Hjörtur Geirsson (1957-)

Hjörtur Geirsson

Tónlistarmaðurinn Hjörtur Geirsson hefur komið víða við í tónlistarsköpun sinni, bæði með hljómsveitum og sem trúbador en sem slíkur hefur hann gefið út nokkrar plötur og kassettur í gegnum tíðina.

Hjörtur er fæddur vorið 1957, á sínum yngri árum starfaði hann með hljómsveitinni Berlín þar sem hann lék á bassa en eftir það var hann mest einn á ferð með gítarinn. Hann hefur aðallega búið og starfað í Reykjavík en var um tíma einnig í Vestmannaeyjum og bjó reyndar um eins árs skeið í Svíþjóð einnig, hann kom töluvert fram sem trúbador á áttunda og níunda áratugnum – hann starfaði lengi sem farandverkamaður og lék þá í verbúðum en síðan tróð hann heilmikið upp á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í Óðali en einnig ásamt fleirum t.d. á Vísnakvöldum Vísnavina og á tónleikum í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð þar sem hann flutti eigin tónlist en líklega spilaði hann opinberlega á tugum eða hundruð tónleika á þessu tímabili. Þá starfaði hann um tíma einnig með tónlistarmanninum Jojo (Jóni Magnússyni).

Hjörtur sendi frá sér tvær kassettur á níunda áratugnum, sú fyrri kom út sumarið 1984 og bar titilinn So true indeed og hafði að geyma þrettán frumsamin lög en hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu, sú síðar kom út tveimur árum síðar undir nafninu Exardus en á henni voru fimmtán lög.

Lítið bar á Hirti sem tónlistarmanni eftir útgáfu síðari kassettunnar og það var ekki fyrr en undir lok aldarinnar sem hann lét að sér kveða á nýjan leik, hann hóf að starfa með Einari Jónssyni gítarleikara og þeir félagar komu fram undir nafninu Dolli og dvergarnir og léku víða um bæinn, hann starfaði einnig með Sigurði Ómari Jónssyni gítarleikara og söngvara og léku þeir tveir mest á Miðbar – með Sigurði lék Hjörtur á bassa en á gítar með Einari. Hann kom einnig heilmikið fram einn með gítarinn á fyrstu árum aldarinnar og árið 2003 fékk hann höfundarsamning við framleiðslufyrirtækið Pararmount group í Nashville í Bandaríkjunum og nokkur lög eftir hann komu út með bandarískum flytjendum, það mun að einhverju eða mestu leyti hafa verið kántrí- og þjóðlagatónlist eins og sú tónlist sem hann hefur fengið við að semja og flytja, hann hefur hlotið einhver verðlaun ennfremur í lagasmíðakeppnum ytra og lög hans hafa jafnframt komið út á safnplötum þar. Á fyrstu árum 21. aldarinnar starfaði Hjörtur einnig með hljómsveitum, annars vegar Hound dog tríóinu og hins vegar með hljómsveitinni Snakebird en báðar þessar sveitir léku á pöbbum á höfuðborgarsvæðinu og víðar, þá starfrækti hann einnig dúettinn Valíum ásamt Haraldi Davíðssyni um það leyti.

Hjörtur Geirsson

Ný plata hafði komið út með Hirti árið 2001 en hún bar nafnið The ballads of the undefined, skífan sem var sú fyrsta sem kom út á geisladiskaformi með honum var hljóðrituð á aðeins tólf tímum og var gefin í litlu upplagi. Hún hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu en þokkalega í tímaritinu Smelli, lögin átta sem voru á þessari plötu höfðu verið samin og hljóðrituð í kringum aldamótin en á henni naut hann aðstoðar Haraldar Ringsted sem annaðist trommuforritun.

Næsta plata kom út árið 2004, það var smáskífa með lögum sem höfðu verið unnin í tengslum við samstarf hans við tónlistarmenn í Nashville og bar nafnið Searching for a hit: Songs of Hjörtur Geirsson, bandarískir hljóðfæraleikarar léku með honum á þeirri plötu. Þremur árum síðar (2007) kom svo út ellefu laga plata, The Flow en þar var Hjörtur einn á ferð – sú plata þótti fremur hrá og fékk hún fremur slaka dóm í Morgunblaðinu, hún var endurútgefin 2024. Árið 2012 kom svo enn ein plata Hjartar, Watch the bird fly (The raven) en það var tíu laga plata sem hann vann með breska gítarleikaranum Nigel Cuff.

Síðustu árin hefur Hjörtur haft fremur hægt um sig í tónlistinni fyrir utan að plata hans The Flow var endurútgefin 2024.

Efni á plötum