Orkidea (1973-76)

Orkidea1

Orkidea frá Selfossi

Hljómsveitin Orkidea frá Selfossi starfaði á þriðja ár, spilaði frumsamið efni og varð það henni hugsanlega banabiti að lokum.

Sveitin var stofnuð 1973 og voru meðlimir hennar Sigurvin Þórkelsson trommuleikari, Ómar Þ. Halldórsson hljómborðsleikari, Sveinbjörn Oddsson bassaleikari, Steindór Leifsson gítarleikari og Þórður Þorkelsson gítarleikari, allir sungu félagarnir eitthvað en Sveinbjörn mest. Um tíma voru þeir félagar aðeins þrír er tveir þeirra yfirgáfu sveitina, þeir skiluðu sér reyndar aftur.

Orkidea lagði alltaf áherslu á eigin efni og vildu sem minnst af sveitaballatónlistinni vita, fyrir vikið var ekki mikill eða stór markaður fyrir þá á Selfossi og nærsveitum.

Síðast þegar spurðist til hljómsveitarinnar voru þeir farnir að leika á höfuðborgarsvæðinu, ekki liggur fyrir hvort þeir voru þá komnir í brennivínstónlistina eins og hún var kölluð á þessum tíma, en sögu sveitarinnar lauk allavega fljótlega upp úr því. Þá hefur verið komið fram á árið 1976.