Pelican (1973-77 / 1993 / 2001)

Pelican Vikan 1975

Pelican 1975

Hljómsveitin Pelican auðgaði íslenskt tónlistarlíf um miðjan áttunda áratug 20. aldarinnar en hún var stofnuð sumarið 1973 af Pétri Wigelund Kristjánssyni söngvara og Gunnari Hermannssyni bassaleikara sem höfðu verið saman í hljómsveitinni Svanfríði, einnig voru Björgvin Gíslason gítarleikari, Ásgeir Óskarsson trommuleikari og Ómar Óskarsson gítarleikara meðal stofnenda en þeir höfðu verið í sveit sem hét Ástarkveðja, þar höfðu þeir félagar byrjað að vinna efni sem síðar var flutt og gefið út af Pelican. Gunnar hætti fljótlega í sveitinni en Jón Ólafsson tók við bassanum af honum.

Snemma næsta vor (1974) fór sveitin til Massachusetts í Bandaríkjunum til að taka upp efni á plötu en markmið sveitarinnar var frá upphafi að slá í gegn á erlendum vettvangi.

Í byrjun kom út tveggja laga smáskífa (Jenny darling/My glasses) og Pelican spilaði grimmt um sumarið 1974 en stóra platan, Uppteknir, kom síðan út um haustið undir merkjum ÁÁ. Henni var vel tekið og seldist hún á sínum tíma í um ellefu þúsund eintökum, sem þá var Íslandsmet. Flest lögin voru eftir Ómar gítarleikara en einnig var að finna nýstárlega instrumental útgáfu af laginu Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns. Það lag ásamt Jenny Darling og My glasses nutu mikilla vinsælda en einnig vakti trommusóló Ásgeirs í laginu How do I get out of N.Y.C. Það lag átti eftir koma löngu síðar við sögu í breyttri útgáfu sem upphafsstef Kastljóssins í Ríkissjónvarpinu. Sú útgáfa kom út á sólóplötu Ásgeirs, Sól (undir nafninu Ferðalag).

Platan Uppteknir hlaut ágæta dóma í Vikunni og þokkalega í Poppbók Jens Guðmundssonar sem út kom nokkrum árum síðar. Í kjölfar breiðskífunnar kom síðan út önnur smáskífa (Time/Instrumental love song) sem einnig hafði að geyma lög af stóru plötunni. Sú smáskífa seldist í um 8000 eintökum. Um þetta leyti hafði ungur Austfirðingur, Hlöðver Smári Haraldsson orgelleikari gengið til liðs við sveitina en staldraði ekki lengi við.

Sveitin lagði ætíð áherslu á gott sánd og að hún væri vel tækjum búin enda skipti það máli í víðreisn sveitarinnar um heiminn. Þeir draumar áttu bæði þátt í að halda sveitinni gangandi en áttu reyndar líka þátt í því að hún lagði síðar upp laupana.

Sveitarmeðlimir höfðu í Bandaríkjunum komist í samband við erlenda umboðsmenn og stórlaxa sem gáfu í skyn við þá að heimsfrægð væri á næsta leiti. Draumurinn um frægð og frama í útlöndum hafði alltaf freistað íslenska tónlistarmenn og það var einnig nú. Það var því úr að þeir Pelican liðar fóru að láta sig dreyma og þegar íslenskir fjölmiðlar komust í málið var því slegið sem föstu að heimsfrægð væri framundan hjá sveitinni.

Sveitin fór aftur í sama hljóðver í Bandaríkjunum snemma árs 1975 og tók upp plötu, fyrst kom út smáskífan Silly piccadilly/Lady rose en um sumarið kom út stóra platan, sem bar titilinn Lítil fluga eftir titillagi hennar en þetta margfræga lag Sigfúsar Halldórssonar var sett í svipaðan búning og Sprengisandurinn árið áður. Björgvin og Ómar sömdu flest laganna en Ágúst Guðmundsson var meðal textahöfunda.

Um það leyti sem stóra platan var að koma út kom í ljós að hinir erlendu himnasmiðir vildu Pétur söngvara úr sveitinni, hann væri dragbítur hennar og sveitin ætti sér ekki vonir um heimsfrægð nema hann hætti í sveitinni. Svo fór því að Pétur var rekinn úr sveitinni, sem hann hafði sjálfur stofnað. Lítið varð þó um heimsfrægð í kjölfarið, þegar fréttin barst út hér heima fékk Pétur alla samúð tónlistaráhugafólks og platan seldist lítið. Platan hlaut þó ágætar viðtökur gagnrýnenda og fékk hún góða dóma í áðurnefndri bók Jens Guðmundssonar, Poppbókinni.

Pelican

Pelican með Herbert Guðmundsson sem söngvara

Í kjölfar brottreksturs Péturs var Herbert Guðmundsson ráðinn söngvari en hann hafði þá verið í hljómsveitinni Stofnþel, hálfgerð upplausn ríkti nú í Pelican enda voru menn farnir að gera sér grein fyrir að brottreksturinn hefði ekki hjálpað til við neitt. Herbert staldraði ekki lengi við í sveitinni og þegar Pétur stofnaði nýja sveit, Paradís, gengu þeir Björgvin gítarleikari og Ásgeir trommuleikari til liðs við hann. Einnig ku Hlöðver Smári Haraldsson hljómborðsleikari hafa verið í sveitinni á einhverjum tímapunkti, hvenær er þó ekki ljóst.

Einhverjar tilraunir voru gerðar til að halda starfseminni áfram og var Pelican ennþá starfandi 1976 en þá hafðist sveitin við í Danmörku, þeir félagar úr upprunalegu sveitinni, Jón Ólafsson bassaleikari og Ómar Óskarsson gítarleikari og söngvari, starfræktu þá sveitina undir nafninu Pelikan (með k-i) og stundum Danska Pelican en einnig voru Júlíus Agnarsson gítarleikari, Ólafur Sigurðsson trommuleikari, Sören Larsen [?] og Magnús Magnússon slagverksleikari í henni þá. Þannig skipuð kom Pelikan hingað til lands í stutta heimsókn.

Pelikan mun hafa tekið upp tveggja laga smáskífu (sem sveitin var búin að gera samning við Polydor um útgáfu ásamt breiðskífu) og kom hún út árið 1976, ekki varð þó framhald á útgáfunni því sveitin hætti um svipað leyti eftir dramatísk átök umboðsmanns þeirra við útgáfufyrirtækið.

Sögu sveitarinnar var þó ekki að fullu lokið því löngu síðar veturinn 1987-88 kom hún fram í nokkur skipti með upprunalegum meðlimum. 1993 var hún síðan endurreist  með það að markmiði að fara sveitaballarúntinn um sumarið í kjölfar plötu. Sveitin var þá skipuð þeim Pétri, Björgvini, Jóni og Ásgeiri, auk Guðmundar Jónssonar sem þá hafði getið sér gott orð sem lagahöfundur og gítarleikari í Sálinni hans Jóns míns.

Platan sem hlaut nafnið Pelican, hlaut þokkalega athygli útvarpsstöðva og nutu lögin Í vígahug (sem kom reyndar eingöngu út á safnplötunni Grimm dúndur), Ástin er og Tjáðu mér nokkurra vinsælda. Hún hlaut þó fremur slaka dóma, t.d. í tímaritinu Vikunni og eitthvað voru ballgestir tregir við að láta sjá sig, allavega var þeirri hringferð slaufað á miðju sumri og sveitin lognaðist útaf á nýjan leik. Hún kom þó eitthvað saman 2001 en þar með er saga sveitarinnar öll.

Pelican hefur átt lög á safnplötum í gegnum tíðina enda sendi sveitin frá sér nokkur lög sem hafa orðið sígild s.s. Jenny darling. Lög með sveitinni má m.a. finna á safnplötunum Aldrei til fortíðar 70-80 II, Íslensk poppsaga: úrval af því besta 1972-1977, Óskalögin 4 og Grimm dúndur. Einnig er að finna lög með sveitinni á safnplötu sem tileinkuð var Pétri Kristjánssyni 2008, Algjör sjúkheit.

Efni á plötum