Bogart (1985-87)

Bogart

Hljómsveitin Bogart spilaði töluvert á dansstöðum borgarinnar 1985 til 87 en náði aldrei að verða meira en ballsveit.

Sveitin var stofnuð vorið 1985 upp úr hljómsveitinni Fjörorku og meðlimir hennar, Jón Þór Gíslason söngvari, Hjörtur Howser hljómborðsleikari, Hafsteinn Valgarðsson bassaleikari, Jón Borgar Loftsson trommuleikari og Ívar Sigurbergsson gítarleikari hófu fljótlega að leika á dansstöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Þeir félagar tóku upp lag sem til stóð að kæmi út um vorið á safnplötunni Dúndur en sú útgáfa dróst til haustsins og lagið vakti litla athygli.

Um vorið 1986 urðu þær breytingar á Bogart að Baldur Þórir Guðmundsson hljómborðsleikari tók sæti Hjartar, það sumar var sveitin nokkuð á ferðinni á landsbyggðinni á sveitaböllum en um haustið færði hún sig aftur inn á dansstaði eins og Broadway og Sigtún, og lék m.a. þar ásamt sveitum eins og Swinging blue jeans.

Vorið 1987 hætti Bogart og tríóið Dada var stofnað upp úr leifum sveitarinnar, þeir Jón Þór, Ívar og Bjarni Sveinbjörnsson skipuðu þá sveit.