Vindlar faraós (1989-90)

Vindlar faraós

Hljómsveitin Vindlar faraós lék djassskotinn blús og lék opinberlega í fjölmörg skipti árið 1990.

Sveitin, sem hefur augljósa skírskotun í bækurnar um Tinna, var stofnuð haustið 1989 en kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr en vorið eftir, meðlimir voru í upphafi Skúli Thoroddsen saxófón- og flautuleikari, Sigurður Hrafn Guðmundsson gítarleikari, Ludvig Forberg hljómborðsleikari, Árni Björnsson bassasleikari og Jónleif Jensen trommuleikari, auk þess sem Linda Gísladóttir söngkona söng með sveitinni, Vindlar faraós var hrein blússveit í byrjun en varð síðar djassaðri.

Þannig skipuð störfuðu Vindlar faraós fram á mitt sumar 1990 þegar Jónleif hætti og við það virðist sem sveitin hafi þá hætt störfum í bili, hún birtist þó aftur um haustið en þá í breyttri mynd, nýr trymbill, Pétur Einarsson hafði þá tekið við Jónleif en einnig hafði Stefán Petersen hljómborðsleikari komi í stað Ludvigs. Sveitin starfaði ekki lengi í þeirri mynd og hvarf sjónum fljótlega, önnur sveit – Blái fiðringurinn var síðan stofnuð upp úr henni fljótlega.