D-7 (1997-2000)

D-7 1998

D-7 1998

Hljómsveitin D-7 (Díseven / Dee seven) var starfrækt í Vestmannaeyjum og þótti efnileg á sínum tíma, sveitin dó þó drottni sínum án þess að slá almennilega í gegn.

D-7 var stofnuð vorið 1997 og vakti þegar nokkra athygli þegar hún tók þátt í Rokkstokk hljómsveitakeppninni í Keflavík, þar var hún meðal efstu sveita og var söngvari sveitarinnar, Ólafur Kristján Guðmundsson kjörinn besti söngvari keppninnar. Aðrir meðlimir voru þá Magni Freyr Ingason trommuleikari, Ástþór Ágústson bassaleikari, Unnþór Sveinbjörnsson gítarleikari og Gunnar Geir Waage Stefánsson gítarleikari. Lag með D-7 kom út á safnplötunni Rokkstokk 97 sem gefin var út af þessu tilefni.

Meðlimir D-7 voru nemar í Fjölbrautaskólanum í Vestmannaeyjum en nafn sveitarinnar var fengið úr lagatitli með bandarísku hljómsveitinni Nirvana.

D-7

D-7

Sveitin lék á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um sumarið 1997 og var reyndar fastagestur þar öll árin sem hún starfaði.

Næsta vor, 1998 tók D-7 þátt í Músíktilraunum Tónabæjar og höfðu þá orðið mannabreytingar í sveitinni, Árni Gunnarsson gítarleikari var þá orðinn meðlimur hennar en Unnþór og Gunnar Geir voru þá báðir hættir. Sveitin komst ekki í úrslit Músíktilraunanna.

D-7 átti eftir að starfa áfram, hún var áberandi á heimaslóðum í Vestmannaeyjum en fór einnig upp á land til spilamennsku, lék til að mynda í einhver skipti á Gauki á Stöng í Reykjavík.

Svo virðist sem sögu sveitarinnar ljúki síðsumars árið 2000 en síðar var önnur hljómsveit, Hoffman, stofnuð upp úr leifum D-7.