Hjörtur Blöndal (1950-)

Hjörtur Blöndal

Hjörtur Blöndal hefur ekki verið áberandi í íslensku tónlistarsenunni um margra áratuga skeið en hann var nokkuð þekktur tónlistarmaður um og upp úr 1970 og svo sem upptökumaður og útgefandi fáeinum árum síðar. Hann flutti erlendis og er í dag líklega sá Íslendingur sem hefur gefið út flestar plötur en plötutitlar hans (breiðskífur og smáskífur) munu vera á þriðja hundrað.

Hjörtur Haraldsson Blöndal (Hjörtur H. Blöndal) er fæddur 1950 og var um 17 ára þegar hann lét að sér kveða fyrst á tónlistarsviðinu á höfuðborgarsvæðinu, fyrst sem söngvari, bassa- og gítarleikari með Opus 4, og svo sem bassaleikari Mods og Hljómsveitar Magnúsar Ingimarssonar um skamma hríð áður en hann söng með Haukum, einnig um skamman tíma. Á áttunda áratugnum hóf hann aftur að starfa með Opusi 4 og svo með hljómsveitinni Jóni (sem einnig hafði að geyma Lárus tvíburabróður hans) og að lokum í Pónik um tíma.

Eftir þetta virðist Hjörtur ekki hafa starfað með hljómsveitum og fljótlega fór í hönd tímabil sem kenna má við upptökur en hann kom sér upp stúdíói við Brautarholt sem hlaut nafnið H.B. stúdíó og var það með allra fyrstu hljóðverum í einkaeign á Íslandi. Þar voru á næstu árum teknar upp nokkrar plötur, mestmegnis smáskífur og meðal þeirra voru tvær í hans eigin nafni, annars vegar Sweet love / Woman (1974) og hins vegar Kalli króna / Tröllasaga, útgáfa síðari skífunnar var tengd auglýsingaátaki Iðnaðarbankans sem margir komnir yfir miðjan aldur muna eftir.

Hjörtur starfrækti H.B. stúdíóið í um tvö ár og gaf einnig út plötur í félagi við annan undir útgáfumerkinu Aðall sf., og hann var reyndar einnig meðal stofnmeðlima hljómplötuútgáfunnar Steina en eftir miðjan áttunda áratuginn hvarf hann af sjónarsviðinu og flutti þá til Danmerkur, fyrst til Árósa en svo til Kaupmannahafnar þar sem hann bjó og starfaði lengi en síðar flutti hann til Spánar og hefur nú búið um langt árabil í Malaga.

Hjörtur í H.B. stúdíó

Í Danmörku má segja að eiginlegur tónlistarferill Hjartar hafi hafist fyrir alvöru, hann sendi frá sér tveggja laga smáskífu (Digital / Synton) árið 1982 sem hafði að geyma synthapopp eins og þá var í tísku en frá árinu 2000 hefur hann sent frá sér mikinn fjölda skífna í formi breiðskífa og smáskífa, bæði í eigin nafni, Alfarspace og The Mercuriis framan af en í seinni tíð bara í eigin nafni – Hjörtur. Flestar þessara platna eru instrumental og innihalda ýmist eins konar synthapopp, nýaldartónlist, slökunartónlist eða hreina píanótónlist, lengi vel komu þær út á geisladiskaformi en á síðustu árum hafa þær verið gefnar út á netinu. Hjörtur hefur sjálfur séð um alla vinnu við gerð og útgáfu platnanna, allt frá því að semja, spila, hljóðrita og til umslagahönnunar og dreifingar. Plötur hans hafa stöku sinnum í gegnum tíðina verið teknar fyrir hjá gagnrýnendum Morgunblaðsins en fengið þar fremur misjafna dóma.

Tónlist Hjartar hefur af einhverjum ástæðum aldrei verið áberandi hér á landi en alls eru útgefnar plötur hans á þriðja hundrað, upplýsingar um breiðskífur hans eru aðgengilegar hér á síðunni en jafnframt eru flestar smáskífurnar enn óskráðar á Glatkistunnar – úr því verður bætt síðar.

Efni á plötum