Fríkirkjukórinn í Hafnarfirði (1913-)

Kór Fríkirkjunnar í Hafnarfirði

Kór hefur verið starfandi við Fríkirkjuna í Hafnarfirði á aðra öld þótt upplýsingar liggi ekki fyrir nákvæmlega um hvenær hann var stofnaður eða hvort hann hefur starfað alveg samfleytt, í þessari umfjöllun er gert ráð fyrir að hann hafi starfað frá stofnun kirkjunnar árið 1913 en Fríkirkjan var fyrsta kirkjan sem reist var í Hafnarfirði.

Kórinn sem ýmist hefur verið kallaður Fríkirkjukórinn í Hafnarfirði eða Kór Fríkirkjunnar í Hafnarfirði hefur sem fyrr segir líklega verið starfandi frá stofnun kirkjunnar en ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um stjórnendur hans framan af. Fyrir liggur að Sigurjón Arnlaugsson var stjórnandi kórsins í kringum 1950 og að Hjörleifur Zófóníasson tók við af honum líklega 1954 eða 55 en upplýsingar vantar svo um hversu lengi hann var við stjórnina og hverjir voru við stjórnvölinn allt til ársins 1979, þá var Jón Mýrdal stjórnandi kórsins og organisti kirkjunnar. Jón var ennþá stjórnandi Fríkirkjukórsins árið 1981 og það ár var karlakór sagður hafa verið starfandi innan kirkjunnar, ekki er ljóst hvort það var þá hinn eiginlegi Fríkirkjukór.

Eftir 1983 eru söngstjóramál kórsins mun skýrari, Jóhann Baldvinsson var það ár stjórnandi og mun Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir hafa tekið við af honum og svo Þóra Vigdís Guðmundsdóttir organisti áður en Örn Arnarson kom til starfa í kringum aldamótin og tók við af henni eftir að þau höfðu gegnt kórstjórastarfinu saman um tíma. Á þeim árum fór kórinn tvívegis til útlanda til tónleikahalds, annars vegar til Danmerkur og hins vegar á Íslendingaslóðir Kanada.

Örn hefur verið allt í öllu síðustu árin hjá Fríkirkjukórnum í Hafnarfirði ásamt fleiru tónlistarfólki og hefur tónlistarstarfið verið mjög öflugt innan kirkjunnar, þar starfa minni sönghópar s.s. barna- og unglingakórar sem og einnig hljómsveit – Fríkirkjubandið sem lék undir söng kórsins á fimm laga plötu sem kom út árið 2013 og fylgdi bók eftir þau Björn Pétursson, Jóhann Guðna Reynisson og Sigríði Valdimarsdóttur, í tengslum við aldarafmæli kirkjunnar en bókin bar titilinn Loksins klukknahljómur: Saga Fríkirkjunnar í Hafnarfirði í 100 ár.

Einhverjar upptökur með kórnum hafa verið varðveittar á plötum sem Ríkisútvarpið hljóðritaði um miðja síðustu öld en þær upptökur hafa ekki verið gefnar út opinberlega.

Efni á plötum