Pops [1] (1966-70)

Pops 1966

Pops 1966

Hljómsveitin Pops var fyrsta hljómsveit Péturs Kristjánssonar en hún starfaði um fimm ára skeið á tímum bítla-, hippa- og proggrokks. Tíð mannaskipti einkenndu Pops.

Pops var stofnuð í Laugalækjarskóla vorið 1966 og var eins konar skólahljómsveit þar en Pétur var þá aðeins fjórtán ára og nýfermdur, aðrir meðlimir sveitarinnar sem voru á svipuðu reki voru Birgir Hrafnsson gítarleikari, Guðmundur Halldórsson söngvari, Gunnar Fjeldsted Hjartarson trommuleikari og Jón Ragnarsson gítarleikari. Pétur lék á bassa en þegar Guðmundur hætti í sveitinni tók hann við sönghlutverkinu einnig.

Tíðar mannabreytingar voru alla tíð í sveitinni og hætti Pétur um tíma en á meðan tók Ólafur Sigurðsson bassaleikari sæti hans. Pétur kom síðan aftur til liðs við Pops og þeir Birgir voru einir eftir af upprunalegu útgáfunni, annar Ólafur Sigurðsson tók við trommunum af Gunnari og Benedikt Torfason kom inn sem gítarleikari.

Sveitin naut nú orðið nokkurrar velgengni þrátt fyrir að meðlimir hennar væru ungir að árum, reyndar komst Pops í fréttirnar vorið 1967 þegar eitt dagblaðanna greindi frá því að lögreglan hefði skakkað leikinn við æfingahúsnæði sveitarinnar við Ægissíðuna um miðja nótt en þá höfðu nágrannar kvartað til lögreglu vegna síendurtekinnar hávaðamengunar. Í blaðagreininni sagði að ýmsar sögur gengju um drykkju, saurlifnað og jafnvel eiturlyfjaneyslu í tengslum við þennan stað en engar sannanir væru þó fyrir þeim. Síðar kom reyndar leiðrétting um að þarna hefði alls ekki verið um hljómsveitina Pops að ræða en þetta reyndist hins vegar þrátt fyrir það hin besta auglýsing fyrir sveitina.

Pops líklega

Pops

Vorið 1968 var Pops skipuð Benedikt, Pétri, Birgi og Ólafi en þá um sumarið kom Björgvin Gíslason gítarleikari inn í sveitina og tók við af Benedikt sem hætti.

Mannaskipan sveitarinnar virðist hafa haldist nokkuð óbreytt næsta árið en næstu breytingar á henni urðu þegar Björgvin hætti í Pops til að ganga til liðs við hina nýstofnuðu Náttúru sumarið 1969. Sævar Árnason gítarleikari kom inn um sama leyti sem og Eiður Örn Eiðsson söngvari en sá var þá að stíga sín fyrstu skref í rokkinu. Pops var því um tíma fimm manna band. Fáeinum vikum síðar tók Óttar Felix Hauksson gítarleikari við af Birgi sem hafði til þess tíma verið eini meðlimur sveitarinnar sem hafði verið í henni frá upphafi. Og fleiri breytingar urðu í Pops þarna um sumarið því Eiður söngvari hætti í ágúst og við það varð sveitin aftur kvartett.

Annars var Pops töluvert til umfjöllunar í dagblöðunum á þessum tíma, til stóð að gera kvikmynd þar sem þeir félagar kæmu við sögu, ekki ósvipað Umbarumbamba ævintýrinu með Hljómum fáeinum árum fyrr. Ekkert varð hins vegar úr þeim fyrirætlunum, kannski sem betur fer.

Frægt er einnig uppátæki Óttars Felix á frægri popphátíð sem haldin var í Laugardalshöllinni um haustið 1969, en hann dansaði þá með og afklæddi fatagínu á sviðinu og hafði uppi kynferðislega tilburði með hana en slíkt var þá ekki beinlínis móðins og fór sá gjörningur því fremur öfugt ofan í áhorfendur og fjölmiðlamenn sérstaklega.

Í nóvember sama ár urðu enn breytingar á Pops þegar Óttar Felix hvarf til annarra starfa og Ómar Óskarsson kom í hans stað.

Pops 1969

Pops árið 1969

Þegar árið 1970 gekk í garð bárust þær fréttir að vænta mætti tveggja laga plötu með Pops, gefna út af SG-hljómplötum. Það var síðan um vorið sem opinberað var að Flosi Ólafsson leikari myndi syngja með sveitinni á tveggja laga plötu en hann hafði þá slegið í gegn í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpssins í árslok 1969 í gervi Halls Svein úr hljómsveitinni Púkó. Pops og Flosi komu saman fram opinberlega í nokkur skipti um vorið og sumarið 1970 og fluttu lögin tvö. Þá var ljóst að Pétur væri að yfirgefa sveitina en hann var þá að ganga til liðs við Náttúru, sömu sveit og Björgvin Gísla hafði gengið í ári fyrr.

Þegar platan kom út um haustið slógu lögin tvö rækilega í gegn, reyndar svo að þau eru enn spiluð reglulega. Lögin heita Það er svo geggjað að geta hneggjað og Ó ljúfa líf og fengu góðar viðtökur hvarvetna. Samstarf þeirra Pops og Flosa varði þó ekki lengur en á þessari einu smáskífu.

Þegar Pétur söngvari og bassaleikari hætti í Pops sumarið 1970 gengu tveir nýir meðlimir í sveitina, þeir Haraldur Þorsteinsson bassaleikari og Þórður Árnason gítarleikari en þeir höfðu báðir starfað með Litla matjurtagarðinum. Sú útgáfa af Pops gekk ekki lengi og í lok október spurðist út að sveitin væri hætt störfum, menn hefðu fengið nóg hverjir af öðrum og þetta væri orðið fínt.

Flosi Ólafsson og Pops

Pops ásamt Flosa Ólafssyni

Hér lýkur sögu Pops í raun en þar með er bara hálf sagan sögð því sveitin var endurreist síðar, fyrst árið 1977 og svo aftur 1982 þegar sveitin lék á tónleikum í tilefni af fimmtíu ára afmæli STEF. Þá kom út tvöfalda tónleikaplatan FÍH 50 ára: 1932-1982 og var á henni að finna lagið Wild thing flutt af Pops. Það var í raun eina upptakan lengi vel sem til var með sveitinni fyrir utan þær sem Flosi Ólafsson kom við sögu á.

Sveitin var síðan endurreist snemma á tíunda áratugnum og hefur síðan komið reglulega saman, mest í kringum árlega áramótadansleiki. Varla er þó hægt að segja að um sömu sveit sé að ræða enda meðlimaskipan þeirrar sveitar afar breytileg, henni verður því gerð skil undir nafninu Pops [2].

Hér að ofan hafa verið upp taldir fimmtán meðlimir sem spiluðu með Pops hinni fyrri á sínum tíma, þeir voru þó að öllum líkindum enn fleiri þótt ekki hafi fundist upplýsingar um það. Hitt er að meðlimir hennar hafa flest allir komið víða við í hljómsveitum og tónlist almennt og gert garðinn frægan.

Efni á plötum