Dúmbó sextett (1960-69 / 1977-78)

Dúmbó

Dúmbó og Steini

Saga hljómsveitarinnar Dúmbó er bæði margslungin og flókin, spannar langan tíma og inniheldur fjölmargar mannabreytingar – svo mjög að ekki er víst að þessi umfjöllun nái utan um þær allar. Sögu sveitarinnar er reyndar líklega enn ekki lokið því hún kemur reglulega saman og leikur opinberlega.

Hljómsveitin Dúmbó (Dumbo/Dumbó) var stofnuð í Gagnfræðaskóla Akraness vorið 1960, sumar heimildir segja tveimur árum síðar en þá er miðað við miklar mannabreytingar sem þá urðu á hljómsveitinni og fyrsta „opinbera“ ball sveitarinnar sem haldið var í Borgarnesi. Nafn sveitarinnar var sótt í teiknimyndina um fílinn Dúmbó úr smiðju Walt Disney.

Dúmbó var stofnuð með það að markmiði að leika á skólaböllum í skólanum og þar var vígi sveitarinnar fyrst um sinn, fyrsta útgáfa sveitarinnar var tríó sem í voru Arnmundur Sævar Backman, Friðrik Guðni Þórleifsson og Gísli Sveinbjörn Einarssonar (síðar alþingismaður og bæjarstjóri á Akranesi). Arnmundur og Friðrik Guðni áttu eftir að starfa saman síðar í tónlist, s.s. í Busabandinu í MA, söngtríóinu Þremur háum tónum og Eddukórnum. Ekki liggur fyrir hvernig hljóðfæraskipanin var hjá þeim utan þess að Gísli lék á gítar, líklega Friðrik Guðni bæði á píanó og harmonikku. Söngvararnir Sigríður Benediktsdóttir, Kristinn Dulaney og Ólöf Gunnarsdóttir komu fram með sveitinni í fyrsta sinn sem hún kom fram

Fljótlega urðu mannabreytingar á Dúmbó sem erfitt er að koma nákvæma mynd á, þeir Friðrik Guðni og Arnmundur héldu á brott í menntaskólanám enda voru þeir eldri en Gísli sem var áfram en nýir meðlimir bættust í hópinn, Sigurður Guðmundsson saxófónleikari, Trausti Finnsson píanóleikari og Gunnar Sigurðsson trommuleikari (sem einnig átti eftir að gegna starfi bæjarstjóra á Skaganum), hann hafði eitthvað leikið með sveitinni í upphafi. Þarna var Dúmbó orðin kvartett og söngkonan Ólöf (Lóa) Gunnarsdóttir hafði einnig bæst við að auki.

Enn bættist í hópinn, þeir Jón Trausti Hervarsson saxófónleikari og Leifur H. Magnússon bassaleikari (síðar hljóðfærasali) en sá síðarnefndi var blindur, svo virðist sem Gísli gítarleikari hafi þarna eingöngu leikið með sveitinni þegar hann var í landi en hann var þá kominn á sjó. Flest voru þau ennþá á gagnfræðaskólaaldri en Ólöf söngkona var þó örlítið eldri.

Dúmbó 1964

Dúmbó 1964

Og fleiri mannabreytingar urðu á Dúmbó 1962, Ólafur Bragi Theódórsson tók við söngnum af Ólöfu og Finnbogi Gunnlaugsson gítarleikari bættist í sveitina, einnig hætti Leifur bassaleikari og þá færði Trausti píanóleikari sig yfir á bassann í staðinn. Magni Steingrímsson píanóleikari var einnig eitthvað viðloðandi sveitina á þessum fyrstu árum.

Þegar hér var komið sögu höfðu þrettán manns farið í gegnum Dúmbó og enn áttu eftir að verða breytingar á sveitinni, haustið 1963 kom Ásgeir Rafn Guðmundsson inn sem píanóleikari og var hann síðar titlaður hljómsveitarstjóri en Gunnar trommuleikari hafði til þess tíma gegnt því hlutverkið. Einnig kom nýr söngvari í stað Ólafs, Sigursteinn (Haraldur) Hákonarson eða Steini eins og hann var kallaður. Gunnar Ólafsson hafði leikið á píanó með sveitinni um sumarið þar til Ásgeir tók við þeim starfa. Upp frá þessu var sveitin kölluð Dúmbó sextett eða Dúmbó og Steini en var reyndar í örfá skipti auglýst undir nafninu Hljómsveit Ásgeirs Guðmundssonar.

Þegar þeir Sigursteinn og Ásgeir höfðu bæst í Dúmbó má segja að sveitin hafi verið farin að taka þetta alvarlegar en áður, þá voru þeir farnir að spila víðar en á heimaslóðum. Sigurður saxófónleikari hætti í sveitinni einhvern tímann um veturinn 1963-64 og kom Reynir Gunnarsson í Dúmbó í hans stað og á svipuðum tíma kom Ragnar Sigurjónsson inn á trommurnar í stað Gunnars. Þá má segja að Dúmbó og Steini hafi þarna loks fengið á sig þá mynd sem hún átti eftir að starfa hvað lengst undir. Þess má geta að Reynir var bróðir Ólafar fyrstu söngkonu sveitarinnar.

Dúmbó og Steini

Dúmbó

Árið 1964 spiluðu Dúmbó og Steini fyrst í Reykjavík. Sveitin þótti alltaf svolítið sér á báti í tónlistarvali og átti sér raunverulega rætur í „gamla“ rokkinu, ballprógramm hennar var blanda af því og tónlist fyrir yngri kynslóðirnar, og hins vegar gömlu dansa tónlist fyrir eldra fólkið. Karl J. Sighvatsson lék að minnsta kosti einu sinni með Dúmbó á þessum tíma en hann var þá einungis þrettán ára gamall, hann átti síðar eftir að skapa sér nafn sem einn fremsti hljómborðsleikari íslenskrar popp- og rokktónlistar.

Nafn sveitarinnar, Dúmbó sextett og Steini varð ennfremur gamaldags þegar tónlistarumhverfið gjörbreyttist með komu The Beatles og annarra viðlíka sveita. Jafnaldrar Skagamannanna hófu að safna hári og á næstu árum varð vinsældartónlistin sýrðari með hverju árinu, þeir Dúmbó liðar létu slíkt ekki hafa áhrif á sitt og héldu í sína snyrtilegu hljómsveitarbúninga með stutt hárið og tvo málmblásara. Fyrir vikið gekk sveitin gjarnan undir viðurnefninu „lúðrasveitin“ en það var þó alls ekki í neikvæðri merkingu og lék hún gjarnan fyrir fullu húsi í Glaumbæ mestallan sjöunda áratuginn. Dúmbó lék einnig um tíma á Hótel Sögu en þegar sveitinni bauðst að gera tveggja ára samning við hótelið hafnaði hún því, það hefði líka þýtt að þeir hefðu þurft að breyta um nafn á sveitinni.

Dúmbó spilaði nú orðið víða um land, bæði á heimaslóðum og höfuðborgarsvæðinu sem landsbyggðinni, hún var því orðið vel kynnt og þegar bítlasveitin Herman‘s Hermits kom hingað til lands haustið 1965 hitaði Dúmbó upp fyrir þá ásamt fleirum.

Eins og hjá mörgum ballsveitum koma upp ýmsar skemmtilegar aðstæður og sögur, sagan segir að einu sinni hafi stúlka undir lögaldri reynt að komast inn á ball með sveitinni og þegar hún gat ekki framvísað skilríkjum sagðist hún vera á föstu með einum af meðlimum sveitarinnar, „Hverjum?“ spurði dyravörðurinn, „Dúmbó“ svaraði stelpan þá.

Dúmbó lék nokkrum sinnum í útvarpi á þessum árum og var einnig fyrsta popphljómsveitin til að leika í Sjónvarpinu, sem tók til starfa 1966.

Snemma árs 1967 hélt hljómsveitin til London til að taka upp nokkur lög en Jón Lýðsson (síðar Jón Karlsson) hafði kostað þá ferð undir merkjum UF-útgáfunnar í því skyni að gefa út tvær fjögurra laga plötur. Lögin átta voru tekin upp á tveimur dögum og að öllu leyti unnin í Englandi og biðu menn spenntir eftir að plöturnar kæmu út enda voru aðstæður til hljómplötuupptaka bágar hér á landi og því hlyti útkoman að verða góð, meðlimir sveitarinnar voru líka jákvæðir þegar þeir komu heim.

Dúmbó 1968

Dúmbó sextettinn 1968

Einhver dráttur varð á að plöturnar kæmu út og sögusagnir um að UF-útgáfan hefði farið á hausinn urðu háværari, plata kom þó út um sumarið og hafði að geyma fjögur af þeim átta lögum sem tekin voru upp. Platan seldist gríðarlega vel frá fyrsta degi og öll tvö þúsund eintökin seldust upp á fáeinum dögum, platan hlaut líka ágætar viðtökur tónlistarskríbenta blaðanna, Vikunnar, Alþýðublaðsins og Tímans en hljóðupptökurnar þóttu afar slakar svo vægt sé til orða tekið, reyndar svo að mönnum hálf blöskraði.

Lagið Angelía naut mikilla vinsælda af plötunni og lifir reyndar enn, en það var samið af Theódóri Einarssyni föður Ólafs Theódórssonar fyrrum söngvara sveitarinnar.

Ljóst var að sögusagnirnar um endalok plötuútgáfunnar voru á rökum reistar og því kæmu hin lögin fjögur ekki út að óbreyttu, til stóð að SG-hljómplötur kæmi inn í útgáfuna en hvort það var gæðum upptakanna eða einhverju öðru um að kenna, þá kom hin platan aldrei út. Fjögur lög með Dúmbó og Steina tekin upp í janúar 1967 bíða því enn útgáfu.

Um haustið 1967 hætti Trausti bassaleikari í Dúmbó og annar Skagamaður, Brynjar Sigurðsson bassaleikari Sóna, tók sæti hans. Önnur breyting og öllu stærri kom í kjölfarið þegar söngvarinn Steini hætti í lok ársins, Finnbogi tók þá við söngnum um tíma.

Við þessar breytingar urðu nokkrar breytingar á tónlist Dúmbó, eftir örlitla pásu sneri sveitin aftur með nokkuð soulkenndara efni en hún hafði áður leikið og færðist þannig nær þeim straumum sem þá voru í gangi.

Söngvaramálin voru eitthvað óljós á tímabili og var sveitin án söngvara um stuttan tíma, ónafngreindur söngvari úr Stykkishólmi söng eitthvað með sveitinni áður en nýr söngvari tók við haustið 1968 en sá hét Guðmundur Haukur Jónsson og var þarna að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni. Hann átti síðar eftir að koma nokkuð við sögu í íslenskri tónlist með sólóefni og í hljómsveitum eins og Roof tops o.fl. Sveitin var nú iðulega auglýst sem Dúmbó sextett og Guðmundur Haukur.

Dúmbó 1977a

Dúmbó sextettinn og Steini 1977

Þrátt fyrir fréttir þess efnis að fjögurra laga plata væri á leiðinni frá Dúmbó sextettnum kom sú plata aldrei út, sveitin naut mikilla vinsælda og lék meðal annars þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga, Draumblóm þjóðhátíðarnætur, á Þjóðhátíð um sumarið 1969.

Það kom nokkuð á óvart þegar gefið var út að sveitin væri að hætta störfum, það varð síðan að veruleika um haustið 1969 en áður hafði sveitin tekið upp lag fyrir safnplötuna Pop festival ´70 sem þá var væntanleg. Sú plata kom reyndar ekki út fyrr en ári síðar en Dúmbó var þá þegar hætt. Framlag sveitarinnar á plötunni, lagið Þú gafst mér svo mikla gleði, hlaut ágæta gagnrýni í blöðum en eðlilega var því ekki fylgt eftir þar sem sveitin var hætt. Guðmundur Haukur söng annað lag á safnplötunni sem sólóefni, við undirleik erlendra hljóðfæraleikara.

Meðlimir Dúmbó fóru nú hver í sína áttina, aðallega þó á Akranesi. Einhverjir þeirra stofnuðu hljómsveitina Kútter Max og störfuðu einnig síðar í Rapsódíu, Guðmundur Haukur gekk til liðs við Roof tops en Ragnar trommuleikari fór hvað víðast, starfaði til að mynda í sveitum eins og Mánum, Brimkló og Mexíkó á næstu árum.

Árin liðu og Dúmbó sextettinn var nú flestum öðrum en Skagamönnum gleymdur enda hafði ein fjögurra laga plata frá ferlinum lítið að segja, Angelía lifði þó góðu lífi í hugum manna.

Sumarið 1977 bárust þó fréttir af því að sveitin væri í upptökum í Hljóðrita undir stjórn Ragnars Sigurjónssonar og hygði á spilamennsku í kjölfarið, hún hafði þá lítillega komið saman árið á undan. Sveitin var þá skipuð þeim sömu og höfðu verið í henni á hátindinum, þeim Finnboga Gunnlaugssyni gítarleikara, Reyni Gunnarssyni saxófónleikara, Brynjari Sigurðssyni bassaleikara, Ragnari Sigurjónssyni trommuleikara, Ásgeiri R. Guðmundssyni hljómborðsleikara, Jóni Trausta Hervarssyni saxófónleikara, Trausta Finnssyni hljómborðs- og bassaleikara og Sigursteini Hákonarsyni söngvara.

Platan kom út um haustið og bar nafn sveitarinnar en umslagið skartaði teiknaðri mynd af skemmtistaðnum Glaumbæ, vígi sveitarinnar frá því sveitin starfaði fyrrum. Eitt laga plötunnar, hið nostalgíska Glaumbær sem samnefnt var plötutitlinum, varð strax að stórsmelli reyndar eins og fleiri lög plötunnar s.s. Karlmannsgrey í konuleit, Hæ Lillý, Frækorn og flugur og Leið fjögur, en lögin voru blanda gamalla seventís smella með íslenskum textum og frumsaminna laga.

Dúmbó 1978a

Dúmbó á opnumynd í Vikunni 1978

Platan seldist gríðarlega vel (í um 10.000 eintökum) og fyrsta upplagið kláraðist á fyrsta degi en öfugt við viðtökur kaupenda hlaut hún samt fremur neikvæða dóma í fjölmiðlum, slaka í Þjóðviljanum og fremur slaka í Dagblaðinu, gagnrýnandi barnablaðsins Æskunnar gaf henni einn góða dóma. Dúmbó og Steini fylgdu plötunni eftir með spilamennsku um sumarið og haustið.

Sveitin varð þess heiðurs aðnjótandi að lagið Karlmannsgrey í konuleit kom út á þriggja laga plötu sem tímaritið Samúel gaf út með jólablaði sínum fyrir jólin 1977 en platan var í formi plastþynnu eins og stundum sást en var afar sjaldgæft hérlendis.

Eftir þessar frábæru móttökur aðdáenda þótti ekki annað við hæfi en að endurtaka leikinn árið eftir og um sumarið 1978 kom út önnur plata undir sömu forskrift, hún hlaut nafnið Dömufrí og var tekin upp í Hljóðrita eins og hin fyrri. Báðar breiðskífurnar voru gefnar út af Steinum.

Eins og með fyrri plötuna gáfu gagnrýnendur blaðanna henni fremur slaka dóma, til dæmis í Morgunblaðinu en hún fékk þokkalega dóma í Tímanum. Nokkur laganna nutu mikilla vinsælda, tvö reggískotin lög, Fiskisaga og Sumar er í sveit heyrðust mikið þetta sumar og heyrast ennþá einstöku sinnum sem og Halló apabróðir og Allir út en aðal smellur plötunnar varð hittarinn um 17. júní, sem eins og góðum jólalögum sæmir, heyrast kyrjuð á einum tímapunkti ár hvert. Allir Frónbúar þekkja „Hæ hó jibbí jei og jibbí jei – það er kominn sautjándi júní“ og hafa sungið það á þeim degi. Önnur hljómsveit af Vesturlandi, Upplyfting tók lagið síðar upp á sína arma en upprunalega útgáfan er á Dömufríi. Angelía, sem verið hafði á smáskífunni sem kom út 1967 og reyndar í annarri útgáfu á plötunni sem kom út 1977 hafði Vilhjálmur Vilhjálmsson tekið upp á sína arma á plötu frá árinu 1972 þannig að lög Dúmbó fóru víða.

Vinsældir Dúmbó-platnanna tveggja urðu til að fáeinum árum síðar voru þær gefnar út saman á snældu, þá voru vínylútgáfur þeirra orðnar illfáanlegar.

Dúmbó kórinn 17. júní

Dúmbó kórinn við upptökur á laginu 17. júní

Vinsældir Dúmbó og Steina voru svolítið í takt við þá krísu sem íslenskt tónlistarlíf glímdi við á þessum árum. Ríflega tíu árum fyrr hafði orðið mikil gróska og bylting í tónlistarlífinu og reyndar samfélaginu öllu með tilkomu bítla- og hippatónlistar, sýru- og þungarokkið varð til í framhaldinu en um miðjan áttunda áratuginn þynntist vinsældartónlistin með undantekningum auðvitað smám saman út í það sem kallað var kúlutyggjótónlist, froðu- og gleðipopp (síðar kallað skallapopp). Samhliða þessu komu diskóið og diskótekin til sögunnar og það var því ekkert undarlegt að fólk sem komið var yfir þrítugt sækti í að heyra gömlu tónlistina sína sem Dúmbó óneitanlega var að bjóða upp á á þessum tveimur plötum. Á sama tíma hafði Lúdó og Stefán verið endurvakin og gefið út tvær breiðskífur undir sömu formerkjum, enn eldri tónlist með íslenskum textum. Plötur sveitanna tveggja nutu því kannski eðlilega vinsælda á skjön við dóma tónlistarblaðamanna þess tíma.

Þegar Dúmbó og Steini höfðu fylgt plötuútgáfunni eilítið eftir var komið nóg að þeirra mati og sveitin hætti störfum. Hún hefur þó aldrei alveg hætt og síðustu áratugina hefur hún reglulega komið saman við hátíðleg tækifæri og leikið opinberlega, t.d. þegar haldið var upp á hálfrar aldar afmæli sveitarinnar 2013 en þau tímamót miðuðust við að sveitin breyttist úr kvartett í sextett og varð að „alvöru“ hljómsveit.

Eins og gera mátti ráð fyrir hafa lög Dúmbó sextettsins og Steina ratað á fjöldann allan af safnplötum í gegnum tíðina, hér eru nokkur dæmi: Svona var 1967, Villtar heimildir (1979), Skagamenn skora mörkin (2007), Aftur til fortíðar 70-80 I (1990), Óskalögin 6 (2002), Stjörnuplata I (1980), Strákarnir okkar (1998), Með lögum skal land byggja (1985) , Á rás um landið (1993), Endurfundir (1984), Gullkorn Jóhanns G. Jóhannssonar (2003), 100 íslensk 70´s lög (2009) og Í sumarsveiflu (1992).

Efni á plötum