Afmælisbörn 3. janúar 2019

Vilhelm Anton Jónsson

Afmælisbörnin eru þrjú á skrá Glatkistunnar í dag:

Sölvi (Haraldsson) Blöndal fyrrum Quarashi-liði á fjörutíu og fjögurra ára afmæli í dag. Sölvi hafði verið í ýmsum sveitum áður en hann gerði það gott með Quarashi, s.s. Púff, SSSpan, Júpiters og Stjörnukisa svo dæmi séu tekin en hefur einnig starfrækt dúettinn Halleluwah, auk annarra verkefna. Hann hefur ennfremur fengist við útsetningar og upptökustjórn.

Vilhelm Anton Jónsson eða bara Villi naglbítur, á einnig afmæli en hann er fjörutíu og eins árs gamall í dag. Villi var lengi þekktastur sem söngvari hljómsveitarinnar 200.000 naglbíta en hann hefur einnig gefið út sólóefni. Hann hefur í seinni tíð fengist við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi, leikið í kvikmyndunum um Sveppa og Villa, og gefið út vísindabækur fyrir börn.

Þá á Bergsteinn Ómar Óskarsson sextíu og sex ára afmæli á þessum degi. Ómar starfaði með fjölda hljómsveita á áttunda áratugum og voru Icecross og Pelican þeirra þekktastar, hann samdi mörg þekkt lög s.s. Jenny darling og My glasses sem bæði nutu feikilegra vinsælda. Þá liggja nokkrar sólóplötur einnig eftir Ómar, sú síðasta kom út árið 2006.