
Eyþór Ingi Gunnlaugsson
Í dag eru tvö tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:
Dalvíkingurinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson söngvari er tuttugu og sjö ára gamall á þessum degi. Eyþór er auðvitað þekktastur fyrir framlag sitt til Eurovision söngkeppninnar en eins og alþjóð veit söng hann íslenska framlagið, Ég á líf, vorið 2013. Áður hafði hann vakið athygli í hæfileikakeppninni Bandinu hans Bubba á Stöð 2 árið 2008 og í söngkeppni framhaldsskólanna 2008. Eyþór hefur síðustu árin sungið með Atómskáldunum og Todmobile, og er söng hans að finna á nokkrum plötum sem komið hafa út hin síðustur ár.
Erlendur Svavarsson (Eddie Svavarsson) söngvari og trommuleikari er sjötíu og fjögurra ára. Erlendur hóf feril sinn sem söngvari með sveitum eins og hljómsveitum Aage Lorange og Árna Ísleifs áður en hann gekk til liðs við Neo kvartettinn. Síðar gerðist hann trommuleikari með Pónik, Blúskompaníinu og fleiri sveitum. Erlendur hefur búið erlendis síðustu árin.