Vinir Dóra (1989-)

Vinir Dóra

Blússveitin Vinir Dóra hefur starfað síðan í blúsvakningu þeirri sem varð hér á landi í kringum 1990. Sveitin hefur haldið hundruð tónleika í gegnum tíðina hér heima og erlendis, fengið til samstarfs við sig fjölda annarra tónlistarmanna og sent frá sér nokkrar plötur.

Hálfgildings tilviljun var þess valdandi að sveitin varð til en hún var sett saman í febrúar 1989 til að hita upp fyrir hljómsveit John Mayall, The Bluesbreakers sem hingað kom til lands til að leika á tónleikum á Hótel Íslandi. Meðlimir sveitarinnar í upphafi voru þau Andrea Gylfadóttir söngkona, Þorleifur Guðjónsson bassaleikari, Guðmundur Pétursson gítarleikari, Hjörtur Howser orgelleikari, Guðmundur Guðjónsson trommuleikari og Halldór Bragason (Dóri) gítarleikari og söngvari sem jafnframt var forsprakki hennar. Til stóð að Þorsteinn Magnússon yrði gítarleikari með Dóra en þegar hann forfallaðist var Guðmundur Pétursson fenginn í hans stað, hann var þá einungis sextán ára gamall.

Sveitin fékk glimrandi móttökur á tónleikunum með John Mayall og í kjölfarið var ákveðið að halda eina tónleika á Hótel Borg á skírdag þar sem sveitin myndi spila ein, en hætta að svo búnu. Tónleikarnir voru lítið auglýstir en öllum að óvörum var troðfullt út úr dyrum á Borginni svo færri komust að en vildu. Auðvitað var ekki hægt við svo búið að slíta samstarfinu svo Vinir Dóra héldu því einfaldlega áfram.

Heilmiklar breytingar urðu á sveitinni næstu misserin, Ásgeir Óskarsson tók við af Guðmundi og fleiri komu og fóru um lengri eða skemmri tíma, Hafsteinn Valgarðsson bassaleikari spilaði með sveitinni um tíma áður en Haraldur Þorsteinsson tók við keflinu en einnig má nefna Jens Hansson saxófónleikara sem lék með sveitinni um tíma. Fjölmargir gestir komu einnig fram með Vinum Dóra á upphafsárum hennar og má þeirra á meðal nefna Bobby Harrison söngvara, Steingrím E. Guðmundsson munnhörpuleikara, Björgvin Gíslason gítarleikara, Gunnar Erlingsson trommuleikari, Bubba Morthens söngvari og gítarleikari, Mike Pollock gítarleikara og söngvara, Pétur Tyrfingsson gítarleikara, Tryggva Hübner gítarleikara, Sigurð Sigurðsson munnhörpuleikara og Magnús Eiríksson gítarleikara svo einungis nokkur nöfn séu hér nefnd.

Vinir Dóra 1991

Fyrstu árin voru Vinir Dóra afar virkir enda var mikil blúsvakning í gangi á þeim tíma, KK-bandið og Tregasveitin voru þá komnar til sögunnar og Púlsinn við Vitastíg varð eins konar heimavöllur blússins í Reykjavík, sveitin lék þar oftsinnis við miklar vinsældir.

Árið 1990 sendu Vinir Dóra frá sér kassettu sem hét einfaldlega Lifandi blús og hafði einmitt að geyma lifandi blús frá Hótel Borg, bæði frá tónleikunum 1989 og einnig frá því um vorið 1990. Kassettan var gefin út í fremur litlu upplagi og er vandfundin í dag en hún hlaut góða dóma í Morgunblaðinu á sínum tíma.

Í febrúar 1991 urðu kaflaskil í sögu sveitarinnar en þá kom blúsarinn Chicago Beau í fyrsta sinn til landsins og komst í kynni við Halldór og hljómsveit hans, í framhaldinu hófst samstarf þeirra og í annað skiptið sem hann kom til Íslands (um vorið sama ár) hafði hann gítarleikarann Jimmy Dawkins með í för.

Platan Blue ice kom út snemma sumars 1991 í kjölfar samstarfs þeirra Vina Dóra, Chicago Beau og Jimmy Dawkins. Hún var tekin upp á Púlsinum og gefin út af Platonic records, útgáfufyrirtæki Hilmars Arnar Hilmarssonar. Blue ice fékk góða dóma í Tímanum en fleiri slíkir birtust ekki um plötuna. Þeir Chicago Beau og Jimmy Dawkins sungu megnið af lögunum en Andrea Gylfadóttir söng eitt þeirra en hún hafði verið ein af upphaflegu Vinum Dóra og átti eftir að koma fram með þeim af og til síðar.

Hluti sveitarinnar fór um svipað leyti á stóra árlega blúshátíð sem haldin var í Chicago m.a. til að kynna plötuna en Halldór átti eftir að heimsækja þá hátíð mun oftar. Þeir félagar komust í einhver sambönd ytra og einhverjar fréttir bárust af því að gerður hefði verið samningur um útgáfu plötunnar m.a. í Japan, þær fréttir voru reyndar ekki á rökum reistar en síðar átti hún eftir að vera endurútgefin.

Vinir Dóra voru nú orðnir velþekkt sveit hér á landi enda mikil blúsvakning í gangi og blústónleikar vel sóttir, sveitin kom á þessum árum margsinnis fram í fjölmiðlum, bæði útvarpi og sjónvarpi og kom fyrir að tónleikar hennar væru í beinni útsendingu útvarps.

Um haustið 1991 var Chicago Beau enn kominn aftur til Íslands (í þriðja skiptið á fáeinum mánuðum) og með í för var annar þekktur blúsari, munnhörpuleikarinn Pinetop Perkins. Sveitin hét tónleika ásamt þeim félögum á Púlsinum og voru þeir tónleikar teknir upp með það í huga að taka þá upp. Tónleikarnir heppnuðust vel og jafnvel stóð til að þeir kæmu út á tvöfaldri plötu en frá því var þó horfið, platan kom síðan út snemma vors 1992 á vegum fyrrgreindrar Platonic records Hilmars Arnar Hilmarssonar og hlaut titilinn Pinetop Perkins with Chicago Beau and The Blue ice band (Vinir Dóra). Á henni var einnig að finna upptökur úr Sýrlandi. Platan hlaut ágætar viðtökur, mjög góða dóma t.d. í Vikunni og ágæta í Morgunblaðinu, hún fékk líka ágæta dóma í Bandaríkjunum.

Þetta vorið fóru Vinir Dóra til Texas í því skyni að kynna plötuna ásamt Pinetop Perkins og Chicago Beau, og um sumarið dvaldi sveitin einnig á Sardiníu þar sem hún lék á ítalskri blúshátíð. Þegar heim var komið um haustið fóru þeir svo í tónleikaferðir víða um land, fyrst um Austurland en síðan um aðra hluta landsins, reyndar lék sveitin meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu um tíma. Þarna var sveitin skipuð um tíma auk Halldórs og Ásgeirs, þeim Baldvini Sigurðssyni bassaleikara og Eðvarði Lárussyni.

Pinetop Perkins with Chicago Beau and The Blue ice band varð með tímanum eins konar cult plata og var í nokkru uppáhaldi hjá Pinetop Perkins, góð eintök af henni seldust síðar fyrir háar upphæðir en einnig hafa komið út nokkrar sjóræningjaútgáfur af henni, ein þeirra gekk undir titlinum Got my mojo working og önnur Blues legends en fleiri slíkar útgáfur eru til af þessari plötu.

Dóri með Clio verðlaunin

Dóri hafði gefið leyfi fyrir að lag með sveitinni væri vestanhafs notað í „einhverri auglýsingu“ eins og það var orðað en það kom honum á óvart þegar hann fékk sendan verðlaunagrip sem umrædd auglýsing hafði hlotið á Clio auglýsingaverðlaunahátíðinni í Bandaríkjunum, þá kom í ljós að sjónvarpsauglýsing hafði verið gerð fyrir körfuknattleikslið Chicago Bulls með Michael Jordan í fararbroddi en hún skartaði m.a. leikurunum Dan Aykroyd og John Goodman.

Næsta ár, 1993 breyttu Vinir Dóra aðeins um tónlistarstefnu þar sem þeir léku svo mikið á landsbyggðinni, þeir lögðu nú meiri áherslu á rokk með blúsnum og léku nú einnig á dansleikjum að tónleikum loknum, þá var leikinn hreinn blús framan af kvöldi en rokk með blúsívafi á ballinu á eftir.

Vorið 1993 fóru Vinir Dóra enn til Chicago á blúshátíð og komu Pinetop Perkins og Chicago Beau fram með þeim sem fyrr, í þetta sinn lönduðu þeir plötusamningi við Evidence records. Ásgeir Óskarsson trommari var á þessum tíma upptekinn með hljómsveitinni Pelican sem þá hafði verið endurreist en Jóhann Hjörleifsson og Björgvin Ploder leystu hann af, Bjarni Bragi Kjartansson lék þá einnig um tíma á bassa svo heilmargir komu við sögu sveitarinnar og bar hún sannarlega nafn með rentu enda var Dóri eini fastur meðlimur hennar í raun.

Þetta sumar léku Vinir Dóra í fyrsta sinn á Djasshátíð Austurlands á Egilsstöðum og um sama leyti kom út platan Mér líður vel hér heima, hún var gefin út af Straight Ahead records sem var í eigu Halldórs og Chicago Beau. Titillagið var eftir Dóra en önnur lög voru erlend, platan hafði verið tekin upp á nokkrum tónleikum 1992 og 93, og fékk hún þokkalega dóma í Pressunni og góða í DV. Sveitin lék mjög mikið í kjölfarið til að fylgja plötunni eftir en þarna um haustið var sveitin orðin tríó og hefur verið það að miklu leyti síðan, Halldór, Jón Ólafsson bassaleikari og Björgvin Ploder trommuleikari skipuðu þá sveitina. Þá stóð til að sveitin færi til Bandaríkjanna eftir áramótin 1993-94 til að taka upp plötu, og reyndar stóð einnig til að þeir myndu leika um borð í skemmtiferðaskipi í karabíska hafinu – en hvorugt gekk þó eftir.

Enn urðu breytingar á skipan sveitarinnar á árinu 1994, Birgir Baldursson leysti Björgvin af og um vorið var Gunnlaugur Briem kominn í hana, þá Ásgeir Óskars aftur og Sigfús Óttarsson um haustið, lunginn af bestu trommurum landsins hafði þá leikið með Vinum Dóra. Chicago Beau kom um sumarið til landsins og í þetta sinn fór hann með sveitinni út á land, þá hafði verið gefið út að Halldór væri að flytjast til Kanada til að vinna með Chicago Beau og að sveitin myndi hætta störfum um haustið. Síðustu vikurnar lék Björn Thoroddsen gítarleikari með sveitinni en hún hætti svo í október.

Halldór dvaldist um ár í Kanada og Bandaríkjunum þar sem hann hafði fullan starfa af tónlistinni, platan Blue ice sem komið hafði út hér heima árið 1991 undir merkjum Vina Dóra var gefin út af Evidence útgáfunni í Bandaríkjunum í nafni Dóra undir titlinum Blues from Iceland, lagaröðinni hafði þá verið breytt á henni en engar sögur fara af móttökum hennar ytra.

En Vinir Dóra tóku aftur til starfa síðsumars 1995 og starfaði nú afram sem tríó, Sigurður Reynisson og Gunnlaugur Briem trommuðu eitthvað með sveitinni en annars voru það Jón Ólafsson bassaleikari og Ásgeir trymbill sem störfuðu með Dóra sem fyrr. Tríóið fór á fullt í spilamennsku um haustið, fyrst um landsbyggðina en svo einnig á höfuðborgarsvæðinu. Sem fyrr var mikið hljóðritað á tónleikum og dansleikjum og þannig var heil plata hljóðrituð sem kom út í nóvember og bar heitið Hittu mig. Plötuna mætti fremur skilgreina sem popp- eða rokkplötu með blúsívafi en hreinan blús enda höfðu áherslurnar breyst sem fyrr er greint. Lögin á plötunni voru jafnframt öll frumsamin en við texta Pjeturs Stefánssonar, hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og Degi.

Jólablús Vina Dóra

Upp frá þessu lék sveitin ekki nándar nærri eins ört og áður, blúsvakningin var á undanhaldi og blúsinn naut ekki jafnmikillar hylli og áður en þó nógu mikillar til að sveitin gat starfað áfram þótt með hléum væri. Og þannig hefur það verið til þessa dags, Vinir Dóra koma saman reglulega í fáein skipti á ári, þeir hafa komið fram á Blúshátið Reykjavíkur, Djasshátíðinni á Egilsstöðum, Hammond-hátíðinni á Djúpavogi og miklu víðar en þó ekki starfað samfleytt, sveitin hefur þó spilað minnst árlega. Engar plötur hafa komið út með henni í seinni tíð en stundum hafa birst fréttir í fjölmiðlum þess efnis að plata sé á leiðinni, hennar er þó enn beðið.

Ýmsir hafa komið við sögu sveitarinnar síðustu árin og þótt uppistaðan sé yfirleitt sú sama í henni, Dóri, Jón og Ásgeir, hafa ýmsir spilað og sungið með þeim félögum og/eða leyst af eftir því sem þurfa þykir, Þórir Baldursson, Jón Rafnsson, Björn Thoroddsen, Ragnheiður Gröndal og fleiri.

Ljóst er að framlag Dóra og Vina hans hefur haft mikið að segja fyrir íslenskt blústónlistarlíf og auðgað það verulega. Þegar þeir félagar hafa ferðast til útlanda hafa þeir komið innblásnir úr þeim ferðalögum, einnig myndað sambönd og komið á tónleikum með fjölda þekktra erlendra blústónlistarmanna hér á landi allt til dagsins í dag.

Efni á plötum