Pétur Kristjánsson (1952-2004)

Pétur Kristjánsson Pops

Pétur á bassanum

Fáir höfðu jafn mikil áhrif á íslenskra poppsögu á áttunda áratug síðustu aldar og Pétur W. Kristjánsson eða Pétur poppari eins og hann var oft nefndur, hver hljómsveitin á fætur annarri með hann í broddi fylkingar fyllti ballhúsin um land allt og seldi plötur í bílförmum. Allir eru sammála um að Pétur féll frá alltof snemma.

Pétur var afar sérstæður persónuleiki og eftirminnilegur flestum þeim sem urðu honum samtíða, útlitslega einkenndi hann sítt hár sem hann lét aldrei stytta svo neinu næmi og eru til margar sögur tengdar því, til dæmis að samstarfsfélagar hans hjá Steinum gáfu honum gjafabréf í klippingu á fertugsafmælinu 1991, gjafabréfið gilti í áratug en var líklega aldrei notað. Önnu margsögð saga hefur verið sögð af þeim Pétri og Steinari Berg útgefanda en þeir voru þá að fara í vegabréfaskoðun í Hollandi þegar sá fyrrnefndi uppgötvaði að hann hefði týnt vegabréfinu sínu. Pétur nálgaðist skoðunina stamandi „I’ve got a problem…” þegar tollvörðurinn leit á hann glottandi og sagði svo; “Yes, I know, you need a haircut” og hleypti honum síðan í gegn.

Pétur hét fullu nafni Pétur Wigelund Kristjánsson, fæddur 1952 í Reykjavík. Hann var af tónlistarættum og átti því ekki langt að sækja tónlistaráhugann, faðir hans var enginn annar en Kristján Kristjánsson sem stofnaði KK sextett á sínum tíma og var í framvarðasveit íslenskrar tónlistar um og eftir miðja síðustu öld.

Pétur sem söng og lék á bassa, lét snemma til sín taka á hljómsveitasviðinu og var einn af stofnendum hljómsveitarinnar Pops 1966 aðeins fjórtán ára gamall en hann var þá í Vogaskóla. Sú sveit hefur starfað allt til dagsins í dag með mislöngum hléum og í margs kyns útgáfum en Pétur starfaði með henni til 1970, með hléum reyndar einnig.

Á þeim tíma sem Pétur lék með Pops naut hún nokkurra vinsælda og náði líklega mestri athygli þegar hún lék undir á tveggja laga plötu sem sveitin gaf út með Flosa Ólafssyni árið 1970. Á þeirri plötu voru lögin Það er svo geggjað að geta hneggjað og Ljúfa líf, en bæði lögin hafa orðið sígild með árunum. Eitt lag í viðbót hefur varðveist með sveitinni en það var lagið Wild thing og kom út á plötu sem gefin var út í tilefni af fimmtíu ára afmæli FÍH árið 1982.

Pétur Kristjánsson

Pétur Kristjánsson

Söngvarinn sjálfur Pétur söng því ekkert á fyrstu plötunni sem hann hafði komið við sögu á en þess varð þó ekki langt að bíða, þeir Einar Vilberg fóru til London um sumarið (1970) ásamt Gunnari Jökli Hákonarsyni trommuleikara og tóku upp fjögur lög eftir Einar en Ólafur Laufdal annaðist útgáfuþáttinn undir merkjum Laufútgáfunnar. Reyndar urðu heilmikil blaðaskrif og hnýtingar milli útgefandans og Jörmundar Inga Hansen (síðar allsherjagoða) en sá síðarnefndi hafði gert eins konar útgáfusamning við Einar Vilberg og var ekki sáttur við framlag Ólafs.

Tvö laganna (Blómið sem dó / Vitskert veröld) komu út á smáskífu en heldur hafði verið kastað til hendinni þegar til kom, plötuumslagið hafði að geyma upplýsingar um hin tvö lögin sem tekin höfðu verið upp (Bardagi um sál / Wonderland of Eden) þannig að plötur og umslög höfðu víxlast. Hin platan kom aldrei opinberlega út og segir sagan að upplagið hafi verið stöðvað við komuna til landsins. Einhver eintök virðast þó hafa komist í umferð. Lögin Blómið sem dó og Vitskert veröld heyrast enn stöku sinnum spiluð í útvarpi en smáskífan er í raun eina sólóplatan sem kom út með Pétri meðan hann lifði. Athyglisvert er að plötudómur birtist í Vikunni um óútgefnu plötuna, og er líklegast að gagnrýnandi blaðsins hafi ruglast vegna röngu upplýsinganna á plötuumslaginu. Lögin tvö af óútgefnu plötunni komu út á safnplötunni Algjör sjúkheit að Pétri látnum.

Þetta sama ár (1970) kom út á vegum Hljómskífugerðarinnar Söruh (sem fyrrgreindur Jörmundur Ingi veitti reyndar forstöðu) tveggja laga plata með Ásgerði Flosadóttur og Samsteypunni þar sem lagið Friður á jörð (Give peace a change e. John Lennon) var kyrjað, Pétur var þar einn af söngvurum.

Ýmsar umhleypingar voru í gangi í íslensku tónlistarlífi á þessum árum, ofurgrúppan Trúbrot hafði verið stofnuð upp úr Hljómum og Flowers, og um sama leyti var tónlistin farin að þyngjast nokkuð og hipparokkið að hefja innreið sína af alvöru. Þannig spruttu um hljómsveitir af öðru meiði en bítlatónlist og var Náttúra ein þeirra. Jónas R. Jónsson söngvari hafði stofnað hana ásamt fleirum 1969 en þegar hann sjálfur hætti í sveitinni sumarið 1970 bauðst Pétri að taka við keflinu en þeir Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) komu inn um svipað leyti. Náttúra var nú orðin ein af vinsælustu sveitum landsins og lék t.a.m. reglulega í Glaumbæ en söngleikurinn Hárið var einnig um þetta leyti settur á svið í húsinu á vegum Leikfélags Kópavogs og var Náttúra fengin til leika þar undir. Eins og frægt er brunnu hljóðfæri sveitarinnar inni í Glaumbæ þegar húsið brann síðla árs 1971.

Svanfríður (ásamt Óla blaðasala)

Svanfríður ásamt Óla blaðasala

Pétur var þarna kominn á skrið og var ekkert að leggja árar í bát, hann stofnaði strax í kjölfarið nýja sveit, progrokksveitina Svanfríði þarna í upphafi árs 1972, fáeinum vikum eftir brunann í Glaumbæ. Segja má að Svanfríður hafi verið fyrsta sveitin þar sem Pétur lét virkilega að sér kveða, hún lék nánast óslitið allt árið 1972 og mun hafa leikið 265 sinnum á árinum, auk þess tók Svanfríður upp plötuna What‘s hidden there? í London um sumarið og hún kom svo út um haustið og hlaut góðar viðtökur. Platan hefur með tímanum orðið að eftirsóttum safngripi, reyndar eins og platan Magic key með Náttúru sem kom út þetta sama ár en Pétur var þá auðvitað hættur í þeirri sveit. Þessar tvær sveitir, Náttúra og Svanfríður sýna að Pétur var framarlega í flokki framúrstefnurokkara á þessum tíma.

En Svanfríður starfaði ekki nema fram á mitt ár 1973 þegar hún hætti óvænt störfum, og það varð nokkuð einkennandi fyrir sveitir Péturs að þær störfuðu ekki ýkja lengi. Áður lék sveitin þó inn á tvær litlar plötur, annars vegar undir hjá akureyska söngvaranum Óðni Valdimarssyni þar sem hann söng m.a. lagið Á Akureyri, hins vegar tveggja laga plötu undir eigin nafni með lögunum Kalli kvennagull/Jibbý jei sem endurspeglaði á engan hátt tónlistina sem sveitin lék allajafna, en lögin nutu hins vegar nokkurra vinsælda.

Og Pétur var ekki lengi að stofna nýja sveit þarna um sumarið 1973, Pelican. Sú sveit bar einna best vitni um karakter hans og persónuvinsældir því hún naut gríðarmikilla hylli á því tveggja ára skeiði sem hann starfaði með henni. Pelican tók upp og gaf út tvær breiðskífur (sú fyrri var söluhæsta breiðskífa landsins fram að því á Íslandi, seldist í yfir 11.000 eintökum) og nokkrar smáskífur á því tímabili. Pelican varð yfirburðarband í sveitaballamenningunni og átti stórsmellina Jenny Darling og My glasses sem Pétur söng, og svo instrumental útgáfuna af Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns.

Pelican Vikan 1975

Pelican í Vikunni 1975

Pelican vann að því leynt og ljóst að slá í gegn á erlendum vettvangi þegar Pétur var óvænt rekinn úr sveitinni snemma árs 1975, sveitinni sem hann hafði sjálfur stofnað. Þá fyrst kom í ljós hversu stórt nafn hann var orðinn í íslensku tónlistarlífi, án hans var Pelican ekkert og það fjaraði fljótt undan þeirri sveit á sama tíma og ný sveit Péturs, Paradís sló í gegn svo um munaði og tók í raun við keflinu af Pelican.

Paradís varð öflug á sveitaböllunum og sendi fljótlega frá sér smáskífu og síðan breiðskífu um ári síðar, sveitin var kjörin hljómsveit ársins í vinsældakosningu Vikunnar 1975 og við sama tækifæri var Pétur kjörinn söngvari ársins. En þrátt fyrir vinsældir sveitarinnar á ballmarkaðnum, þar sem lög eins og Tarzan, Superman og ekki síst Rabbits, herjuðu á landann seldist breiðskífan ekkert sérlega vel og má vera að það hafi haft þau áhrif að tíðar mannabreytingar urðu í sveitinni og svo fór að lokum að hún hætti vorið 1977.

Ekki leið langur tími þar til Pétur hafði stofnað nýtt band, Póker. Sveitin var stofnuð gagngert til þess að slá í gegn erlendis, Pétur hafði fengið nasaþefinn af útrásinni með Pelican en nú átti að taka þetta með Póker. Eins og flestar sveitir sem Pétur starfaði með fór hún í gegnum miklar mannabreytingar og átti það líklega sinn þátt í að plönin gengu ekki eftir. Póker starfaði þó í tvö ár og tók upp þrjú lög, eitt þeirra kom út löngu síðar á plötu en vakti ekki mikla athygli.

Síðasta P-sveit Pétur var Picasso en hún starfaði ekki í langan tíma og vakti því síður athygli.

Á þessum árum hafði Pétur ekki einungis sungið með vinsælustu hljómsveitum landsins heldur einnig annast allar bókanir, uppgjör og auglýsingamál. Hann skildi hvernig markaðurinn virkaði og nýtti sér það óspart, bæði með hljómsveitum sínum og síðar þegar hann sneri sér að útgáfumálum.

Start

Start

Pétur varð um og upp úr 1980 fjölskyldumaður, hann giftist og þegar börnin komu í heiminn helgaði hann sér fjölskyldulífinu sem fékk eðlilega meira pláss heldur en ballspilamennska um land allt með tilheyrandi sulli og sukki.

Þarna urðu því ákveðin þáttaskil á tónlistarferli Péturs og nýtt skeið tók við, hann fór að starfa hjá útgáfu- og dreifingarfyrirtækjum eins og Steinum og Skífunni, og starfrækti reyndar einnig eigin fyrirtæki PS-músík, Tónaflóð og Wigelund. Margir muna t.d. eftir Pétri á tónlistarmarkaðnum í Perlunni sem hann átti sinn þátt í að koma á fót og þær voru einnig ófáar ferðirnar sem hann fór í kringum landið með tónlistarmarkaðinn sinn.

Árið 1982 vann Pétur að tónlist ásamt Hallgrími Bergssyni og voru gerðar einhverjar upptökur, þær voru þó aldrei fullkláraðar fyrr en eftir að Pétur lést og komu út á safnplötunni Algjör sjúkheit.

Pétur var ekki alveg hættur ballspilamennsku þó að fjölskyldan og fyrirtækið fengju meira vægi, og hljómsveitin Start varð næsta hljómsveitarverkefni hans. Sú sveit naut töluverðra vinsælda á árunum 1980-83 og gaf út breiðskífu og smáskífu þar sem lögin Sekur og Seinna meir slógu í gegn, og hafa fylgt kynslóðum allt til dagsins í dag.

Hljómsveitabrölt Péturs tók þarna pásu um tíma en hins vegar birtist hann óvænt með Bjartmari Guðlaugssyni sumarið 1986 með fjögurra laga plötuna Þá sjaldan maður lyftir sér upp. Þrjú laganna fjögurra náðu allmiklum vinsældum og sérstaklega urðu lögin Ástar-óður og Fimmtán ára á föstu vinsæl en þeir félagar höfðu áður sungið saman lagið Stúdentshúfan en það kom út á plötu Bjartmars, Venjulegur maður, árið á undan.

Pétur Kristjánsson 1986

Pétur árið 1986

Þetta sama ár (1986) stofnaði Pétur hljómsveitina Dúndur en hún starfaði í um það bil eitt og hálft ár og keyrði á ballmarkaðinn eins og aðrar sveitir hans, eins og fyrr er sagt var Pétur þarna orðinn fjölskyldumaður og því var ekki tekið jafn vel á djamminu og áður.

Á næstu árum starfaði Pétur ekki með fastri sveit heldur tróð hann upp með hinum og þessum hljómsveitum á sveitaböllum um land allt, hann gaf til að mynda út lagið Krókurinn með Sálinni hans Jóns míns og söng lagið og nokkur önnur með sveitinni víðs vegar um land á hringferð hennar um landið sumarið 1992, hann tróð einnig upp með Gildrunni og Stjórninni við ýmis sams konar tækifæri.

Það var í raun ekki fyrr en sumarið 1994 sem Pétur kom á sjónarsviðið með nýja „sveit“ og það af óvenjulegra taginu, Fjörkálfarnir var samstarfsverkefni hans, Hermanns Gunnarssonar og Ómars Ragnarssonar en meðspilarar þeirra voru Vilhjálmur Guðjónsson og Haukur Heiðar. Þarna var einkum keyrt á skemmtanir fyrir börn og fjölskyldufólk og söngvarar af yngstu kynslóðinni tóku lagið með Fjörkálfunum.

Þarna liðu nokkuð mörg ár áður en Pétur starfaði næst með hljómsveit, það fór því óvenju lítið fyrir honum á árunum milli 1995 og 2000 en þá birtist hljómsveitin Gargið sem auk Péturs hafði að geyma nokkra gamla poppara frá gullaldarárunum. Gargið var síðasta sveitin sem Pétur starfaði með eða starfrækti en auk þeirra voru auðvitað fleiri skammlífari sveitir s.s. Stórsveit Péturs Kristjánssonar, Pops sem poppaði reglulega upp og önnur tímabundin skammtímaverkefni sem ekki verða tíunduð hér.

Árið 2001 mun hafa komið út safnplata með tónlist Péturs í tilefni af fimmtugs afmælis hans en litlar upplýsingar er að finna um þá útgáfu, efni með Garginu mun hafa verið á henni, hugsanlega eitthvað af tónleikaupptökum af Vellinum frá áttunda áratugnum auk annars efnis. Hugsanlega var þarna um að ræða óopinbera útgáfu í litlu upplagi.

Pétur Kristjánsson2

Pétur á áttunda áratugnum

Ferli Péturs má skipta í nokkur skeið, framan af var framústefnulegt progrokk málið en iðnaðar- og glysrokk tók við og varð lengst af hans vörumerki áður en hann sneri sér að útgáfu- og dreifingarmálum. Þegar hann sneri aftur með hljómsveitir voru það ballrokksveitir allt frá því að flytja popp til argasta þungarokks, tónlistin mýktist þó með árunum. Um og eftir aldamót var Pétur farinn að vinna að sólóplötu sem hafði að geyma efni eftir Kim Larsen hinn danska við texta Kristjáns Hreinssonar. Pétri auðnaðist þó aldrei að ljúka við gerð plötunnar þar sem hann féll frá langt fyrir aldur fram haustið 2004 eftir að hafa fengið hjartaáfall. Hann var þá á fimmtugasta og fjórða aldursári.

Fráfall Péturs bar auðvitað brátt að og hann varð öllum harmdauði, hann hafði verið með vinsælustu tónlistarmönnum landsins þrátt fyrir að hafa verið lítt áberandi og viðloðandi bransann síðustu árin á undan. Líferni hans var talið hafa sitt að segja um hið ótímabæra andlát en mataræðið hafði sérstaklega verið slæmt.

Platan sem Pétur vann að var kláruð af samstarfsmönnum hans og kom út árið (2005) eftir undir nafninu Gamlar myndir, hún fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Þetta sama ár kom einnig út bókin Pétur poppari sem Kristján Hreinsson skrásetti en þeir höfðu unnið náið saman við gerð plötunnar.

Pétur var sem fyrr segir sérstæður persónuleiki, hafði skapað sitt eigið orðfæri svo frægt er, í laginu Krókurinn sem Pétur söng með Sálinni hans Jóns míns er marga af þeim frösum að finna og kannast margir við frasa eins og grýlur, dúndur, sjúkheit, dvellari, Guðsteinn og hammari sem öll eru úr smiðju Péturs. Margir kannast ennfremur við að hafa eitthvað á kantinum, eða upphrópunina Skjóttu!

Margir minnast Pétur sem einlægs sprelligosa og þær voru víst ófáar uppákomurnar í ferðum hljómsveita hans um landið, oft komu þar strípihlaup við sögu. En Pétur átti sér einnig hlið sem maður félagsstarfa og hann vann til að mynda að félagsmálum fyrir FÍH (Félag íslenskra hljómlistarmanna).

2008 kom út tveggja platna safnplötupakki undir titlinum Algjör sjúkheit sem gefinn var út af Íslenskum tónum. Á þeirri plötu var að finna safn laga sem hljómsveitir Péturs höfðu flutt og gert vinsæl á sínum tíma en einnig sóló- og hliðarverkefni hans. Þar var ennfremur að finna óútgefnar upptökur, m.a. þær með Hallgrími Bergssyni frá 1982, með Garginu og einnig tónleikaupptökur með hljómsveitinni Start. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.

Þess fyrir utan hafa ógrynni laga með Pétri og hljómsveitum hans komið út á tugum safnplatna á síðustu áratugum.

Efni á plötum

Sjá einnig Dúndur

Sjá einnig Paradís

Sjá einnig Pelican

Sjá einnig Picasso

Sjá einnig Pops [1]

Sjá einnig Póker

Sjá einnig Svanfríður