Start (1980-83)

Start árið 1980

Hljómsveitin Start starfaði um nokkurra ára skeið og var hvort tveggja í senn, síðasta stóra sveitin sem Pétur Kristjánsson söng með og fyrsta stóra bandið sem Eiríkur Hauksson söng með. Sveitin átti fyrst um sig nokkuð erfitt uppdráttar á dansleikjamarkaðnum sem þá var í sögulegri lægð vegna diskósins en vann þar á og sendi frá sér nokkur lög sem hafa orðið sígild og lifað góðu lífi með þjóðinni.

Start var stofnuð í ársbyrjun 1980 en sveitin var eins konar afsprengi hljómsveitarinnar Octopus sem hafði starfað um tveggja ára skeið nokkru fyrr og innihaldið þá Eirík Hauksson söngvara (sem einnig gat leikið á hljómborð og gítar), Gústaf Guðmundsson trommuleikara, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikara og Jón Ólafsson bassaleikara. Þeir þrír fyrst nefndu voru þá allir ungir tónlistarmenn en Jón bassaleikari var öllu eldri og reyndari og hafði reyndar leikið með fjölmörgum landsþekktum hljómsveitum, hann stakk upp á að fá gamla brýnið Pétur W. Kristjánsson til liðs við sveitina en Pétur hafði þá lýst því yfir að hann væri hættur öllu hljómsveitastússi. Hann lét þó til leiðast og slóst í hópinn en auk þess bættist hljómborðs- og saxófónleikarinn Nikulás Róbertsson í sveitina og þannig varð sveitin fullskipuð.

Start kom fyrst fram á sjónarsviðið í febrúar 1980 en sveitin var þá ráðin til að leika í nokkur skipti í Sigtúni við Austurvöll og var hún iðulega kynnt sem hljómsveit Péturs Kristjánssonar enda var hann þeirra þekktastur. Sveitin spilaði sig saman í Sigtúni, aðallega með ábreiðuefni en þegar nær dró vori þreifaði hún fyrir sér á sveitaballamarkaðnum sem þá var ekki burðugur frekar en aðrar samkomur með lifandi tónlist enda hafði diskótekið að miklu leyti tekið við á dansleikjum, Pétur var duglegur að tala um þetta í viðtölum og kvartaði m.a. um að skólar hefðu nánast bannað lifandi tónlist á skólaböllunum enda væru diskótekin miklu ódýrari. Þróunin var þó smám saman að snúast við á þessum tíma enda var pönk- og Bubbabyltingin að hefja innreið sína með tilheyrandi tónleikahaldi, og smám saman fjölgaði dansleikjum einnig þótt aðsóknin væri ekki alltaf mikið – Pétur leit þó á Start meira til að hafa gaman af og fljótlega þegar sveitin var farin að leika á sveitaböllum t.d. í Félagsgarði í Kjós (sem síðar varð þeirra helsta vígi) náðu hann og Jón að plata félagana með í alls kyns sprell eins og hafði tíðkast á Pelican- og Paradísarárunum – þar bar hæst „stríkið“ svokallaða, að hlaupa um naktir á ferðum sínum um landið og kallaði Pétur þá sveitina stundum Bad moon rising. Pétur var jafnframt duglegur að koma inn með nýjungar (eins og hann hafði reyndar jafnan gert með fyrri hljómsveitum sínum) og t.d. fjárfestu þeir félagar í ljósashowi, sápukúluvél og sitthverju fleira dóti.

Start á sviði 1981

Tónlist Start var eins konar blanda hefðbundins rokks og þungarokks, á meðan „gömlu karlarnir“ Pétur og Jón aðhylltust hið hefðbundna voru þeir yngri meira fyrir þungarokkið sem þá var nokkuð að ryðja sér til rúms. Þótt þeir félagar væru ekki allir á sömu tónlstarlegu línunni mætti þó alltént segja að sveitin hafi verið sett á laggirnar til að segja diskóinu stríð á hendur. Jón og Pétur voru þeirra þekktastir en hinir yngri þóttu efnilegir, Eiríkur hafði þá t.d. verið í hljómsveitinni Þey og þegar Bubbi Morthens vann að fyrstu plötu sinni um þetta leyti, komu þeir Sigurgeir og Gústaf þar við sögu.

Um haustið færði sveitin sig aftur inn á skemmtistaði höfuðborgarsvæðisins og lék einnig töluvert í félagsmiðstöðvum og skólaböllum og nokkuð á tónleikum, m.a. á vegum SATT og NEFS sem þá höfðu verið stofnuð. Þær mannabreytingar urðu um það leyti í Start að Davíð Karlsson tók við trommuslættinum af Gústafi og þá var gert heyrinkunnt að sveitin hygði á plötuútgáfu, að væntanleg væri tveggja eða fjögurra laga smáskífa. Hún var svo hljóðrituð um haustið og kláruð fljótlega eftir áramót en kom svo út í byrjun apríl 1981. Um var að ræða tveggja laga plötu (Seinna meir / Stína fína) og sló fyrrnefnda lagið, sem var eftir Jóhann Helgason, nokkuð í gegn um vorið og var t.a.m. töluvert leikið í útvarpi (sem þá vel að merkja var bara ein útvarpsstöð) en þar keppti lagið einkum við Bubba og Utangarðsmenn um athygli almúgans. Um það leyti hafði Start bætt töluverðu af frumsömdu efni á prógrammið og sögðust þá vera tilbúnir með efni á heila breiðskífu. Smáskífan fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda dagblaðanna, þannig fékk hún ágæta dóma í Þjóðviljanum og Dagblaðinu.

Start á ferð um landið

Samhliða útgáfu smáskífunnar jókst spilamennskan töluvert enda komið vor og tími til að halda út á landsbyggðina aftur, Laddi kom þá nokkuð fram með sveitinni en hann var þá einnig að senda frá sér smáskífu (hjá Steinum eins og Start) og mátti því Start gjöra svo vel að æfa upp lögin Skammastu þín svo og Stórpönkarann sem flutt voru af Ladda í gervi Eiríks Fjalar og Stjána rottu. Laddi kom t.d. fram með sveitinni á nokkrum tónleikum þar sem sveitin hitaði upp fyrir bresku sveitina Any trouble um sumarið, m.a. á Hvítasunnurokki í Laugardalshöllinni. Sveitin spilaði svo á Laugahátíð fyrir norðan um verslunarmannahelgina.

Síðla sumars var gert opinbert að Start myndi senda frá sér breiðskífu fyrir jólin 1981 og þegar haustaði dró sveitin sig nokkuð í hlé til að vinna plötuna, þeir félagar fóru m.a. í æfingabúðir í skíðaskála í Mosfellsdalnum en platan var svo hljóðrituð í Hljóðrita. Um það leyti hætti Sigurgeir gítarleikari en hann hafði þá fremur vilja fara „þyngri“ leið í tónlistinni heldur en þeir Pétur og Jón vildu fara, Kristján Edelstein tók við gítarleikarahlutverkinu af honum en heyra má gítarleik þeirra beggja á plötuupptökunum.

Öll tónlistin nema eitt lag (sem var erlent) var eftir þá Start-liða en textarnir voru að mestu eftir þá félaga einnig. Platan sem var tíu laga kom út í nóvember og bar titilinn … en hún snýst nú samt. Heldur fór rólega fyrir sölunni fyrstu vikurnar en rétt fyrir jól tók salan nokkurn kipp og seldist hún þokkalega, því mátti líklega helst þakka vinsældum lagsins Sekur en það naut mikilla vinsælda og var margar vikur á vinsældalista sem þá var settur saman af DV, lagið var síðan kjörið lag ársins á Stjörnumessu DV eftir áramótin, þar varð Seinna meir ennfremur í áttunda sæti og Start varð þar í þriðja sæti sem hljómsveit ársins á sömu samkomu.

Start

Skífan fékk mjög góða dóma í DV en einnig ágæta í Þjóðviljanum, Degi og Morgunblaðinu (sem birti reyndar tvo dóma um hana), þá fékk hún þokkalega dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar. Fleiri lög á plötunni urðu reyndar nokkuð vinsæl og má þar nefna Lífið og tilveran og Hvað viltu mér? en fyrrnefnda lagið fluttu þeir félagar einnig fyrir framan kvikmyndavélar Friðriks Þórs Friðrikssonar sem þá var að taka upp myndina Rokk í Reykjavík, reyndar var lagið Hjónalíf sömuleiðis tekið upp fyrir þá mynd en það birtist ekki í henni. Start var ásamt hljómsveitunum Friðryk og Þursaflokknum nokkuð á skjön við aðra tónlist í myndinni en þeir tilheyrðu strangt til tekið eldri kynslóðunum meðan pönk- og nýbylgjusveitirnar voru fulltrúar þeirra yngri. Framlag Starts er engu að síður ágæt heimild um það sem sveitin var að gera.

Start fylgdi útgáfu plötunnar ekki eftir með beinum hætti og var lítið áberandi undir lok árs 1981 en lék þó eitthvað meira eftir áramótin, t.d. á 50 ára afmælishátíð FÍH sem haldin var í febrúar 1982 – sveitina er hins vegar ekki að finna á tvöfaldri tónleikaplötu sem gefin var út af því tilefni, þá má geta að Start kom fram og lék í útvarpsþætti Hermanns Gunnarssonar um vorið þar sem sveitin lék nýtt frumsamið efni.

Um þetta leyti var Start farin að vinna aðra smáskífu en að sögn höfðu þeir félagar gert samning við Steina um útgáfu fleiri platna. Engin plata kom þó út með sveitinni en hins vegar komu Start-liðar við sögu sem eins konar leynisveit á smáskífu Valla og víkinganna sem kom út um vorið en hún hafði að geyma lögin Úti alla nóttina / Til í allt. Valli þessi var enginn annar en útvarpsmaðurinn góðkunni (og tónlistarmaðurinn) Þorgeir Ástvaldsson og víkingarnir voru þá Start. Að öðru leyti fór lítið fyrir Start fram á sumar 1982 en þá lagðist sveitin nokkuð í ballspilamennsku, þar var Félagsgarður í Kjós sem fyrr helsta ballvígi hennar en einnig lék sveitin t.d. á Akureyri og víðar um sumarið.

Start á miðjuopnu Vikunnar

Eftir verslunarmannahelgina þar sem Start lék ásamt Pass úr Mosfellssveit í Félagsgarði hættu þeir Eiríkur og Kristján í sveitinni og stofnuðu í kjölfarið nýja sveit, Berserki ásamt Sigugeiri fyrrum gítarleikara – væntanlega í því skyni að sinna þörfinni fyrir almennilegt þungarokk en sem fyrr segir var eldri hluti sveitarinnar ekki á þeirri línu. Allt benti þá til þess að Start myndi hætta og einhverjar fréttir þess eðlis birtust í fjölmiðlum en það var síðan dregið til baka og í september höfðu Ágúst Ragnarsson gítar- og hljómborðsleikari og Eðvarð Lárusson gítarleikari gengið til liðs við sveitina. Nikulás hætti um svipað leyti og því var sveitin orðin gjörbreytt, skipuð þeim Pétri, Jóni, Davíð, Ágústi og Eðvarði. Þannig skipuð starfaði sveitin áfram og varð um haustið aftur eins konar húshljómsveit í Klúbbnum fram að jólum en síðan heyrðist lítið sem ekkert til sveitarinnar fyrr en í mars 1983. Eðvarð gítarleikari hætti þá um vorið og Einar Jónsson tók sæti hans en enn áttu eftir að verða breytingar á skipan sveitarinnar þegar sjálfur Pétur söngvari hætti til að einbeita sér að starfi sínu en hann hafði þá tekið við forstjórastarfi hjá Steinum. Start starfaði áfram en nú var aðeins einn upprunalegu meðlimanna innanborðs – Jón bassaleikari, aðrir voru Davíð trymbill, Ágúst sem nú hafði tekið við söngnum og Einar gítarleikari. Hugsanlega lék Jón Ragnarsson bróðir Ágústs þarna eitthvað með sveitinni sem og Brynjar Klemenzson (Billi Start) sem lengi var viðloðandi sveitina, það er þó ekki staðfest. Einnig segir sagan að Rúnar Erlingsson bassaleikari hafi einhvern tímann leikið með sveitinni.

Start lék eitthvað áfram um sumarið 1983, m.a. á Jöklagleði á Snæfellsnesi um verslunarmannahelgina en fljótlega eftir það hætti hún störfum endanlega enda höfðu þá miklar mannabreytingar sett svip sinn á sveitina síðustu mánuðina.

Mörg ár liðu og sveitin gleymdist svo að segja þó að vinsælustu lög hennar lifðu og yrðu að klassík, sérstaklega hefur Seinna meir lifað góðu lífi (sem Pétur Kristjánsson kallaði oft Later on og það kemur fyrir í textanum um Krókinn, sem Sálin hans Jóns míns orti sérstaklega um Pétur) og það lag hefur komið út á tugum safnplatna.

Start

Þegar Pétur féll frá haustið 2004 kom Start saman á nýjan leik til að leika á minningartónleikum um hann í byrjun árs 2005 en þar var sveitin skipuð þeim Eiríki, Nikulási, Jóni, Sigurgeiri og Davíð – þeim sem störfuðu lengst með henni, þá hljóðritaði Start lag í minningu Péturs – það heitir Paradís og kom svo út á plötunni Algjör sjúkheit, safnplötu tengdri minningu Péturs en hún kom út 2008. Á þeirri plötu er einnig að finna tvö lög með sveitinni sem tekin höfðu verið upp á tónleikum í Háskólabíói meðan hún starfaði. Jafnframt sendi Start þá frá sér eitt nýtt lag árið 2006, Heilræðavísur en það kom út á safnplötunni Svona er sumarið 2006 og fékk nokkra spilun á útvarpsstöðvunum.

Árið 2011 kom út endurútgáfa af plötunni … en hún snýst nú samt á geisladisk og á þeirri útgáfu var einnig að finna smáskífulögin og þrjú aukalög sem hljóðrituð höfðu verið 2004 og 06. Sú plata fékk þokkalega dóma í Fréttatímanum.

Efni á plötum