Fjölnir Stefánsson (1930-2011)

Fjölnir Stefánsson

Fjölnir Stefánsson er þekktastur fyrir frumkvöðlastarf sitt og framlag til tónlistarlífsins í Kópavogi en hann var einnig tónskáld.

Fjölnir Stefánsson fæddist í Reykjavík árið 1930, hann ólst upp við klassíska tónlist sem foreldrar hans hlustuðu mikið á og því er eðlilegt að tónlistaráhugasvið hans snerist í þá áttina. Hann byrjaði þrettán ára gamall að læra á selló og nam síðar hjá dr. Heinz Edelstein og svo hljómfræði og tónsmíðar í framhaldi af því hjá Jóni Þórarinssyni. Við útskrift hans við Tónlistarskólann í Reykjavík 1954 var flutt tónverk eftir hann en fyrst hafði verk samið af honum verið flutt opinberlega á tónleikum árið 1951 þegar hann var tvítugur, það var verk fyrir flautu, klarinettu og fagott. Hann var því snemma talinn vera efnilegt tónskáld og vakti þá strax nokkra athygli.

Að loknu námi við Tónlistarskólann í Reykjavík lá leið Fjölnis til London þar sem hann nam tónsmíðar í fjögur ár, hlaut m.a. til þess opinbera styrki en hann kom aftur heim til Íslands að því loknu árið 1958. Þá hóf hann að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðan einnig við tónlistarskólana í Mosfellssveit, Keflavík og Kópavogi áður en hann gerðist skólastjóri við Tónlistarskólann í Kópavogi haustið 1968 en því embætti gegndi hann í þrjátíu og tvö ár eða til aldamóta, og lyfti tónlistarlífi upp á þann stall sem síðar varð í bænum með elju sinni og hæfni. Við aldamótin voru haldnir afmælistónleikar honum til heiðurs en hann varð sjötugur um það leyti.

Fjölnir leiddi nýjar hugmyndir í tónlistarkennsluna í Kópavogi og mikil fjölgun varð á nemendum í tónlistarnámi í bænum, samhliða því batnaði öll aðstaða í bænum til hins betra enda var hann duglegur að tileinka sér nýjungar í tónlistarkennslu og ekki síður við aðbúnað og aðstöðu til að gera tónlistarkennsluna sem best úr garði. Þannig má klárlega þakka honum óbeint að t.d. Skólahljómsveit Kópavogs og Skólakór Kársness voru stofnuð en tónlistarlíf bæjarins hefur löngum verið með ágætum. Þá má sjálfsagt færa rök fyrir því að rokk- og pönksveitir, sem margar urðu til í Kópavogi eigi rætur sínar óbeint að rekja til starfs Fjölnis. Það er því engin tilviljun að hann var fenginn til að taka fyrstu skóflustungu að tónlistarhúsinu Salnum í Kópavogi en hann var einn hvatamaður að byggingu hússins, hann var gerður að heiðurslistamanni Kópavogs 1994.

Fjölnir Stefánsson

Eðlilega þurfti eitthvað að víkja þegar orka Fjölnis fór að mestu í að stjórna tónlistarskólanum, tónsmíðarnar sátu því nokkuð á hakanum en hann sagði einhverju sinni frá því í blaðaviðtali að hann hefði aðallega nýtt sumrin við tónsmíðar. Og nokkuð liggur eftir hann á því sviði þótt ekki væri það eins mikið og hefði getað orðið, hann samdi tónlist af ýmsu tagi og má t.d. nefna Fimm skissur fyrir píanó, Dúó fyrir óbó og klarinett, KópLon (sem Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflutti) og Tónleikur fyrir fyrir sex hljóðfæri (sem frumflutt var við vígslu Salarins), en einnig kammerverk, hljómsveitarverk, kór- og einsöngslög en mörg þeirra hafa komið út á plötum. Þeirra þekktast er líklega Litla barn með lokkinn bjarta sem komið hefur út á plötum með fjölmörgum flytjendum, en einnig má nefna Næturró, Kvöldvísu og Þrjú sönglög við ljóð Steins Steinarr. Lög hans má m.a. finna á plötum með Auði Gunnarsdóttur og Jónasi Ingimundarsyni, Skólakór Kársness, Sigurði Bragasyni og Hjálmari Sighvatssyni, Elísabetu Erlingsdóttur, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Pólýfónkórnum. Verk hans hafa verið flutt á tónleikum bæði hér heima og erlendis. Hann fékkst jafnframt heilmikið við að útsetja íslensk þjóðlög.

Fjölnir kom að ýmsum félagsstörfum í tónlistinni, hann var t.a.m. einn af stofnendum Musica Nova, var um tíma í stjórn STEFs og formaður stjórnar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og kom jafnframt að stofnun hennar. Hann var einn af stofnmeðlimum Félags tónlistarskólastjóra og var þar í stjórn, og var meðal stofnmeðlima Félags tónskálda. Þá hélt hann um skamman tíma utan um Tónlistarstund barnanna í Útvarpinu og skrifaði einnig um tónlist í dagblöðin, a.m.k. fyrir Morgunblaðið og Vísi. Þess má einnig geta að hann var mikill skákáhugamaður og kom að stofnun Taflfélags Kópavogs, hann var síðar gerður að heiðursfélaga í því félagi.

Ótrúlegt má í raun virðast hversu miklu Fjölnir áorkaði en hann var með skerta starfsgetu, hann hafði meðfæddan sjúkdóm í úttaugakerfi þannig að hann hafði ekki fulla hreyfigetu. Það háði honum þó augljóslega ekki í störfum sínum hvort sem þau sneru að stjórnun tónlistarskóla, við tónsmíðar eða annað. Fjölnir lést haustið 2011 en hann var þá orðinn áttatíu og eins árs gamall.