Dúndur (1986-87)

Dúndur 1986

Dúndur 1986

Hljómsveitin Dúndur (oft einnig nefnd Dúndrið m. gr.) var fremur skammlíf sveit úr ranni Péturs Kristjánssonar en hún starfaði í rúmlega ár um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Hugmyndin var að þetta yrði eins konar útgöngusveit Péturs út úr poppinu en hann hafði á þessum tímapunkti stofnað fjölskyldu og ætlaði að helga sér henni.

Þeir félagar Pétur Kristjánsson og Bjartmar Guðlaugsson höfðu kynnst mörgum árum fyrr í Vestmannaeyjum og höfðu reyndar þarna sungið saman lagið Stúdentshúfan sem kom út á plötu Bjartmars, Venjulegur maður (1985). Í framhaldinu höfðu þeir gefið út fjögurra laga dúettaplötu, Þá sjaldan sem maður lyftir sér upp, um svipað leyti og þessi sveit, Dúndur tók til starfa. Þrjú laganna, Fimmtán ára á föstu, Draumadísin og Ástar óður höfðu því notið mikilla vinsælda, og þegar Eiríkur Hauksson sem einnig var með sjóðheitu stórsmellina Gaggó Vest og Gull, auk Gleðibankans í fórum sínum, bættist í hópinn þá átti að vera tryggt að ekkert klikkaði. Aðrir meðlimir Dúndursins voru Hjörtur Howser hljómborðsleikari, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari og partur af Mezzoforte-genginu þeir Jóhann Ásmundsson bassaleikari og Gunnlaugur Briem trommuleikari.

Reyndar byrjaði ferill sveitarinnar (sem í blábyrjun virðist hafa gengið undir nafninu Stórsveit PK) með með örlitlu bakslagi en Pétri sem bókaði sveitina á sitt fyrsta gigg á balli á Vellinum yfirsást þá eldrauð vinstrihlið Bjartmars en sá er með vinstrisinnaðri mönnum landsins og hafði ekki í hyggju að leika tónlist fyrir Kanann á Keflavíkurflugvelli. Það var því úr að það snöggfauk í Bjartmar sem lét ekki sjá sig á ballinu og þar með var búið að skera prógrammið nokkuð niður, restin af bandinu reyndi þá að gera sitt besta úr því sem komið var.

Bjartmar mætti aftur í bandið að þessari uppákomu lokinni en Dúndrið lék mestmegnis fyrri hluta starfsferilsins á skemmtistöðum höfuðborgarinnar, einkum Evrópu.

Dúndur var alltaf hugsað sem tímabundið verkefni og gefið var út að sveitin myndi hætta störfum um haustið 1986 sem og þeir gerðu. Að vetri loknum birtust þeir félagarnir þó aftur á sjónarsviðið og þá skyldi einnig keyra svolítið á sveitaböllin og var sveitin bókuð víðs vegar um landið um sumarið 1987.

Lítilsháttar breytingar höfðu þá orðið á skipan sveitarinnar, fækkað hafði um einn í Dúndrinu, Bjartmar og Hjörtur voru horfnir á braut en í þeirra stað voru Mezzoforte-liðarnir Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari og Friðrik Karlsson gítarleikari mættir.

Dúndrið starfaði þetta sumar mun skemur en hugur stóð til, illa var mætt á böll sveitarinnar og varla var komið almennilega inn í sumarið þegar hún hætti störfum fáeinum vikum síðar. Þeir sem komu að sveitinni þessi tvö sumur minnast þeirra samt áreiðanlega með hlátur í huga en þeir sveitarmeðlimir munu hafa skemmt sér ótæpilega á ferðum sínum um landið, með nektarsprelli og öðru gleðitengdu frjálslyndi.

Þess má geta að þótt hugtakið „dúndur“ hafi verið eitt af einkennisorðum Péturs Kristjánssonar var það síður en svo nýtt í íslensku máli, en Pétur vakti það upp af værum svefni og gerði að sínu. Þetta var ævinlega í orðaforða hans en það var fyrst notað opinberlega þegar hljómsveitin Start (sem var óneitanlega verulega tengd þessari sveit) var upp á sitt besta um 1980, þá fylgdi diskótek með sveitinni á böllunum og bar það nafnið Diskótekið Dúndur. 1982 kom út tónlistartímaritið Dúndur á vegum hljómplötuútgáfunnar Steina, sem Pétur var nátengdur, og einnig komu út safnplöturnar Dúndur (1985) og Grimm dúndur (1993) á vegum Steina. Hljómsveitin Dúndur varð síðan að veruleika einnig.