Dada [1] (1987-88)

Dada

Dada

Dada var ein þeirra hljómsveita sem spratt fram á sjónarsviðið með bylgju nýrómantískra strauma um og eftir miðjan níunda áratug síðustu aldar. Sveitin var skammlíf.

Hljómsveitin var stofnuð vorið 1987 og var lengst af tríó, meðlimir Dada voru Ívar Sigurbergsson hljómborðs- og gítarleikari og Jón Þór Gíslason söngvari en þeir höfðu áður verið í hljómsveitinni Bogart, og Bjarni Sveinbjörnsson bassaleikari. Fjölmiðlar voru fljótir að skilgreina tónlist sveitarinnar sem popp í „alþjóðlegum búningi“.

Dada fór nánast strax í Hljóðrita í Hafnarfirði og tók upp fjögur lög sem komu síðan út á plötu samnefndri sveitinni, um sumarið. Um svipað leyti lék sveitin fyrst opinberlega og hafði með sér aðstoðarfólk, hljómborðsleikarana Kjartan Valdemarsson og Eddu Borg, auk trommuleikarans Jóns Borgars Loftssonar. Um haustið höfðu þau gengið til liðs við sveitina.

Platan hlaut afar misjafna dóma í dagblöðunum, gagnrýnandi Þjóðviljans gaf henni slaka dóma, í Tímanum fékk hún sæmilega dóma en mjög jákvæða í DV. Margir voru þó á því að sveitin ætti fremur að syngja á íslensku en ensku.

Dada starfaði eitthvað framyfir áramótin 1987-88 en fljótlega eftir það virðist sem sveitin hafi verið hætt störfum. Meðlimir hennar poppuðu þó upp m.a. í hljómsveitinni Gulleyjunni en hafa aukinheldur komið víða við í íslensku tónlistarlífi síðan.

Efni á plötum