Vindva mei (1994-)

Vindva mei er þekkt nafn í raftónlistargeiranum og mun jafnvel vera skilgreind sem gjörningasveit en hefur eðlilega ekki náð hylli almennt í tónlistarheiminum enda tónlist sveitarinnar fremur óaðgengileg þeim sem vilja hefðbundnar þriggja mínútna melódíur.

Sveitin var stofnuð sumarið 1994 á Akureyri af þremenningum sem höfðu starfað í sveitum eins og Daman og hérinn og Gersemi Tut, þetta voru þeir Ásmundur Ásmundsson, Rúnar Magnússon og Pétur Eyvindsson. Ásmundur hætti reyndar fljótlega í sveitinni til að fara í listnám erlendis og síðan hafa Pétur og Rúnar starfrækt Vindva mei, Ásmundur hefur þó stöku sinnum verið þeim innan handar. Vindva mei mun hafa sent frá sér kassetturnar Norður / Niður, Flowers are evil og Hell is a public space á þessum upphafsárum sínum en litlar upplýsingar finnast um þær útgáfur enda eru þær á mörkum þess að teljast opinberar, síðast talda útgáfan mun hafa fylgt með Vindva mei tíðindum sem þeir félagar sendu frá sér í nokkur skipti.

Þeir félagar Pétur og Rúnar hafa lengst af búið í sínu hvoru landinu, Pétur á Íslandi og Rúnar í Danmörku og víðar, og því hefur Vindva mei alltaf spilað fremur stopult, það var árið 1996 sem sveitin lét fyrst að sér kveða en þá birtist hún í tónleikaröð Tilraunaeldhússins. Hún hafði þó hægt um sig næstu árin en árið 2000 kom út á vegum Fire Inc. (útgáfumerki Stilluppsteypu) platan On fire sem hafði að geyma upptökur frá árunum 1996-99. Þótt platan færi ekki hátt hlaut hún ágæta dóma í tímaritinu Fókus og Morgunblaðinu.

Sveitin kom stöku sinnum fram næstu árin en lítið fór fyrir útgáfum fyrr en árið 2004 þegar dúettinn sendi frá sér tvær plötur á vegum White label útgáfunnar sem var í þeirra eigu, Fungi to the moon og Germans are people too: Alive and kicking, þær voru báðar gefnar út í fyrstu í fimmtán númeruðum eintökum en endurútgefnar síðar sama ár í stærra upplagi. Báðar fengu plöturnar ágæta dóma í Morgunblaðinu en sú síðarnefnda hafði að geyma tónleikaupptöku frá raftónlistarhátíð í Kaupmannahöfn vorið 2003.

Sem fyrr kom sveitin afar sjaldar fram og á næstu árum virðist hún að mestu hafa verið lögð í salt en þeir Rúnar og Pétur sinntu þá öðrum verkefnum sem þeir reyndar komu mörgum hverjum að í sameiningu en einnig unnu þeir að sólóverkefnum. Árið 2005 kom út eins konar split plata undir nafni Rúnars og Vindva mei, hún hét Noisejihad live! 30/09/2005 en engar frekari upplýsingar er að finna um þá útgáfu aðrar en að hún virðist hafa verið gefin út í Danmörku.

Rykið var þurrkað af Vindva me árið 2010 eftir langt hlé og einnig var hún starfaði 2011  en síðan leið aftur nokkur tími þar hún kom fram á sjónarsviðið árið 2014, svo virðist sem dúettinn hafi ekki komið fram saman síðan 2015 en ekkert bendir til þó þess að þeir félagar hafi lagt Vindva mei nafnið endanlega á hilluna.

Efni á plötum