
Fjörorka
Hljómsveitin Fjörorka starfaði undir því nafni um eins og hálfs árs skeið um miðjan níunda áratug síðustu aldar og lék mestmegnis á dansstöðum á höfuðborgarsvæðinu, fyrst í Klúbbnum sem húshljómsveit og síðan í Skiphóli í Hafnarfirði, sveitin lék þó einnig á dansleikjum á landsbyggðinni og m.a. í nokkur skipti á Keflavíkurflugvelli.
Þar var Bjarni Sveinbjörnsson bassaleikari sem stofnaði Fjörorku í upphafi árs 1984 en hann mun ekki hafa verið lengi í sveitinni, lengst af voru þeir Jón Þór Gíslason söngvari, Baldur Þórir Guðmundsson hljómborðsleikari, Hafsteinn Valgarðsson bassaleikari, Ívar Sigurbergsson gítarleikari og Ólafur J. Kolbeinsson trommuleikari meðlimir sveitarinnar. Um haustið 1984 tók Jón Borgar Loftsson trommuleikari við af Ólafi og um vorið 1985 var Hjörtur Howser hljómborðsleikari mættur í sveitina í stað Baldurs, þá hafði einnig Jósep Sigurðsson leikið um tíma á hljómborð í henni.
Fjörorka hafði eingöngu flutt ábreiðuefni á dansleikjum sínum en um haustið 1984 höfðu þeir stofnað eins konar hliðarband með sömu meðlimum, sem einvörðungu lék frumsamið efni. Vorið 1985 ákváðu þeir félagar að þeir myndu einbeita sér að þessu frumsamda efni og þar með lögðu þeir Fjörorku nafninu og tóku upp nafnið Bogart.