Panorama (1996-98)

Hljómsveitin Panorama starfaði á höfuðborgarsvæðinu um þriggja ára skeið rétt fyrir aldamótin síðustu.

Panorama

Panorama

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær Panorama var stofnuð en hún vakti fyrst athygli þegar hún keppti í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1996. Meðlimir sveitarinnar voru þá Birgir Hilmarsson söngvari og gítarleikari, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari og Nói Steinn Einarsson trommuleikari. Sveitin hafði ekki erindi sem erfiði í Músíktilraunum þrátt fyrir ágæt tilþrif og dóma, og komst ekki áfram í úrslit keppninnar.

Tríóið sem skilgreindi tónlist sína sem hrátt nýbylgjurokk lét árangurinn í tilraununum ekki stöðva sig og lék víða á höfuðborgarsvæðinu um sumarið 1996 og síðan áfram.

1997 keppti Panorama í annarri hljómsveitakeppni en það var Rokkstokk keppnin í Keflavík sem þá var haldin í fyrsta sinn. Panorama varð ekki meðal efstu sveita í keppninni en fékk nú lag út gefið á safnplötunni Rokkstokk 97 sem gefin var út í kjölfarið.

Sveitin hélt áfram að leika á tónleikum en minna fór þó fyrir henni 1998 en þá var Birgir farinn að starfrækja aðra hljómsveit, Ampop, sem tók nokkuð af tíma hans. Þá um sumarið komu þó út tvö lög með sveitinni á safnplötunni Flugan #1.

Svo fór að lokum að Panorama var lögð niður 1998 en endurreist ári síðar með sama mannskap undir nafninu Sinn fein. Sú sveit hafnaði meðal efstu sveita í Músíktilraunum.