Ópera [1] (1976-79)

Ópera frá Þorlákshöfn 1976

Ballsveitin Ópera starfaði um nokkurra ára skeið, fyrst í Þorlákshöfn en síðan á höfuðborgarsvæðinu.

Sveitin hafði starfað um tíma undir nafninu Clítores en breytti nafni sínu í Ópera haustið 1976, þá voru í henni Einar M. Gunnarsson söngvari og gítarleikari, Ómar B. Ásbergsson söngvari og gítarleikari, Hjörleifur Brynjólfsson bassaleikari og Sigurvin Þórkelsson trommuleikari.

Ópera var nokkuð öflug á sveitaballamarkaðnum um tíma, sérstaklega sumarið 1977 þegar hún spilaði um allt land. Árið 1978 höfðu orðið einhverjar mannabreytingar á henni, t.a.m. lék bassaleikarinn Jóhann Ásmundsson (Mezzoforte o.fl.) með henni um tíma og þess má geta að Björk Guðmundsdóttir söng með sveitinni um verslunarmannahelgina 1978 en hún var þá einungis tólf ára gömul. Þá mun Sævar Árnason gítarleikari (fósturfaðir Bjarkar) hafa verið kominn í sveitina.

1979 fór lítið fyrir Óperu framan af ári en um vorið fór hún á fullt aftur eftir nokkrar mannabreytingar, þeir Ágúst Ragnarsson bassaleikari og Hjörtur Howser hljómborðsleikari komu þá nýir inn í sveitina en fyrir voru þeir Sigurvin, Einar og Sævar. Ópera var þarna orðin reykvísk. Harpa Þórðardóttir hljómborðsleikari (Dúkkulísurnar o.fl.) ku hafa leikið með sveitinni um tíma en ekki liggur fyrir hvenær, fleiri gætu einnig hafa komið við sögu hennar.

Sveitin hafði á þeim tíma breytt um nafn og kallaðist nú Rokkópera, í kjölfar þess að þeir félagar þyngdu prógrammið nokkuð. Hún starfaði ekki lengi eftir nafnabreytinguna og í desember 1979 var hljómsveitin Strengjasveitin stofnuð upp úr Rokkóperu og selfyssku hljómsveitinni Evrópu.