Svanfríður (1972-73)

Svanfríður2

Svanfríður

Hljómsveitin Svanfríður er að líkindum ein þekktasta íslenska prog-rokkssveitin en minning hennar hefur haldist enn fremur á lofti vegna þess hve eftirsótt þeirra eina breiðskífa er af plötusöfnurum.

Sveitin var stofnuð snemma árs 1972 af þeim Pétri Kristjánssyni söngvara, Gunnari Hermannssyni bassaleikara, Birgi Hrafnssyni gítarleikara og Sigurði Karlssyni trommuleikara. Tveir síðast töldu komu úr hljómsveitinni Ævintýri sem hafði notið mikilla vinsælda nokkru áður.

Nafn hljómsveitarinnar má rekja til stúlku sem starfaði á skemmtistaðnum Glaumbæ en hann hafði verið vinsælasti staðurinn í bænum um árabil áður en hann brann síðla árs 1971, fáeinum vikum áður en sveitin var stofnuð.

Svanfríður byrjaði á að fara til Færeyja og spilaði sig saman þar í nokkra daga áður en Íslendingar fengu að heyra til hennar. Í kjölfarið hófst óslitin spilamennska til síðsumars þegar Svanfríður hélt til Lundúna til plötuupptekna. Sagan segir að sveitin hafi spilað 265 sinnum á árinu 1972. Í London var Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) þeim til halds og trausts en hann þótti (og þykir) fjölhæfur á hvers kyns tegundir hljóðfæra.

Platan var unnin á mettíma (á um fjörtíu hljóðverstímum) og var tekin upp af Roger Wilkinson, hún kom út um haustið og hlaut nafnið What‘s hidden there? en platan var gefin út af sveitinni sjálfri undir útgáfunafninu Svan. Hún hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og frábæra í Tímanum en fleiri dómar birtust ekki um hana, nokkrum árum síðar fjallaði Jens Kr. Guðmundsson um hana í Poppbókinni og hlaut hún ágæta dóma þar.

Svanfríður hélt áfram að spila sitt prog-rokk sem þætti venjulega ekki vænlegt til árangurs ef menn ætluðu að spila á sveitaböllum, sveitin var þó vinsæl og spilaði áfram mikið veturinn 1972-73, einnig aftur í Færeyjum.

Um sumarið 1973 dró þó til tíðinda og þá bárust þær óvæntu fréttir að sveitin væri hætt störfum, reyndar höfðu verið þreifingar um stofnun nýrrar hljómsveitar og um svipað leyti og opinberlegt dánarvottorð var gefið út var ný sveit kynnt til sögunnar, Pelican.

Svanfríður 1972

Svanfríður 1972

Áður en sveitin hætti hafði hún þó leikið inn á tvær tveggja laga plötur, annars vegar undir söng Óðins Valdimarssonar sem söng m.a. lagið Á Akureyri og gerði vinsælt. Hins vegar kom út um haustið tveggja laga plata með Svanfríði þar sem róið var á allt önnur mið, lög Siglfirðingsins Gylfa Ægissonar, Jibbý jey og Kalli kvennagull sem voru gamaldags og algjörlega á skjön við fyrra efni sveitarinnar. Einhvers staðar segir að fyrrnefnda lagið sé fyrsta lagið sem Gylfi samdi.

Platan hafði verið tekin upp í Klúbbnum og þóttu hljómgæði hennar afar slök en hlaut þó þokkalega gagnrýni í Morgunblaðinu og mjög góða í Alþýðublaðinu, tónlistarskríbent Vísis var hins vegar alls óhrifinn og gaf henni mjög slaka dóma.

Þrátt fyrir að breiðskífan What´s hidden there? hefði fengið ágætis móttökur fjaraði einhvern veginn undan henni, það má raunar segja að það hafi verið Svanfríði til happs því eintök af henni urðu sífellt sjaldgæfari og svo fór að lokum að hún varð eftirsótt meðal plötusafnara um heim allan. Fyrir vikið er nafn sveitarinnar enn þekkt sem ella væri ekki. Þegar Hi-note útgáfan gaf hana út 1995 (ólöglega) var talað um að safnarar gæfu þá um 70.000 krónur fyrir eintak af upprunalegu vínylútgáfunni, sú tala hefur bara hækkað síðan. Vegna þessa hefur nafn Svanfríðar haldist nokkuð á lofti áratugum síðar. Platan var endurútgefin á löglegan hátt 2010.

Sveitin var ennfremur endurlífguð snemma árs 2012 og hélt þá fjörtíu ára afmælistónleika, allir fyrri meðlimir sveitarinnar utan Pétur Kristjánsson (d. 2004) en hans hlutverk sungu Eiríkur Hauksson, Elvar Örn Friðriksson og Pétur Örn Guðmundsson. Við það tækifæri var platan endurútgefin á Tónlist.is og hlaut hún mjög góða dóma í Fréttatímanum.

Efni á plötum