
Pétur rakari
Pétur Guðjónsson, oftast kallaður Pétur rakari, var með fyrstu umboðsmönnum íslenskra skemmtikrafta og var reyndar með mjög marga slíka á tímabili.
Pétur fæddist 1924 í Reykjavík, hann varð fyrst þekktur fyrir danskunnáttu sína án þess þó að hafa lært nokkuð í þeim fræðum. Hann kenndi dans á tímabili og sýndi ennfremur dans á samkomum, hann gekk þá stundum undir nafninu Pétur dansari eða jafnvel Pétur línudansari.
Pétur lauk hárskeranámi og opnaði hársnyrtistofu á Skólavörðustíg árið 1951 við annan mann. Þá var hann þegar farinn að annast umboðsmennsku fyrir Hljómsveit Björns R. Einarssonar sem hann byrjaði að starfa með 1948 en hann var reyndar titlaður framkvæmdastjóri sveitarinnar allt til 1954 en þá tók hann við KK-sextettnum, sem hann hafði á sínum vegum allt þar til sú sveit hætti 1961. Á þeim árum fólst umboðsmennskan í mun fleiri verkefnum en að bóka sveitir á böll, Pétur sá um auglýsingar, annaðist uppgjör og seldi jafnvel miða og fór því gjarnan með sveitunum í langar ferðir út á land.
Pétur sinnti umboðsmennskunni alla tíð síðan líklega allavega til 1990 og varð æ umsvifameiri, meðal hljómsveita og tónlistarfólks sem hann starfaði fyrir voru Stereo, Pops, Savanna tríóið, Rifsberja, Hljómsveit Andrésar Ingólfsson, Tívolí, Hljómsveit Stefáns P, Aría, Pétur og Bjartmar, Sif Ragnhildardótir, Magnús Ólafsson, Kaktus, Ómar Ragnarsson, Garðar og Stuðbandið o.fl. Hann hafði einnig með umboðsmennsku annarra skemmtikrafta að gera og útvegaði til dæmis jólasveina fyrir jólaskemmtanir.
Sjálfur hafði Pétur lítillega eitthvað leikið á trommur á sínum yngri árum en ekki liggur fyrir hvort hann lék með hljómsveitum á þeim tíma.
Pétur lést snemma árs 1995 liðlega sjötugur.