Tívolí (1977-81)

Tívolí

Hljómsveitin Tívolí var einn hlekkur í keðju nokkurra sveita sem störfuðu um skeið undir mismunandi nöfnum og afar tíðum mannabreytingum.

Sveitin, sem var dæmigerð ballsveit fyrst um sinn, hafði um tíma gengið undir nafninu Kvintett Ólafs Helgasonar en um svipað leyti og Ellen Kristjánsdóttir, átján ára gömul sögkona, gekk til liðs við sveitina um vorið 1977 breytti hún um nafn og kallaðist eftir það Tívolí. Aðrir meðlimir sveitarinnar voru þá Eggert Pálsson píanóleikari, Friðrik Karlsson gítarleikari, Jens Atlason gítarleikari, Páll Sigurbjörnsson bassaleikari og hljómsveitarstjórinn Ólafur Helgason trommuleikari. Þannig skipuð kom Tívolí fyrst fram opinberlega á þjóðhátíðardaginn 17. Júní 1977.

Um sumarið voru uppi hugmyndir um að bæta við öðrum söngvara og var Guðjón Guðmundsson (Gaupi) nefndur í því samhengi, hann kom einu sinni fram með sveitinni en ekki varð meira úr því samstarfi.

Ellen söng ekki með Tívolí nema til hausts en þá fór hún til Bandaríkjanna þar sem hún m.a. var að nema söng, Sigurður Sigurðsson söngvari (þá yfirleitt kenndur við Eik) tók hennar sæti og um svipað leyti urðu frekari mannabreytingar þegar Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari tók við af Eggerti. Prógramm sveitarinnar tók við þetta allmiklum stakkaskiptum og varð nokkuð fönkaðri en þeir Eyþór og Friðrik gítarleikari voru um þetta leyti að stíga sín fyrstu skref með annarri hljómsveit, Mezzoforte.

Tívolí 1978

Enn frekari breytingar urðu í nóvember þegar Jens gítarleikari hætti í sveitinni og var hún kvintett um tíma, þá leysti Ragnar Sigurðsson gítarleikari Friðrik af um tíma en hann hélt síðan sína leið – í bili. Fljótlega eftir áramótin 1977-78 hætti Páll bassaleikari og tók Andrés Ólafsson sæti hans, þeir Friðrik og Ólafur voru þá einir eftir af upprunalega bandinu enda höfðu hræringarnar verið miklar innan þess þessa níu mánuði sem Tívolí hafði þá starfað. Sveitin naut þó feikimikilla vinsælda og hafði yfrið nóg að gera.

Ellen kom aftur inn í sveitina á miðju sumri (1978) en í lok ágúst kom upp sú staða að þeir Friðrik, Eyþór og Andrés myndu allir hætta en þeir voru þá á kafi í námi og hefðu varla tíma til að sinna tónlistinni samhliða því. Ekki varð þó úr þessu þó alveg strax, Friðrik hætti reyndar fljótlega og um áramótin hættu Eyþór og Andrés. Ellen hafði um haustið sungið inn á plötu með hljómsveitinni Ljósunum í bænum sem gaf út plötu fyrir jólin 1978 og ljóst að hún væri á útleið, það var þó með hljómsveitinni Póker en hún gekk í þá sveit eftir áramótin.

Í febrúar 1979 höfðu því fjórir hætt í Tívolí á fáeinum vikum og það eitt og sér hefði dugað til að gera útaf við nánast hvaða sveit sem var, Ólafur var ekki á þeim buxunum og hann náði að manna sveitina á nýjan leik með fimm nýjum meðlimum, Ragnar Sigurðsson gítarleikari (sem hafði leyst Friðrik af um tíma), Rúnar Þórisson gítarleikari, Jón Þór Gíslason gítarleikari, Gunnar Hrafnsson bassaleikari og Guðmundur Ingólfsson píanóleikari kom inn sem nýir Tívolíliðar en sá síðast nefndi staldraði reyndar mjög stutt við. Í hans stað kom Ómar Óskarsson hljómborðsleikari í mars.

Þarna var í raun komin alveg ný sjö manna sveit þar sem einungis Ólafur og Sigurður voru eftir úr gömlu sveitinni, Tívolí starfaði þannig í fáeinar vikur en fór síðan í nokkurra mánaða pásu.

Tívolí 1979

Sveitin birtist aftur á haustmánuðum 1979 og þá höfðu enn orðið miklar breytingar á skipan hennar, Ólafur, Sigurður og Gunnar voru á sínum stað en fjórir aðrir höfðu nú tekið við af þeim sem byrjað höfðu um vorið, Stefán S. Stefánsson saxófónleikari, Björn Thoroddsen gítarleikari, Árni Sigurðsson söngvari og gítarleikari og Hjörtur Howser hljómborðsleikari.

Um vorið 1980 birtust fréttir í fjölmiðlum að sveitin myndi á næstunni senda frá sér tveggja laga smáskífu, hún kom síðan út snemma sumars undir merkjum Steina hf. Lögin tvö, Danserína / Fallinn voru samin af Stefáni og náði síðarnefnda lagið reyndar miklum vinsældum, reyndar svo að það heyrist ennþá einstöku sinnum leikið á ljósvakamiðlunum. Platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og Helgarpóstinum.

Um líkt leyti og platan kom út hætti Árni söngvari og við hlutverki hans tók Eiður Örn Eiðsson. Þarna varð einn af vendipunktum í starfsemi sveitarinnar en við þessi mannaskipti varð áherslubreyting á tónlist sveitarinnar og hún þyngdist til muna. Lögin á plötunni höfðu verið léttpoppuð en prógramm tók nú við hlaðið þungu rokki á borð vð Led Zeppelin og Deep purple.

Brynjólfur Stefánsson bassaleikari gekk í Tívolí í september 1980 og tók þá við af Gunnari Hrafnssyni en aðrir liðsmenn hennar voru þá Ólafur, Hjörtur, Björn og Eiður. Stefán og Sigurður voru farnir á braut.

Tívolí vakti nokkra athygli fyrir þessa þungarokksnálgun sína og tóku þeir upp eina tónleika sína, líklega ætlað til hljóð- og myndbandsútgáfu en ekki varð af því.

Og sveitin tók enn breytingum eftir áramótin 1980-81, þeir Björn og Hjörtur hættu í henni – sá fyrrnefndi til að fara í gítarnám erlendis en sá síðarnefndi líklega vegna þess að lítið var fyrir hljómborðsleikara að gera í þeirri þungarokkstefnu sem Tívolí hafði tekið.

Tívolí árið 1980

Sveitin var þarna farin að vinna að útgáfu annarrar lítillar plötu sem hafði að geyma mun þyngra efni en á fyrri plötunni. Á þeim upptökum léku Eiður og Brynjólfur en auk þess höfðu Einar Jónsson gítarleikari og Ólafur Sigurðsson trymbill komið inn, Ólafur varð líklega liðsmaður í afar stuttan tíma og Sigurður Reynisson sem tók við af honum varð síðastur til að ganga til liðs við Tívolí (í lok ágúst), hann varð tuttugasti og fimmti meðlimur hennar.

Þessi plata var þriggja laga, hafði að geyma lögin Syngdu með / Meira meira / Stórborgarblús en titill plötunnar var Rokk og ról: Þrumuvagninn. Steinar gaf út. Platan hlaut sæmilega dóma í tímaritinu TT, Þjóðviljanum og Morgunblaðinu en þokkalega í Helgarpóstinum og Dagblaðinu.

Þar eð Ólafur Helgason, upphafsmaður Tívolís og eini liðsmaður hennar frá upphafi, var á þessum tímapunkti hættur í sveitinni lá beinast við að hún breytti um nafn. Það varð úr að fljótlega eftir útgáfu plötunnar tók sveitin upp nafnið Þrumuvagninn sem er reyndar önnur saga, en um leið lauk sögu Tívolís.

Lagið Fallinn hefur komið út á fáeinum safnplötum, þeirra á meðal má nefna Flugur (1981), Óskalögin 5 (2001) og Með lögum skal land byggja (1985).

Efni á plötum

Sjá einnig Þrumuvagninn