Ómar Óskarsson (1953-)

Ómar Óskarsson

Nafn Ómars Óskarssonar var nokkuð þekkt á áttunda áratug liðinnar aldar en hann var þá aðal lagasmiður hljómsveitarinnar Pelican og átti stórsmelli sem enn heyrast í útvarpi og víðar. Ómar sendi frá sér sólóplötur síðar en hefur lítið haft sig í frammi í tónlistinni undanfarin ár.

(Bergsteinn) Ómar fæddist 1953 og skaut fyrst upp kollinum  sem gítarleikari hljómsveitarinnar Sókrates árið 1968 en sú sveit einskorðaði sig við blústónlist, hann var þá fimmtán ára gamall.

Næst spilaði Ómar með hljómsveitinni Dýpt og lék m.a. með þeirri sveit á Saltstokk útihátíðinni um hvítasunnuhelgina 1971, hann kom einnig lítillega við sögu hljómsveitarinnar Pops og lék t.d. á tveggja laga plötu sem sveitin lék inn á ásamt leikaranum Flosa Ólafssyni lögin Það er svo geggjað að geta hneggjað / Ó ljúfa líf.

Næsta sveit hét Örlög en 1972 var komið að hljómsveitinni Icecross en þar spilaði Ómar á bassa. Icecross starfaði mestan sinn tíma í Danmörku og gaf út plötu sem síðar varð eftirsótt meðal safnara. Sveitin varð ríflega árs gömul en hætti þá og þeir Ómar og Ásgeir Óskarsson trommuleikari sem hafði verið með honum í henni gengu til liðs við hljómsveitina Ástarkveðju. Sú sveit varð skammlíf og sumarið 1973 voru tvímenningarnir meðal stofnenda Pelican sem átti eftir að njóta mikilla vinsælda.

Pelican stefndi allan tímann á erlendan markað og allt virtist ætla að ganga sveitinni í haginn þegar þeir félagar ráku Pétur Kristjánsson söngvara og í kjölfarið snerist lukkan gegn henni og vinsældir hennar hröpuðu hér heima. Þeir héldu þó sveitinni til streitu og störfuðu um tíma í Kaupmannahöfn.

Ómar með Pelican

Á fyrri Pelican árunum byrjaði Ómar að vinna eigið efni með það fyrir augum að gefa út sólóplötu en það efni var töluvert ólíkt því sem hljómsveitin var að vinna með. Hann naut aðstoðar söngvaranna Péturs Kristjánssonar og Herberts Guðmundssonar (sem tók við af Pétri þegar hann var rekinn) auk Ásgeirs Óskarssonar úr Pelican við upptökur sem fóru fram í London haustið 1974 undir stjórn Jakobs F. Magnússonar en einnig komu félagar úr hljómsveitinni Change við sögu við gerð plötunnar, þeir voru þá starfandi í Bretlandi. Björgvin Halldórsson og Gunnlaugur Melsteð (söngvari Hauka) sungu einnig á plötunni og þess má geta að söngkonan Liza Strike söng í einu lagi hennar en hún söng um svipað leyti bakraddir á plötu Pink Floyd, Dark side of the moon.

Plata Ómars gekk undir vinnuheitinu Boy and a fish (eftir einu laganna) en hlaut að lokum titilinn Middle class man og kom út fyrir jólin 1974 á vegum ÁÁ records Ámunda Ámundasonar. Platan hlaut ágætar viðtökur og fékk ágæta dóma í Vísi og Morgunblaðinu, hún seldist þó fremur rólega.

Ómar var aðal lagahöfundur Pelican og var því þarna í raun í beinni samkeppni við sjálfan sig því vinsælasta plata Pelican, Uppteknir, kom einnig út þarna um haustið og í ársuppgjöri Vikunnar var hann langhæstur í vinsældakosningu á lagahöfundi ársins á Íslandi. Smáskífa með Pelican (með lögum eftir Ómar) var jafnfram kjörin smáskífa ársins í sömu kosningu. Og Ómar kom enn víðar við þetta ár (1974) því hann lék á gítar á plötu hljómsveitarinnar Andrew, Woops.

Ómar starfaði með Pelican til ársins 1977 og á þeim tíma komu út tvær breiðskífur með sveitinni, auk þriggja smáskífa. Hann varð sem fyrr segir aðal lagahöfundur sveitarinnar og samdi t.a.m. lögin Jenny darling og My glasses sem nutu mikilla vinsælda, ennfremur samdi Ómar lagið Sunrise to sunset en margir kannast við það sem upphafslag Guðna Más Henningssonar á næturvakt Rásar tvö.

Á þeim tíma sem Pelican starfaði í Kaupmannahöfn (1976-77) gerði sveitin útgáfusamning við Polydor og þá stóð einnig til að sólóplata Ómars, Middle class man, kæmi út á Norðurlöndunum en úr þeim fyrirætlunum varð ekkert þegar Polydor rifti samningnum við Pelican. Ómar sendi frá sér tvö lög á safnplötunni Í kreppu, sem kom út 1976 og einnig átti hann lag á plötu Hauka, Fyrst á röngunni… sem kom út sama ár.

Ómar um það leyti sem Rækjukokkteill kom út

Eftir að hin „danska“ Pelican lagði upp laupana haustið 1977 fór lítið fyrir Ómari næstu árin. Hann kom hingað heim til Íslands og fluttist vestur á firði, bjó og starfaði á Ísafirði þar sem hann söng m.a. með Grafík en einnig á Bíldudal um tíma. Þar söng hann í kirkjukórnum og starfaði í hljómsveitinni Rokkkvörninni en var einnig í því að fá þekkta tónlistarmenn eins og Megas og Bubba Morthens til að troða upp þar vestra. Hann samdi einnig söngleik ásamt Hafliða Magnússyni, sem settur var á fjalirnar á Bíldudal 1986. Ómar hafði þó gefið sér tíma til að rifja upp gömlu dagana með Pelican þegar sveitin kom saman á fimmtíu ára afmælishátíð FÍH árið 1982.

Ómar birtist þó heldur óvænt á sjónarsviðinu vorið 1988 þegar hann gaf út plötuna Rækjukokkteill, ellefu laga plötu með eigin lög en flestir textanna voru eftir áðurnefndan Hafliða á Bíldudal. Fyrrum félagar hans úr Pelican, Ásgeir Óskarsson trommuleikari og Jón Ólafsson bassaleikari voru í stórum hlutverkum á plötunni en sjálfur annaðist Ómar allan söng. Upptökur fóru fram í hljóðverinu Stöðinni, sem fyrrum félagi hans úr Icecross, Axel Einarsson, rak.

Rækjukokkteillinn, sem innihélt eingöngu texta á íslensku ólíkt fyrri plötu Ómars, hlaut ágæta dóma í DV og Morgunblaðinu en seldist afar illa og það lagðist þungt á hann. Ómar ætlaði sér strax  að fara að vinna að nýrri plötu en þau plön runnu út í sandinn og hann dró sig í hlé næstu árin. Hann var t.d. ekki með í endurreisn Pelican sumarið 1993 en sendi hins vegar frá sér skáldsögu tveim árum síðar.

Ómar lét sig hins vegar kristilegt starf varða og varð virkur þar í Samhjálp, starfaði þar með lofgjörðarbandi en lítið fór fyrir honum að öðru leyti tónlistarlega.

Það var ekki fyrr en eftir aldamót sem Ómar birtist aftur opinberlega í íslensku tónlistarlífi, árið 2001 með Pelican sem þá var með enn eitt kombakkið en sama ár kom hann að breiðskífu Kiðlinganna sem var krakkasveit sem í voru tveir sona hans. Kiðlingarnir höfðu í raun verið starfandi frá 1999 og var Ómar þar allt í öllu, hann fylgdi þeim síðan í tónleikaferð um Norðurlöndin þar sem þau komu fram í ríkissjónvarpsmiðlum Danmerkur og Noregs.

Ómar sendi síðan frá sér sína þriðju breiðskífu árið 2006, Adúllam en hún hafði að geyma tólf lög með kristilegum boðskap. Litlar upplýsingar er að finna um þá plötu og svo virðist sem hún hafi fengið litla sem enga umfjöllun í fjölmiðlum. Allur ágóði af sölu plötunnar rann til kristilegs málefnis.

Efni á plötum