem haldin var á Hótel Íslandi fyrir jólin 2009 og rann hluti ágóðans af aðgöngumiða hátíðarinnar til Hjálparstofnunar kirkjunnar – meðal flytjenda lagsins þá voru söngvarar úr röðum sveita eins og Gus gus, FM Belfast, Legend o.fl. Þá hefur poppkórinn Vocal project flutt lagið á tónleikum og ekki má heldur gleyma útgáfu Emmsjé Gauta og Jülevenner 2020, sem kom út á plötunni Það eru komin jül og hét reyndar þar Hjálpum mér (Hjálpum þeim 2020), svo fáein dæmi séu nefnd um þetta þekkta lag.

Það er því næsta víst að sögu lagsins Hjálpum þeim sé hvergi nærri lokið.

Efni á plötum