Picasso (1979)

Picasso

Picasso

Picasso var ein þeirra hljómsveita sem kennd var við Pétur Kristjánsson en sveitin var sú síðasta í röð nokkurra sem höfðu stafinn P að upphafsstaf.

Picasso var stofnuð vorið 1979, fljótlega eftir að Póker lagði upp laupana. Það var aldrei ætlunin að sveitin yrði langlíf enda varð hún það ekki, Pétur var á þessum tíma að verða fjölskyldumaður og var heldur að róast í djamminu.

Aðrir meðlimir Picassos auk Péturs sem lék á bassa voru Jóhann Ásmundsson bassaleikari, Kristján Þ. Guðmundsson hljómborðsleikari, Örn Hjálmarsson gítarleikari, Nikulás Róbertsson píanóleikari og Davíð Karlsson trymbill.

Sveitin varð strax eins konar húshljómsveit í Klúbbnum um sumarið en síðari part júlímánaðar fór hún í frí, meðlimir sveitarinnar höfðu þá þegar gengið frá því að söngkona kæmi inn í sveitina að því loknu en það var Vigdís Pálsdóttir.

Það varð þó aldrei úr að Picasso kæmi úr fríinu og í október var send tilkynning á fjölmiðla þess efnis að sveitin væri hætt. Fáeinum mánuðum síðar birtist ný sveit úr rústum Picassos en hún átti eftir að gera ágæta hluti undir nafninu Start.