Andlát – Hjörtur Howser (1961-2023)

Hjörtur Howser

Hafnfirski tónlistarmaðurinn Hjörtur Howser er látinn en hann varð bráðkvaddur í gær mánudag, hann hefði orðið sextíu og tveggja ára gamall í sumar.

Hjörtur (fæddur 1961) var fjölhæfur tónlistarmaður, lék á hvers kyns hljómborð, píanó og harmonikkur en var aukinheldur liðtækur upptökumaður og samdi jafnframt tónlist. Hann starfaði alla tíð mestmegnis með hljómsveitum og líklega er leitun að þeim tónlistarmanni sem starfað hefur með jafn mörgum þekktum sveitum.

Hjörtur var ekki orðinn tvítugur þegar hann hóf að leika með hljómsveitum en hann starfaði einnig sem rótari á sínum yngri árum. Fyrsta „þekkta“ sveit hans var ballsveitin Ópera sem hann starfaði með árið 1979 en síðan komu í kjölfarið ótal sveitir – misþekktar, hér má nefna Stormsveitina, Fermata, Tívolí (um skamma hríð), Fræbbblana, Gamma (um skamma hríð), Fjörorku, Bogart, Dúndur, Grafík, Næturgalana frá Venus, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar, Járnkarlana, Vini Dóra (um skamma hríð), Galíleó (um skamma hríð), Kokteilpinnana, Óttablandina virðingu, Fínt fyrir þennan pening, Sangriu og Partýtertuna, og hér vantar sjálfsagt einhverjar sveitir. Margar framangreindra hljómsveita gáfu út plötur.

Hjörtur starfaði nokkuð sem hljóðupptökumaður um tíma og lék einnig inn á fjölmargar plötur, Haukur Morthens, Bergþóra Árnadóttir, Bjarni Tryggva, Jolli & Kóla, Guðmundur Jónsson (Gummi Jóns), SSSól, Tromp, Sign, PS&Co, Rabbi, HLH flokkurinn, Hörður Torfa, Jens Hansson, Bubbleflies, Sviðin jörð, Laddi og Kátir piltar úr Hafnarfirði eru hér nefnd sem dæmi um fjölbreytileika þeirrar tónlistar sem hann fékkst við, en með síðast töldu sveitinni starfaði hann töluvert mikið þótt hann yrði aldrei liðsmaður hennar. Þá samdi Hjörtur einnig tónlist bæði í félagi við aðra og einn síns liðs og má nefna að árið 1998 komu út tvær plötur með slökunartónlist eftir hann.