Pétur Guðjohnsen (1812-77)

Pétur Guðjohnsen

Pétur Guðjohnsen

Nafn Péturs Guðjohnsen er ekki meðal þeirra þekktustu í tónlistargeiranum en fáir hafa þó líklega haft meiri áhrif á sönglistina hérlendis en hann.

Pétur (Guðjónsson) fæddist að Hrafnagili í Eyjafirði haustið 1812 og ólst upp fyrir norðan. Það var í raun fátt sem benti til að hann myndi starfa við eitthvað sem tengdist tónlist en hann fór suður til náms og stefndi þar á að verða læknir. Aðstæður leiddu til þess að Pétur hlaut styrk til kennaranáms í Danmörku þar sem hann nam í þrjú ár, á árunum 1837-40. Hann varð síðan fyrsti menntaði barnakennarinn á Íslandi.

Vera Péturs í Danmörku hafði þó allt önnur og stærri áhrif á sögu tónlistar á Íslandi því í Danaveldi kynntist hann evrópskri kirkjutónlistarmenningu, orgelleik sem hann lærði einnig í námi sínu, og straumum í sönglistinni sem þá voru Íslendingum almennt mjög framandi en hérlendis tíðkaðist eingöngu einradda kirkjusöngur. Þessa reynslu kom Pétur með í farteskinu til Íslands, auk þess sem hann hafði frumkvæði að því að alvöru orgel yrði flutt til landsins en slíkt hljóðfæri þekktist þá ekki hérlendis.

Þegar Pétur kom aftur heim til Íslands (1840) hóf hann barnakennslu og varð um leið fyrsti organisti Dómkirkjunnar í Reykjavík en orgelið sem keypt var til landsins fyrir hans tilstuðlan var staðsett í kirkjunni. Organistastarfið varð aukastarf Péturs með kennslunni en barnaskólakennslunni sinnti hann þar til skólinn var lagður niður 1849, 1846 var Latínuskólinn fluttur frá Bessastöðum til Reykjavíkur og við það tækifæri hóf Pétur söngkennslu við skólann.

Dómkirkjan hafði verið vígð 1848 og við það tækifæri æfði Pétur kór skólapilta sem söng fjórraddað undir orgelspilinu  við vígsluna, slíkt hafði þá ekki heyrst hérlendis og vakti það mikla og verðskuldaða athygli.

Það var þó ekki fyrr en vorið 1854 sem hann stofnaði kór skólapilta opinberlega, það var þá fyrsti kórinn sem stofnaður var hérlendis og markar upphaf kórastarfs hér á landi.

Pétur Guðjohnsen dómkirkjan

Pétur við orgel Dómkirkjunnar

Ekki voru allir kirkjunnar menn sáttir við þetta framlag Péturs til fjölraddasöngs og vildu meina að hann hefði eyðilagt hina gömlu íslensku einraddahefð í kirkjutónlistinni, Pétur verður þó seint sakaður um það því hann hafði frumkvæði að því að gefa út einraddaða sálmasöngbók árið 1861 með 110 sálmalögum auk annarra laga. Bókin hafði einnig að geyma eins konar ágrip af söngfræði og kennsluefni ritað af honum sjálfum.

Hitt var að með tilkomu hins margradda kórsöngs jókst það að hingað bærust lög erlendis frá, einkum frá Danmörku og var þar um að ræða ýmis veraldleg sönglög fremur en trúarleg. Pétur lagði hins vegar alltaf mesta áherslu á íslenska tónlist fremur en að innleiða hina dönsku tónlist sem hann hafði sjálfur meðtekið í náminu. Sjálfur samdi hann einnig tónlist en hún hefur ekki nema að litlu leyti varðveist á nótum.

Tvær aðrar bækur gaf Pétur út á sínum tíma, 1870 kom út söngfræðibókin Leiðarvísir til þekkingar á sönglistinni en hún var að mestu þýdd og að honum látnum (1878) kom út sálmasöngbók sem hafði að geyma þríraddaðan söng í radd- og útsetningum Péturs. Í þeirri bók var einnig að finna æviágrip um Pétur.

Framlag Péturs til íslenskrar tónlistar var einkum tvíþætt, annars vegar innleiddi hann margraddaðan kórsöng og stjórnaði fyrsta kórnum hérlendis, hins vegar hafði hann forgöngu um að fyrsta orgelið kom hingað til lands og varð í kjölfarið fyrsti organistinn á landinu.

Pétur Guðjohnsen1

Pétur á forsíðu Organistablaðsins

Þótt þáttur Péturs sé stór má ekki gleyma því sem snýr að Jónasi Helgasyni, Jónas var einn af kórmeðlimum Péturs og nemandi, og hélt áfram starfi Péturs að honum látnum t.d. með því að gegna starfi dómorganista. Annar nemandi hans var Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld og þeir tveir áttu ekki lítinn þátt í að halda áfram þeirri leið sem Pétur hafði sporgöngu um. Starf Péturs var fyrst og fremst frumkvöðlastarf og var hann m.a. nefndur „faðir söngs á ísafoldu“.

Pétur lifði engu lúxuslífi, hafði fremur litlar tekjur af störfum sínum og átti í basli alla tíð fjárhagslega enda var hann giftur og fimmtán barna faðir. Hann var þingmaður um tveggja ára skeið og hefur það vakið athygli að hann átti á sínum tíma fjóra tengdasyni á alþingi.

Pétur var umdeildur sem persóna og ekki allra, sumir báru honum vel söguna á meðan aðrir höndluðu hann fremur illa og má segja að stór partur af þeirri tvískiptingu hafi stafað af því að Pétri þótti sopinn góður og var oft ekki kominn í gang á morgnana fyrr en hann hafði fengið snafsinn sinn, þá varð hann venjulega ekki eins úrillur og átti auðveldara með að höndla aðra. Hitt er að hann var ekki allra og ekki áttu heldur allir upp á pallborðið hjá honum, Pétri var til að mynda í nöp við þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson og segir sagan að það hafi verið vegna ljóðsins Þorkell þunni sem átti að vera samið um hann, ekki er þó alveg víst að svo hafi verið.

Pétur lést sumarið 1877 eftir skammvinn veikindi en hann var þá á sextugasta og fimmta aldursári. Ljóð og lög voru samin í minningu hans af samtíðarmönnum en framlag hans til tónlistarinnar féll nokkuð í gleymskunnar dá. Frímerki með mynd af honum var þó gefið út löngu síðar.