Paradís [1] (1975-77)

Paradís 1975

Fyrsta útgáfa Paradísar

Hljómsveitin Paradís var ein þeirra sveita sem Pétur W. Kristjánsson setti á laggirnar og bar nánast á herðum sér en hún var miðdepill mikillar dramatíkur sem átti sér stað í íslenskri poppsögu um miðjan áttunda áratug liðinnar aldar.

Forsaga Paradísar var sú að Pétur hafði verið í hljómsveitinni Pelican en sú sveit hafði stefnt á frægð utan landsteinanna og hafði raunar unnið að því um tíma þegar Pétur var óvænt rekinn úr henni. Pétur hafði sjálfur stofnað Pelican, verið heili hennar og andlit en þegar erlendir umboðsmenn og forsvarsmenn bandarísks útgáfufyrirtækis gerðu öðrum meðlimum sveitarinnar ljóst að Pétur væri dragbítur hennar, væri ekki nógu góður söngvari, ráku þeir hann. Það var um miðjan maí 1975.

Pétur gafst ekki upp og stofnaði þegar nýja sveit af því er margir vilja meina, til höfuðs Pelican en það var líklega aldrei ætlun hans að knésetja þá sveit heldur fremur að sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að hann gæti sungið. Í nýju sveitinni voru auk Péturs þeir Gunnar Hermannsson bassaleikari, Ragnar Sigurðsson gítarleikari, Ólafur Júlíusson Kolbeins trommuleikari og alnafni Péturs, Pétur „kafteinn“ Kristjánsson hljómborðsleikari.

Paradís í lok árs 1975

Paradís í árslok 1975

Nýja sveitin hlaut nafnið Paradís og hún kom fyrst fram opinberlega 20. júní 1975, rúmum mánuði eftir að Pétur var rekinn úr Pelican.

Það sem Pelican-liðar höfðu ekki áttað sig á var að Pétur hafði sem frontmaður sveitarinnar verið ástæðan fyrir vinsældum hennar og þegar hann var farinn á braut hrundu vinsældir hennar á skömmum tíma, reyndar svo að hún bar aldrei sitt barr síðan og hætti að lokum eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til endurreisna vinsælda.

Paradís gekk hins vegar allt í haginn allt frá fyrsta degi og var það sjálfsagt persónuvinsældum Péturs ekki hvað síst að þakka. Sveitin sló strax í gegn á sveitaböllum um sumarið þar sem Pétur bókaði sveitina en hann hafði einnig annast umboðsmennsku Pelicans.

Aðeins um þremur vikum eftir að Paradís kom fyrst fram opinberlega fóru meðlimir hennar í Hljóðrita í Hafnarfirði og tóku upp tvö lög, Just half of you eftir Pétur hljómborðsleikara og erlent lag, Superman.

Þegar smáskífan kom út síðsumars sló hún í gegn og styrkti stöðu Paradísar sem helstu ballsveitar sumarsins, poppskríbentar Morgunblaðsins, Þjóðviljans og Tímans voru nokkuð samstíga og gáfu henni góða dóma. Lögin tvö komu einnig út á safnplötunni Peanuts um sumarið.

Margt dreif á daga Paradísar þetta sumar, hún lék meðal annars á Kjarvalsstöðum fyrst poppsveita en myndlistamaðurinn Tarnús (Grétar Magnús Guðmundsson) málaði málverk á meðan sveitin lék undir. Einnig stóð Paradís fyrir útitónleikum á Akureyri svo fleiri dæmi séu nefnd.

Paradís 3

Paradís

Annar hljómborðsleikari, Pétur Hjaltested gekk til liðs við sveitina um sveitina en hann hafði leikið sem gestur á smáskífunni. Pétrarnir í Paradís voru þar með orðnir þrír.

Smáskífan seldist fljótlega upp og annað upplag var pantað, þegar upp var staðið hafði hún selst í um fjögur þúsund eintökum og menn hugsuðu stórt. Ámundi Ámundason var ráðinn umboðsmaður sveitarinnar og þeir félagar fóru til Bretlands um haustið og fjárfestu í ljósabúnaði og öðrum græjum til að gera böll og tónleika sveitarinnar sem veigamesta.

Í lok árs 1975 byrjuðu þær mannabreytingar sem síðan áttu eftir að verða einkenni Paradísar. Þegar hefur verið sagt frá því að Pétur Hjaltested gekk til liðs við sveitina en ágreiningur milli hans og Ragnars gítarleikara varð til þess að sá síðarnefndi hætti og með honum Ólafur trommuleikari. Í þeirra stað komu fyrrum Pelican-liðarnir (en sú sveit var nú ekki svipur hjá sjón) Ásgeir Óskarsson trommuleikari og Björgvin Gíslason gítarleikari.

Poppuppgjör fjölmiðlanna fyrir árið 1975 var mestmegnis á sama veg, Pétur söngvari var kjörinn poppstjarna ársins hjá Dagblaðinu og einnig Vísi en Paradís var ennfremur kjörin besta sveit ársins hjá Vísi og vinsældasta sveit ársins í uppgjöri Vikunnar, og sveitin var því klárlega sú vinsælasta á landinu 1975.

Paradís var nú orðin skipuð nokkrum margreyndum lagasmiðum og því hófst undirbúningur fyrir plötuútgáfu. Pétur „kafteinn“ hljómborðsleikari hætti reyndar í sveitinni um vorið 1976 og tók Vopnfirðingurinn Nikulás Róbertsson sæti hans, það breytti engu um fyrirætlanir um plötuútgáfu og skömmu síðar fóru þeir Paradísar-liðar til Bournemouth á Englandi til að taka upp tíu laga plötuna Paradís, undir stjórn Jonathan Rowlands. Vinnuheiti plötunnar var Tarzan og lengi stóð til að það yrði titill hennar.

Paradís4

Paradís á bakhlið breiðskífunnar

Plötuna gáfu þeir út sjálfir og hún kom út síðsumars 1976 undir PAR-merkinu, reyndar eins og smáskífuna en þá höfðu samningar ekki tekist við plötuútgáfurnar Fálkann, Geimstein og Hljóma sem allar höfðu haft hug á verkefninu.

Þrátt fyrir vinsældir Paradísar gekk platan ekkert sérlega vel, hún seldist fremur illa og gagnrýnendur fjölmiðlanna urðu ekki eins hrifnir og af smáskífunni, platan fékk reyndar þokkalega dóma í Dagblaðinu en varla nema sæmilega í Tímanum, Jens Kr. Guðmundsson gaf henni ennfremur slaka dóma í Poppbók sinni. Lagið Rabbits naut þó mikilla vinsælda og er í dag þekktasta afurð sveitarinnar ásamt lögunum Superman og Tarzan.

Skömmu eftir að breiðskífan kom út hætti Gunnar bassaleikari í Paradís og þar með var Pétur söngvari orðinn einn eftir af upprunalegu útgáfu sveitarinnar. Sæti Gunnars tók Jóhann Þórisson.

Við áramót fór sveitin mikinn í uppgjöri ársins hjá Dagblaðinu, hún var þar í öðru sæti í flokkunum hljómsveit ársins og sviðsframkoma ársins, auk þess sem Ásgeir var kjörinn trommari ársins og Björgvin gítarleikari ársins.

Og árið 1977 byrjaði með nokkuð öflugum hætti en þá lék sveitin undir hjá Einari Vilberg í sjónvarpsþættinum Rokkveita ríkisins.

Stórfréttir bárust hins vegar í febrúar þegar þeir Ásgeir trommuleikari og Pétur hljómborðsleikari hættu skyndilega og gengu til liðs við Eik. Paradísar-liðar brugðust skjótt við og réðu Rúnar Þórisson bróður Jóhanns, sem gítarleikara. Björgvin gítarleikari bætti þá hljómborðinu við sig og var þá kominn í sömu stöðu og hann hafði gegnt í Pelican. Tvær vikur liðu áður en Ragnar Sigurjónsson trymbill kom inn í sveitina en ferill hans með Paradís var þó afar stuttur því daginn eftir fékk hann bakþanka og hætti, enn liðu fáeinir dagar og þá bárust fregnir um að Hrólfur Gunnarsson væri orðinn trommuleikari sveitarinnar.

Paradís 1977

Paradís 1977

Þarna var löngu orðið ljóst að komið væri að leiðarlokum og þrátt fyrir að plön væru um að fara til Danmerkur og Færeyja til tónleikahalds, komu fréttir í fjölmiðlum um andlát Paradísar um miðjan mars-mánuð. Þá höfðu þrettán manns farið í gegnum sveitina á þeim tæplega tveimur árum sem sveitin starfaði. Pétur W. Kristjánsson var sá eini sem var allan tímann í henni.

Pétur var þó ekki af baki dottinn frekar en fyrri daginn og örfáir dagar liðu áður en hann stofnaði ásamt fleirum hljómsveitina Póker, enn eina sveitina sem byrjaði á P-i.

Lög Paradísar hafa komið út á ýmsum safnplötum í gegnum tíðina, þ.á.m. má nefna Aftur til fortíðar 70-80 III (1990), Íslensk poppsaga (1996), Skonrokk (2003), Svona var 1975 (2008), 100 íslensk 70‘s lög (2009) og Óskalögin 4 (2000), auk þess sem nokkur lög með sveitinni má heyra á safnplötunni Algjör sjúkheit (2008) en hún var gefin út til minningar um Pétur W. Kristjánsson (1951-2004).

Efni á plötum