Dínamít (1975-76)

Dínamít1

Upprunalega útgáfa Dínamíts

Dínamít var ein þeirra hljómsveita á áttunda áratug síðustu aldar sem stöldruðu stutt við ásamt því sem tíðar mannabreytingar settu svip sinn á starfsemina. Mikil gróska var í íslensku balltónlistarlífi á þeim tíma og tóku fjölmiðlar virkan þátt í að miðla fréttum um ósætti og ósamkomulag innan og milli hljómsveita svo ekki hjálpaði það til.

Dínamít var stofnuð í kjölfar þess að Herbert Guðmundsson söngvari hætti í Pelican en þar höfðu orðið miklar og dramatískar breytingar, mætti segja að framhald hafi orðið á þeim hræringum í sveitum eins og Dínamít og öðrum reyndar einnig.

Herbert stofnaði sveitina haustið 1975 og með honum voru félagarnir Svavar Ellertsson trommuleikari, Nikulás Róbertsson hljómborðs- og saxófónleikari, Rúnar Þórisson gítarleikari, Sigurður Long Jakobsson saxófónleikari og Guðjón Þór Guðjónsson bassaleikari.

Í byrjun gekk allt að óskum hjá sextettnum sem lék eins konar funkpopp á böllum sínum enda með tvo blásara innanborðs, í mars 1976 urðu þó fyrstu breytingar á mannaskipan þegar Sigurður saxófónleikari hætti, fjölmiðlar fóru á flug og sögðu Ragnar Sigurðsson gítarleikara myndu taka sæti hans á meðan aðrir miðlar sögðu sveitina hætta. Næstu vikurnar virtist allt í lausu lofti en síðan bárust þær fréttir að sveitin væri enn starfandi, Nikulás hljómborðsleikari væri hættur og Pétur „kafteinn“ Kristjánsson hefði tekið við hlutverki hans.

Dínamít12

Dínamít

Enn voru fréttir óljósar og komið var fram í júní þegar næstu fréttir af mannabreytingum bárust, þá birtist Dínamít á sjónarsviðinu mikið breytt, Svavar trymbill var hættur, hafði sprengt í sér hljóðhimnu, og Sigurjón Skúlason tekið hans sæti, Ingvi Steinn Sigtryggsson hljómborðsleikari var einnig genginn til liðs við sveitina og hafði tekið við af Nikulási, ekki af Pétri „kafteini“ sem starfaði líklega aldrei með sveitinni. Ennfremur var nýr bassaleikari, Jóhann Þórisson kominn í stað Guðjóns. Fyrrgreindur Ragnar gítarleikari var hins vegar í sveitinni og þar með var heildartala meðlima þessarar hálfs árs gömlu sveitar kominn upp í tíu manns.

Og ekki liðu margar vikur þar til þeir Ingvi Steinn og Ragnar hættu en þeir gengu þá í hljómsveit sem ætlaði sér stóra hluti í Svíþjóð. Þetta var í byrjun júlí 1976 og þá voru dagar Dínamítsins endanlega taldir og sveitin sprungin í loft upp.

Sveitinni gafst því aldrei tími til að vinna frumsamið efni að neinu marki og því kom aldrei neitt efni út með henni.

Herbert sem hafði verið býsna áberandi í íslensku tónlistarlífi þarna um árabil sneri sér nú að sólóferli sínum og flestir þekkja slagarann Can‘t walk away með honum nokkrum árum síðar, Rúnar Þórisson hóf einnig sólóferil löngu síðar (eftir farsælan feril með Grafík) og aðrir meðlimir sveitarinnar birtust reglulega í misþekktum hljómsveitum.