Póker (1977-79)

Póker 1977

Póker 1977

Hljómsveitin Póker er ein þeirra sveita sem kennd er við Pétur Kristjánsson og var starfandi á áttunda áratug síðustu aldar. Sveitin var stofnuð í kjölfar þess að Paradís hætti og gagngert til þess að slá í gegn á alþjóða vettvangi en slíkar fyrirætlanir höfðu mistekist hjá Paradís.

Paradís var stofnuð vorið 1977 upp úr Paradís og Celsius og í upphafi voru meðlimir hennar fimm talsins, þeir Pétur Kristjánsson söngvari, Björgvin Gíslason hljómborðs- og gítarleikari, Kristján Guðmundsson hljómborðsleikari, Sigurður Karlsson trommuleikari og Pálmi Gunnarsson bassaleikari. Jóhann Helgason gítarleikari bættist fljótlega í hópinn en þeir Sigurður trommuleikari höfðu starfað með Change í Bretlandi þegar sú sveit var og hét. Söngkonan Shady Owens kom fram með sveitinni í nokkur skipti um sumarið.

Eitt af fyrstu verkefnum sveitarinnar var að leika undir á plötu ungrar söngkonu, Bjarkar Guðmundsdóttur en hún var þá að gefa út sína fyrstu plötu, ellefu ára gömul. Pétur söngvari kom þó ekkert við sögu á þeim upptökum.

Sem fyrr segir var sveitin stofnuð til að starfa erlendis og fljótlega voru demóupptökur sendar til útgáfufyrirtækja í Danmörku og Bretlandi, þeir Póker-liðar hugsuðu þó fyrst og fremst til Bandaríkjanna. Einnig voru þrjú lög tekin upp og fullunnin, ætluð til útgáfu, það voru lögin Driving in the city, Get on to a sure thing og Take me to the sun eftir Jóhann.

Póker 1977

Póker

Um haustið sögðu fjölmiðlar frá því að tvö bresk útgáfufyrirtæki hefðu áhuga á fullunnu upptökunum en úr því varð ekkert, ekki frekar en úr Midem tónlistarráðstefnunni í Frakklandi sem menn höfðu einnig bundið nokkrar vonir við.

Einhver áhugi var þó í Bandaríkjunum og um vorið 1978 bárust þær fréttir að Póker væri komin með bandarískan umboðsmann og samning til þriggja ára sem náði til útgáfu, upptaka, tónleika og annarrar spilamennsku. Ennfremur bárust einhver tilboð um útgáfusamninga.

Nokkrar mannabreytingar urðu í Póker fyrri hluta árs 1978, Pálmi bassaleikari og Sigurður trommuleikari hættu í febrúar og í stað þeirra komu Jóhann G. Jóhannsson og Ásgeir Óskarsson, auk þess sem Pétur Hjaltested hljómborðsleikari bættist í hópinn. Jóhann staldraði fremur stutt við, fáeinar vikur, og tók Haraldur Þorsteinsson við bassaleikarahlutverkinu af honum. Jóhann Helgason hætti um svipað leyti, varð ósáttur þegar Jóhann G. hætti.

Um vorið hitaði Póker upp fyrir bresku sveitina Stranglers á frægum tónleikum í Laugardalshöllinni og spilaði töluvert um sumarið. Og enn urðu bassaleikaraskipti síðsumars þegar Jón Ólafsson tók við bassanum af Haraldi Þorsteinssyni.

Um sumarið lék Póker undir í fjórum lögum hjá Færeyingnum Elis Poulsen (sem síðar varð fréttaritari Bylgjunnar í Færeyjum) í plötuupptökum, ekki liggur þó fyrir hvort efnið var nokkru sinni gefið út.

Í ágúst 1978 fóru meðlimir Pókers til Bandaríkjanna og spiluðu þarlendis í einhverjum klúbbum, ekki kom neitt frekar út úr þeirri ferð enda mun áhugi manna vestan hafs hafa minnkað töluvert við það að Jóhann G. og Jóhann Helga hættu en þeir voru aðal lagahöfundar Pókers.

Póker

Sjö manna Póker

Lítið spurðist til sveitarinnar um veturinn 1978-79 en í febrúar birtist hún aftur og var þá nokkuð breytt. Þá voru í sveitinni Pétur Kristjáns, Pétur Hjaltested, Kristján, Jón og Björgvin en Sigurður Karlsson hafði þá aftur gengið til liðs við sveitina, ennfremur söng söngkonan Ellen Kristjánsdóttir með Póker en sveitin lék á þessum vormánuðum nær eingöngu í Klúbbnum.

Þarna var orðið ljóst að engin útrásarævintýri væru framundan og því fjaraði undan sveitinni, hún hætti störfum um vorið 1979 um það leyti sem meðlimir hennar komu við sögu á plötu Heimavarnarliðsins, Eitt verð ég að segja þér…

Sem fyrr segir tók Póker upp þrjú lög, þau komu ekki út fyrr en löngu síðar á safnplötunni Íslensk poppsaga: úrval af því besta 1972-1977 (1996), áður hafði lagið Driving in the city komið út í íslenskri útgáfu (Strætin úti að aka) á safnplötunni Bjartar nætur  (1989), það lag kom síðan einnig út á safnplötunni Algjör sjúkheit (2008), sem gefin var út að Pétri Kristjánssyni látnum.