Fræbbblarnir (1978-83 / 1996-)

Fræbbblarnir á sviði

Hljómsveitin Fræbbblarnir er klárlega skýrasta andlit pönktímabilsins á Íslandi sem má segja að hafi staðið yfir um tveggja og hálfs árs skeið en pönkið sem að mestu var sótt til Bretlands hafði þá þegar liðið undir lok þar í landi þannig að Íslendingar fóru að mestu á mis við hið eiginlega breska pönk. Fræbbblarnir höfðu hins vegar gríðarlega mikil áhrif á íslenska tónlistarsögu með tilurð sinni þótt menn hefðu aldrei viðurkennt það á sínum tíma enda naut sveitin aldrei almennra vinsælda heldur þvert á móti, en í kjölfarið reis hér bylgja tónlistar pönks, rokks og nýbylgju sem ól af sér nýja kynslóð tónlistarfólks og hljómsveita sem síðar breyttu landslaginu í tónlistinni hér á landi, sem sumir hverjir fengu jafnvel alþjóðlega viðurkenningu.

Íslenskt tónlistarlíf hafði um nokkurra ára skeið við lok áttunda áratugarins verið flatneskjulegt enda lítið við að vera í almennri grósku, diskóið hafði þá um tíma verið vinsælasta tónlistin og lifandi tónlistarflutningur var af skornum skammti, þá þótti sköpun vera í lágmarki og margir tónlistarmenn sendu frá sér ábreiður erlendra laga. Það var í þessu tónlistarlega umhverfi sem nýja rokkbylgjan varð til og þannig sköpuðust aðstæður fyrir tónlistarbyltingu á borð við rokkið (eftir miðjan sjötta áratuginn) og svo bítlatónlistina (um miðbik sjöunda áratugarins) sem og gerðist, mjög skörp skil mynduðustu í íslenskri tónlist á þessum tíma, annars vegar voru það gömlu mennirnir – sem fengu nú skammaryrðið „skallapopparar“ yfir sig og hins vegar rokk/pönk/nýbylgju-liðið með Bubba Morthens í fararbroddi. Bubbi orðaði þetta ágætlega á sínum tíma þegar hann sagði að Fræbbblarnir hefðu opnað dyrnar að nýrri rokkbylgju og Utangarðsmenn síðan gengið inn en síðarnefnda sveitin og Bubbi sjálfur auðvitað hafa verið einkenni og táknmynd þeirrar gróskumiklu bylgju sem kennd hefur verið við pönk og nýbylgju, sem sprakk út tónlistarvorið 1980.

Pönkið hafði haft lítil áhrif á Íslandi og var sem fyrr segir að líða undir lok í Bretlandi þegar breska sveitin Stranglers birtist hér vorið 1978, hélt hér tónleika og vakti nokkra athygli og fáeinum vikum síðar heimsótti hin þýsk-íslenska „ræflarokkssveit“ Big balls and the great white idiot landann og hélt hér nokkra tónleika, þannig að fyrstu beinu tengslin við pönkið urðu ekki fyrr en þá, áður höfðu dagblöðin og tímarit hérlendis lítillega fjallað um fyrirbærið og þá iðulega í neikvæðu samhengi þar sem pönkarar og tónlist þeirra var lituð neikvæðni. Tónleikar fyrrgreindra sveita urðu til að fáeinar pönksveitir voru stofnaðar um sumarið en þær urðu skammlífar. Það var svo um haustið, nánar tiltekið í nóvember 1978 þegar árleg menningarhátíð, Myrkramessa var haldin innan Menntaskólans í Kópavogi, að nokkrir nemendur innan skólans ákváðu að fá að troða upp með tónlistaratriði í formi pönkhljómsveitar til að „hrista aðeins upp í liðinu“ en þetta var alltaf meira hugsað sem grín fremur en illkvittni í garð Ingólfs Þorkelssonar skólameistara MK, þótt sumir héldu öðru fram – tildrög þess voru þau að einn þeirra félaga hafði verið látinn sitja eftir. Atriðið var að því leyti svipað upphafi Stuðmanna að tjaldað var til einnar nætur enda aldrei hugmyndin að halda áfram með hljómsveitina en hún hafði þá þegar hlotið nafnið Fræbbblarnir. Þetta voru þeir Stefán Karl Guðjónsson trommuleikari, Valgarður Guðjónsson söngvari (og síðar einnig gítarleikari), Þorsteinn Hallgrímsson bassaleikari, Hálfdan Þór Karlsson gítarleikari og Barði Valdimarsson söngvari. Þessi uppákoma kom flatt upp á tónleikagesti Myrkramessunnar og mun mörgum hafa ofboðið hávaðinn og spilamennskan almennt, sem þótti reyndar ekki upp á marga fiska enda var það heldur aldrei ætlunin, þetta var fyrst og fremst grínatriði þótt meðlimir sveitarinnar hefðu lítillega kynnt sér pönktónlist.

Fræbbblarnir 1980

Á samkomunni var staddur maður sem bauð sveitinni að koma fram í sjónvarpsþætti sem þá var fyrirhugaður og meðlimum hinnar nýju sveitar var því ekki stætt á öðru en að halda „samstarfinu“ eitthvað áfram fyrst það var í boði. Það varð til þess að Fræbbblarnir störfuðu áfram en lengi vel á eftir voru það aðeins þeir Valgarður og Stefán (yfirleitt kallaðir Valli og Stebbi í Fræbbblunum) sem litu á hljómsveitina sem verkefni til frambúðar.

Sjónvarpsþátturinn var aldrei sýndur þrátt fyrir að atriði Fræbbblanna væri tekið upp en sveitin hafði fengið athygli sem varð til að þeir félagar héldu áfram og fljótlega bauðst þeim að leika í Verzlunarskóla Íslands, á Hótel Borg og víðar svo ekki var aftur snúið. Mannabreytingar urðu strax innan sveitarinnar og í gegnum tíðina hefur mikill fjöldi manna (og kvenna) starfað með henni. Barði söngvari hætti mjög fljótlega og Óskar Þórisson söng með sveitinni um tíma ásamt Valgarði en einnig kom inn í hana gítarleikarinn Ríkharður H. Friðriksson í stað Hálfdans, og söngkonan Dagný Ólafsdóttir Zoëga. Þorsteinn, Valgarður og Stefán voru þá einir eftir af upprunalegu Fræbbblunum.

Tónlist Fræbbblanna féll strax vægast sagt í grýttan jarðveg hjá almenningi og lengi vel var blaðamönnum sérstaklega uppsigað við sveitina, þar var Dagblaðið fremst í flokki og í vinsældakosningu blaðsins við upphaf ársins 1979 var sveitin útilokuð frá kosningunni. Þetta varð tilefni nokkurra blaðaskrifa um málið og meðal annars birtist lesendabréf frá ungum manni að nafni Helgi Briem, sem varði hljómsveitina, talaði máli hennar og varð þeim félögum að vissu leyti hvatning til að halda áfram – hann átti svo löngu síðar eftir að gerast meðlimur sveitarinnar.

Fræbbblarnir léku töluvert opinberlega árið 1979 og hafði eignast lítinn en tryggan aðdáendahóp sem mætti á tónleika sveitarinnar, sveitin féll reyndar illa að þeirri skilgreiningu sem menn höfðu í kollinum þegar þeir mátuðu hana í einhvers konar pönkmót upp úr bresku tónlistartímaritunum enda var umhverfið í Kópavogi allsendis ólíkt bresku samfélagi. Þeir félagar komu t.d. ekki úr verkamannastétt og voru hvorki nógu reiðir né andfélagslegir sem fræðin sögðu, þá voru þeir fremur hægri sinnaðir en hitt þegar kom að stjórnmálaskoðunum og textagerð og féllu því síður en svo í kramið hjá „vinstra pakkinu“ og „hippaliðinu“, sem þeir reyndar fyrirlitu. Þannig áttu þeir alls ekki upp á pallborðið hjá því fólki sem helst hefði mátt búast við að styddu þá, Fræbbblarnir kærðu sig kollótta um það enda var það fyrst og fremst tónlistin sem skipti máli í þeirra huga, fersk og hrá með texta fulla af húmor og ádeilum.

Fræbbblarnir

Stefán trommari stundaði sjómennsku samhliða spilamennsku og var ekki alltaf til staðar þegar Fræbbblarnir spiluðu, þannig leysti Kristján Gíslason hann af á einum tónleikum en Stefán mætti reyndar óvænt á miðju gigginu og tók við, sveitin lék nokkuð í framhaldsskólunum og félagsmiðstöðvum þar sem þeir fengu yfirleitt góðan hljómgrunn en einnig í Félagsheimili Kópavogs (Kópavogsbíói) sem var þeirra heimavöllur, Hótel Borg og jafnvel Klúbbnum þar sem diskóið réði enn ríkjum, það mun einmitt hafa verið í Klúbbnum sem Valgarður söngvari hótaði áhorfendum að spila meira ef þeir klöppuðu ekki – þegar fólkið klappaði sagði hann „fyrst þið klappið svona mikið þá tökum við aukalög!“. Það var því ekki að ósekja sem margir hreinlega hötuðust við þessa kjaftforu og hávaðasömu Kópavogsbúa.

Um sumarið 1979 kom Einar Örn Benediktsson (síðar kenndur við Purrk pillnikk) Fræbbbunum í samband við Breta sem rak lítið útgáfufyrirtæki í Sheffield, Limited edition records og var hann reiðubúinn að gefa út smáskífu með sveitinni. Það varð því úr að þeir Fræbbblar tóku upp fjögur lög í Tóntækni og rötuðu þrjú þeirra á skífuna sem kom út um haustið í Bretlandi en barst ekki til Íslands fyrr en árið eftir.

Þarna um sumarið hætti Ríkharður gítarleikari í Fræbbblunum og tók Sigurgrímur Skúlason sæti hans í sveitinni, í október fjölgaði svo í henni þegar annar gítarleikari Ari Einarsson bættist í hópinn, þá var reyndar Bjarni Sigurðsson ljósamaður sveitarinnar oft talinn til liðsmanna hennar en hann söng bakraddir með Fræbbblunum, einnig nefndu menn Gunnþór Sigurðsson rótara einnig oft í því samhengi.

Hvort sem það var vegna tónlistarinnar eða plötuútgáfunnar þá virtist þetta síðbúna íslenska pönk skila sér til ungra tónlistarmanna því hvarvetna tóku að spretta upp pönksveitir um höfuðborgarsvæðið og reyndar víðar veturinn 1979-80, líklegast var þó stærsta ástæðan sú að staðnað tónlistarlíf síðustu ára átti sinn þátt í að skapa þær aðstæður sem Fræbbblarnir urðu fyrstir til að nýta sér, fólk var einfaldlega farið að þrá eitthvað nýtt og ferskt sem pönkið óneitanlega var hérlendis þótt það hefði þá þegar liðið undir lok í Bretlandi.

Smáskífan kom loks til landsins eftir áramótin og vakti strax nokkra athygli þó ekki væri nema fyrir umslag hennar (og plötumiða) sem skartaði blómi sem virtist stungið upp í karlmannsrass, platan sjálf var hvít að lit. Tvö laganna, False death og True death voru frumsamið pönk eftir þá félaga en þriðja lagið var pönkuð útgáfa af Summer [k]nights úr kvikmyndinni Grease og í stað þeirra John Travolta og Oliviu Newton John sungu Valgarður og Dagný með sínum hætti. Smáskífan sem er auðvitað merkilegust fyrir það að vera fyrsta íslenska pönkplatan, hlaut þokkalega dóma í Helgarpóstinum en afar slæma í Vísi. Þess má geta að breska sveitin Undertones „stal“ gítarriffinu úr laginu False death og notuðu í lagi sínu Whizz kids á plötunni Hypnotised (1980), líklega fannst Fræbbblunum felast of mikil viðurkenning fyrir sveitina í þessu, til að gera eitthvað í málinu og sækja rétt sinn.

Á bakhliðs fyrstu smáskífunnar

Fræbbblarnir höfðu hugmyndir um að koma sér á framfæri í Bretlandi þar sem plötunni þeirra var dreift þar en fljótlega hurfu þeir frá þeim hugmyndum, þeir voru jafnframt í sambandi við Johnny Lydon og félaga í PIL (Public Image Limited) um að sú sveit kæmi til Íslands en varð ekki ágengt í þeim efnum, Fræbbblarnir áttu  þó síðar eftir að spila á erlendri grundu.

Fræbbblarnir voru frjóir og skapandi á þessum árum og mörg lög litu dagsins ljós úr þeirra ranni en þeir voru ekki síður duglegir að taka ábreiðu-útgáfur af lögum annarra eins og dæmið um Summer night hér að ofan sýnir, þeir höfðu einnig tekið upp Terry Jacks lagið Season in the sun í sömu upptökum en fannst það ekki koma nógu vel út, það kom út síðar með sveitinni. Þeir Fræbbblar gerðu tilraun til að pönka upp Brunaliðs-lagið Ég er á leiðinni en gáfust upp á því – fannst lagið svo lélegt, sögðu þeir í blaðaviðtali.

Fljótlega á nýju ári (1980) urðu nokkrar breytingar á skipan sveitarinnar, Þorsteinn bassaleikari hætti í henni og Akureyringurinn Steinþór Stefánsson tók sæti hans, Steinþór hafði verið í hljómsveitinni Snillingunum sem Ríkharður fyrrverandi gítarleikari Fræbbblanna hafði stofnað um haustið á undan en sú sveit hafði einmitt spilað með Fræbbblunum á Kambodíu-tónleikunum svokölluðu í janúar, Einar Örn Benediktsson hafði einnig verið prófaður sem bassaleikaraefni Fræbbblanna. Fleiri breytingar urðu á sveitinni um þetta leyti, Dagný söngkona var hætt sem og Ari en fjórtán ára gítarleikari, Tryggvi Þór Tryggvason var þá einnig genginn til liðs við sveitina.

Þrátt fyrir töluverða velgengni höfðuðu Fræbbblarnir lítið sem ekkert til almennings og þegar sveitin kom fram í sjónvarpsþætti hjálpuðu þeir sjálfir heldur ekki til en þar lýstu þeir yfir að langflestir Íslendingar væru heimskir, Dagblaðið hafði reyndar haft þá með í vinsældavali sínu í upphafi ársins 1980 en það var líklega til að mæta ekki sömu gagnrýni og árið á undan. Þá virðist sem fólk hafi tekið texta þeirra full alvarlega, sem sumir hverjir voru hreint grín þrátt fyrir þá þjóðfélagslegu ádeilu og speki sem þar var að finna, um það leyti var sveitin einnig farin að leika umdeilt lag eftir Steinþór á tónleikum, Í nótt en það kom upphaflega frá Snillingunum og skartar upphafslínunni: Í nótt, ég ætla‘ að ríða þér í nótt.

Fræbbblarnir héldu fræga tónleika í Félagsheimili Kópavogs ásamt fleiri sveitum undir yfirskriftinni Heilbrigð æska, þann 12. apríl og þar komu m.a. fram Dordinglar sem skartaði ungum og efnilegum tónlistarmönnum (t.a.m. Gunnari L. Hjálmarssyni sem síðar gekk undir nafninu Dr. Gunni) sem og ný hljómsveit, Utangarðsmenn sem þarna var að stíga á svið í fyrsta sinn. Fræbbblarnir voru síðasta númerið á dagskránni.

Fræbbblarnir á sviði Kópavogsbíós

Líklegt má telja að tónlist Fræbbblanna hefði náð meiri útbreiðslu og vinsældum hefði sveitin ekki fallið í skuggann af þeirri sprengingu sem varð í kringum Bubba Morthens og Utangarðsmenn þarna um sumarið, og vísað er til í upphafi þesssarar umfjöllunar þar sem Bubbi sagði Fræbbblana hafa opnað dyrnar og Utangarðsmenn gengið inn. Fræbbblarnir nutu þó einnig góðs af Bubba-æðinu því sveitirnar tvær spiluðu mikið saman á tónleikum þetta árið og áttu ágætt samstarf þótt tónlistin væri ólík sem og þjóðfélagsskoðanir þeirra. Sveitirnar spiluðu þó ekki saman í Laugardalshöllinni þegar kom að því að hita upp fyrir Clash á lokakvöldi Listahátíðar í Reykjavík því Fræbbblarnir voru þá útilokaðir frá tónleikunum, að því er virðist vegna stjórnmálaskoðana sinna enda ekki nógu vinstrisinnaðir. Ekki er víst að Listahátíðar-nefnd hefði t.d. sætt sig við að hlusta á pönkarana kyrja lagið Hippar þar sem segir m.a: Kúltúrpakk, hippalið / Kúlturpakk, hippalið og alls konar rusl uppfullt af djöfuls væli – þeirra mál, vandamál!

Þetta sumar (1980) var mikið að gera hjá Fræbbblunum og sveitin lék víða en þeir félagar notuðu líka tækifærið og skruppu til Bretlands til að reyna að ná eyrum hljómplötuútgefenda þar í landi, ekki varð þeim neitt ágengt í þeirri ferð enda var það ekkert í boði að labba af götunni inn á kontór hjá breskum plötumógúlum. Hins vegar náðu þeir einhvern veginn eyrum sænskra fjölmiðlamanna og viðtal birtist við sveitina í helgarútgáfu Aftonbladet um sumarið.

Sveitin hafði æft mikið um vorið og samið mikið af efni sem þeir vildu endilega koma á varanlegt form, þeir höfðu uppi hugmyndir um að fara í hljóðver og taka upp átján til tuttugu lög á tíu tímum, nánast „live“ og gefa út á kassettu í takmörkuðu upplagi. Úrvinnsla hugmyndarinnar varð þó með öðrum hætti því hljóðversvinnan fór í sjötíu tíma og afraksturinn kom út á plötunni Viltu nammi væna? sem nýtt útgáfufyrirtæki í eigu sveitarinnar, Rokkfræðsluþjónustan gaf út um haustið, útgáfan gekk þó ekki alveg átakalaust því upplagið var gallað og þurfti að skera aðra hlið hennar aftur og því tafðist útgáfan. Nammið eins og platan er iðulega kölluð hafði að geyma átján lög og er auðvitað fyrsta pönkbreiðskífa Íslandssögunnar en hún er í dag sjaldséður safngripur og gengur kaupum og sölum dýrum dómum enda var upplag hennar ekki stórt, líklega aðeins um sex hundruð til þúsund söluhæf eintök. Umslag plötunnar vakti jafnframt athygli fyrir nýstárlega hönnun en það var eiginlegt umslag og opnast sem slíkt. Platan fékk misjafna dóma blaðaskríbenta sem flestir hverjir höfðu enn ekki tekið sveitina í sátt, hún fékk þannig ágæta dóma í Dagblaðinu, þokkalega í Morgunblaðinu, Vísi og Poppbók Jens Kr. Guð og fremur neikvæða í Helgarpóstinum og Þjóðviljanum. Reyndar var Þjóðviljanum alveg sérstaklega uppsigað við sveitina um þetta leyti, þeir höfðu fundið það út að aðal textasmiður Fræbbblanna (væntanlega Valgarður) væri flokksbundinn sjálfstæðisflokknum og hugnaðist það illa.

Nokkur laganna á plötunni náðu einhvers konar vinsældum þótt ekki væri tónlistin beinlínis útvarpsvæn enda var enn á þessum tíma aðeins ein Ríkis-útvarpsstöð starfrækt í landinu, hins vegar munu unglingar hafa verið duglegir að fjölfalda efnið á kassettum þannig að það náði töluverðri útbreiðslu og lög eins og Í nótt, Ljóð, Hippar og Æskuminning urðu þannig órjúfanlegur partur af pönkmenningunni sem fljótlega náði hápunktinum enda útgáfa plötunnar klárlega tengd því. Því er ekki að neita að hluti vinsælda sveitarinnar innan pönksenunnar var textunum að þakka enda rímaði innihald þeirra ágætlega við hormónaflæði pönk-kynslóðarinnar hvort sem þeir tengdust laginu Í nótt eða Æskuminningu sem margir sögðu fjalla um þáverandi forseta.

Fræbbblarnir 1980

Fræbbblarnir fylgdu plötuútgáfunni nokkuð eftir með spilamennsku og fyrir jólin 1980 hélt sveitin tónleika ásamt Utangarðsmönnum og Þey í Gamla bíói undir yfirskriftinni Barðir til róbóta, nýr gítarleikari, Arnór Snorrason gekk svo til liðs við sveitina í kringum áramótin en Ari var þá hættur, Arnór hafði verið með Steinþóri í Snillingunum. Fljótlega eftir áramótin fóru þeir félagar að vinna að nýrri plötu sem bar vinnuheitið Kampavín, kvenfólk og Njörður P. Njarðvík en það var smáskífa. Sveitin var sem fyrr nokkuð í umræðunni og reglulega birtust lesendabréf í dagblöðunum sem flest voru neikvæð eins og fyrri daginn, það sama mátti segja um skrif blaðamanna og eftirfarandi frásögn úr Vísi er kannski lýsandi fyrir viðhorf þeirrar stéttar gagnvart sveitinni: „fólk gekk út á meðan Valli söng FÍH, Iðjagrænir Fræbbblar og Stebbi lék fótbrotinn á trommurnar með aðstoð Magga trommara Utangarðsmenna. Aldrei hef ég heyrt eins pottþéttan ryþmaleik hjá Fræbbblunum. Það eina sem spillti fyrir var hinn rammfalski bassi Steinþórs.“ Þess má geta að í umræddu lagi (FÍH) var skotið fast á Félag íslenskra hljómlistarmanna en sveitinni var uppsigað við félagið, þeir tóku þó enga áhætta varðandi lögsókn að hálfu félagsins og kölluðu því lagið FÍÁ á Nammi-plötunni. Í frásögninni hér að framan er vísað til þess að á tónleikum hjálpaði Magnús Stefánsson trymbill Utangarðsmanna Stefáni, sem þarna var fótbrotinn.

Smáskífan, sem var fjögurra laga kom út um sumarið og hafði þá fengið titilinn Bjór eftir einu laga hennar en segja má að lagið hafi nánast slegið í gegn, að minnsta kosti á mælikvarða Fræbbblanna því það naut töluverðra vinsælda og seldist platan í um þúsund eintökum en hún var gefin út undir merkjum Rokkfræðsluþjónustunnar. Þrátt fyrir að eitt laganna fjögurra, Critical bullshit væri beint skot á blaðamenn virtist sem poppskríbentar blaðanna væru byrjaðir að sætta sig við tónlist Fræbbblanna því Bjór hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu, Vísi og Dagblaðinu og þokkalega í Poppbók Jens Guðmundssonar.

Um það leyti sem platan kom út lék sveitin á stórtónleikunum Annað hljóð í strokkinn, sem reyndar verður helst minnst fyrir framlag hljómsveitarinnar Bruna BB en sú sveit var handtekin að tónleikunum loknum. Þetta sama sumar hófust upptökur á kvikmyndinni Okkar á milli í hita og þunga dagsins eftir Hrafn Gunnlaugsson en Valgarður lék þar annað aðalhlutverka myndarinnar auk þess sem Fræbbblarnir koma nokkuð við sögu hennar, tónlist úr myndinni var tekin upp en ráðgert var að plata með henni kæmi út þegar myndin yrði frumsýnd.

Um haustið fór Arnór gítarleikari erlendis í nám og enn urðu breytingar á skipan sveitarinnar, Kristinn Steingrímsson kom þá inn í stað Arnórs en einnig kom Mike Pollock úr Utangarðsmönnum við sögu hennar um það leyti meðan verið var að leysa úr gítarleikaravandræðunum. Sveitin hitaði um þær mundir upp fyrir bresku sveitina The Fall og lék reyndar mjög mikið þetta sumar á hvers kyns tónleikum, nokkrar tilraunir voru gerðar til að hljóðrita tónleika sveitarinnar m.a. á Borginni og félagsmiðstöðinni Árseli, með útgáfu í huga en upptökurnar reyndust ónothæfar til útgáfu.

Fræbbblarnir 1982

Um áramótin 1981-82 bárust fréttir þess efnis að Fræbbblarnir væru á leið til Noregs til tónleikahalds en þar var sveitin í tíu daga í janúar og lék nokkrum sinnum við ágætan orðstír. Mikið var að gera hjá Fræbbblunum um það leyti en þá var Friðrik Þór Friðriksson að gera kvikmyndina Rokk í Reykjavík sem átti að vera eins konar heimild um þá pönk- og rokkbylgju sem hafði staðið yfir frá því um sumarið 1980 – reyndar má segja að myndin hafi innihaldið tónlist í mun víðara samhengi en hún er engu að síðu skemmtileg heimild um þessa tíma, um leið markar hún endalok bylgjunnar. Fræbbblarnir áttu tvö lög í myndinni og gekk á ýmsu við upptökurnar og voru sveitarmeðlimir aldrei fyllilega sáttir við framlag sitt í henni og fannst hún ekki gefa rétta mynd af sér. Lögin tvö, Í nótt og Gotta go voru mynduð í Fellahelli eftir að tilraunir til þess á Borginni fóru út um þúfur en þau komu svo einnig út á tvöföldu albúmi með tónlistinni úr myndinni undir titlinum Rokk í Reykjavík, um páskana 1982 þegar myndin var frumsýnd. Um svipað leyti kom út safnplatan Northern light playhouse á vegum Fálkans og Rough trade í Bretlandi en henni var ætlað að kynna íslenska rokk- og nýbylgju, Fræbbblarnir áttu þar lögin No friends og It may be quoted (af Bjór-smáskífunni) og Rebellion of the dwarfs en síðast talda lagið átti eftir að koma út á næstu plötu sveitarinnar.

Sú plata var einmitt í vinnslu og fyrstu fréttir af henni voru að hún fengi titilinn Friður á jörð, fljótlega sögðust þeir félagar að hún fengi nafnið Í kjölfar komandi kynslóða og svo þegar hún kom loks út í júní þá hafði hún hlotið líklega lengsta plötutitil íslenskrar tónlistarsögu – Pottþéttar melódíur í rokkréttu samhengi – Í kjölfar komandi kynslóða – Fræbblarnir munu landið erfa. Plötuhliðarnar báru ennfremur nöfnin Fögur er hliðin / Gullna hliðin, sem eru augljósar skírskotanir í bókmenntasöguna. Þegar platan (sem var fimmtán laga, tekin upp í Hljóðrita og Stúdíó Stemmu) kom út var Tryggvi Þór gítarleikari hættur í Fræbbblunum en Hjörtur Howser hljómborðsleikari sem hafði leikið með sveitinni í upptökunum var genginn til liðs við hana. Hljómborðsleikur Hjartar breytti tónlistinni töluvert sem hafði nú þróast eins og víða erlendis frá pönkinu og nýbylgjunni yfir í það sem síðar hlaut nafnið nýrómantík, Fræbbblahljómurinn var þó enn til staðar en augljóst var að bæði tónlistin og lagasmíðarnar höfðu þróast í áttina að poppi án þess þó að vera popp. Platan hlaut ágætar viðtökur, hún fékk mjög góða dóma í DV (þar sem m.a. sagði að platan væri orðin með betri sveitum landsins – Dagblaðið og Vísir höfðu þarna sameinast og viðhorf blaðamanna þeirra hafði augljóslega breyst einnig við sameininguna), ágæta dóma í Morgunblaðinu, Tímanum og Vikunni en fremur slaka í Helgarpóstinum og Poppbókinni. Ekki er hægt að segja að einhver laganna hafi notið almennra vinsælda en Þúsund ár var nokkuð spilað í útvarpi, þá þekktu margir lagið God doesn‘t live here anymore sem hafði verið í Rokk í Reykjavík undir nafninu Gotta go. Þess má geta að gítarleikarinn Björn Thoroddsen lék sem gestur á þessari plötu en einnig kom Þorsteinn Hallgrímsson (fyrsti bassaleikari sveitarinnar) við sögu hennar sem hljómborðsleikari.

Kjarni Fræbbblanna á sviði

Sveitin lék nokkuð með Hjört innanborðs um sumarið, m.a. á útitónleikum á Lækjartorgi í tilefni útgáfu plötunnar en hann staldraði þó ekki lengi við og síðsumars hafði Kristinn gítarleikari einnig hætt í henni þannig að Fræbbblarnir voru gítarleikaralausir um tíma, e.t.v. hafði þessi tónlistarlega U-beygja haft eitthvað að segja um það að sveitin var nú allt í einu orðið að tríói. Sveitin hafði ekki ætlað að koma fram á Melarokks-tónleikunum sem haldnir voru í lok ágúst, sökum gítarleikaraleysis en þegar Steinþór bassaleikara langaði að fara á tónleikana en tímdi ekki að borga sig inn ákváðu þeir að vera með og fengu Mike Pollock með sér en hann hafði þá lítillega leikið með sveitinni eins og fram hefur komið. Í kjölfarið gekk Mike til liðs við Fræbbblana og um haustið hljóðrituðu þeir félagar fjögur lög með hann innanborðs, ekki aðeins kom hann inn sem gítarleikari heldur kom hann einnig með hugmyndir sem rötuðu inn í upptökurnar, annars vegar kántrífrasa sem varð að laginu Oh Sally og hins vegar djassriff sem varð að instrumental laginu Jerusalem light – djassblús sem var eins ólíkt fyrri Fræbbblatónlist og mögulegt var en þar lék Þorsteinn Hallgrímsson á orgel, bæði lögin voru grín í anda Fræbbblanna en hin lögin tvö voru hefðbundnari Fræbbbla-lagasmíðar þar sem sveitin var komin á svipaðan stað og fyrir Pottþéttar melódíur… -plötuna.

Sveitin í æfingahúsnæði

Um þetta leyti kom upp all sérstakt mál hjá sveitinni gagnvart FÍH en félagið hafði þá gert Fræbbblunum þann óleik að taka stóran hluta tekna hennar úr sjónvarpsupptökum frá Melarokki um sumarið upp í „vangoldin félagsgjöld“ en sveitin hafði þá ekki greitt félagsgjöld um nokkurt skeið og hafði reyndar ekkert hugsað sér það enda töldu þeir sig ekki vera í FÍH. Spurningin hvort um einhvers konar hefnd hafi verið að ræða að hálfu félagsins eftir að sveitin skaut á það á Nammi-plötunni.

Um haustið kom út tónlistin úr kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar Okkar á milli í hita og þunga dagsins en Fræbbblarnir áttu þrjú lög á þeirri plötu, önnur hlið plötunnar var helguð pönki og rokki en hina hliðina höfðu „skallapoppararnir“ svokölluðu til umráða. Reyndar stóð heilmikill styr í kringum útgáfu plötunnar því Hrafn leikstjóri hafði lag á að skapa umræðu með ýmsum hætti, hann kom því til að þjóðsöngur Íslendinga var lokalag hvorrar plötuhliðar, annars vegar í syntha-útgáfu Þursaflokksins og hins vegar í djassútgáfu Guðmundar Ingólfssonar. Framlag Fræbbblanna var einnig til umræðu í þessu samhengi og meðferð þeirra og útúrsnúningurinn á ættjarðarljóðinu Ég vil elska mitt land (e. Guðmund Magnússon) undir titlinum Nallinn fór fyrir brjóstið á mörgum, þar segir m.a. „ég vil nauðga þér með glans“ í stað „ég vil auðga mitt land“ og lá við að lögbann yrði sett á plötuna, harðorð lesendabréf birtust þar sem Fræbbblarnir, Hrafn og fleiri fengu á baukinn.

„Kántríplatan“ eins og hún er oftast nefnd kom út fyrir jólin 1982 undir titlinum Warkweld in the west (eða Vorkveld í vestrinu) og eins og búist var við hlaut kántrílagið Oh Sally einna mesta athygli, hún fékk jákvæða dóma í Þjóðviljanum sem hafði reyndar ekki birt gagnrýni um Fræbbbla-plötu síðan Nammið kom út, og einnig góða dóma í Tímanum, Vikunni og DV en slaka í Poppbók Jens Guð, menn skynjuðu augljóslega orðið húmorinn í sveitinni. Þess má geta að umslag plötunnar var teiknað af Steinþóri bassaleikara og var mjög í anda belgíska teiknarans Morris (Maurice de Bevere) sem skóp m.a. Lukku Láka.

Fræbbblarnir 1982

Strax í desember voru Fræbbblarnir teknir til við að vinna að næstu plötu svo að þrátt fyrir tíðar mannabreytingar virtist enga bilbug vera að finna á þeim félögum. Tveir gítarleikarar gengu til liðs við sveitina, Sigurður Dagsson og Snorri [Björn Arnarson?] og þannig skipuð starfaði sveitin næstu vikurnar. Í febrúar 1983 bárust svo fyrstu fréttir þess efnis að Valgarður söngvari væri að hætta í sveitinni og kom það mörgum á óvart en hann hugðist þá stofna nýja sveit. Þeir hinir voru þá sagði myndu halda áfram en Stefán trommari yrði þá einn eftir af upprunalega bandinu en Fræbbblarnir höfðu þá verið starfandi í ríflega fjögur ár, tónlistarlegur ágreiningur var sögð vera ástæða fyrir brottför Valgarðs og ljóst að Fræbbblarnir yrðu ekki samir án hans því söngur hans hafði sett svo stóran svip á sveitina.

Valgarður hætti því í Fræbbblunum og Snorri mun ekki hafa starfað lengi með sveitinni en nýr söngvari gekk til liðs við hana á vormánuðum, það var barnastjarnan Ruth Reginalds en hún var þá á átjánda ári og var töluvert þekkt eftir að hafa sent frá sér fjórar sólóplötur og sungið á nokkrum plötum í viðbót. Þegar Ruth gekk til liðs við sveitina var nafni hennar breytt í AEON en þau störfuðu ekki lengi undir því nafni, þeir gerðu aðra tilraun undir nafninu Vá áður en leiðir skildu endanlega. Valgarður stofnaði sveitina Fitlarinn á bakinu sem starfaði í fáeina mánuði en sú sveit lagði einnig svo upp laupana. Þar með var sögu Fræbbblanna lokið – í bili.

Opnumynd í Vikunni

Ágreiningurinn milli Valgarðs og hinna Fræbbblanna virðist ekki hafa rist djúpt því strax tveimur árum síðar (vorið 1985) birtust fréttir um að sveitin væri byrjuð að æfa aftur, engar staðfestingar komu þó um það en svipaðar fréttir birtust aftur í dagblöðum ári síðar, sumarið 1986. Enn komu fréttir í upphafi ársins 1987 þess efnis en síðar kom í ljós að þetta var ný sveit skipuð sömu meðlimum að mestu en undir nafninu Mamma var Rússi, það var þá sveitin sem sögð var vera Fræbbblarnir sumarið á undan. Hún starfaði til 1988.

Fræbbblarnir komu svo saman undir því nafni haustið 1988 en tilefnið var þó heldur dapurlegt, það var á minningartónleikum á Tunglinu um Steinþór bassaleikara en hann hafði látist af slysförum fyrr á árinu – tónleikarnir báru yfirskriftina Minni Steinþórs og komu fjölmargar hljómsveitir þar við sögu.

Fyrrverandi Fræbbblar voru engan veginn hættir að spila saman og tvær sveitir spruttu upp af því samstarfi, Dónar svo bláir og Glott en aðspurðir sögðu þeir ekki við hæfi að nota Fræbbbla-nafnið af virðingu við minningu Steinþórs, í raun var þó um Fræbbblana að ræða því mannskapurinn var nánast sá sami, Valgarður, Stefán og hinir og þessir frá ýmsum tímaskeiðum sveitarinnar.

Það var svo sumarið 1996 sem segja má að síðara tímaskeið Fræbbblanna hafi hafist – og það stendur enn. Ástæðan fyrir endurkomunni var einfaldlega sú að útgáfa safnplötu stóð fyrir dyrum en sú plata átti að innihalda Nammi-plötuna í heild sinni, lög af smáskífunum False death og Bjór auk demóupptaka, og tónleikaupptökur úr Kópavogsbíói (syrpu af Fræbbbla-lögum) en mikill fengur þótti í plötunni þar sem ekkert af efninu hafði komið áður út á geislaplötum og því verið ófáanlegt til fjölda ára auk þess sem tónleikaupptökurnar og demóin höfðu hvergi komið út. Platan hlaut nafnið Viltu bjór væna? og var gefin út af Smekkleysu fyrir tilstilli Dr. Gunna (Gunnars L. Hjálmarssonar) en Fræbbblarnir áttu síðar eftir að endurútgefa plötuna (2009), auk þess er til sjóræningjaútgáfa af henni undir titlinum Fræbbblarnir 1980-1982 recordings en litlar aðrar upplýsingar er að finna um þá útgáfu. Mikill metnaður var lagður í þessa þrjátíu og átta laga endurútgáfu og er miklar upplýsingar um sögu sveitarinnar og tónlistina að finna í 36 blaðsíðna bæklingi sem fylgdi plötunni. Platan fékk ágæta dóma í DV.

Fræbbblarnir þegar Pottþéttar melódíur… kom út

Hljómsveitin Glott hafði þarna verið starfandi um nokkurra ára skeið, skipuð þeim Stefáni, Valgarði, Arnóri og Tryggva auk Ellerts Ellertssonar á bassa en einnig hafði Kristinn fyrrverandi gítarleikari verið um tíma í sveitinni, þeir félagar höfðu haft nokkuð af gömlu Fræbbblalögunum á prógrammi sínu en aldrei tekið upp Fræbbblanafnið af virðingu við minningu Steinþórs en þegar þeir hófu að spila þessi lög til að kynna nýju plötuna fóru þeir smám saman að kalla sig Fræbbblana enda voru þeir aldrei kallaðir neitt annað – Glott-nafnið var því lagt til hliðar.

Fræbbblarnir tóku nú við að spila heilmikið og var Rósenberg eins konar heimavöllur sveitarinnar um skeið, margir mættu á tónleika þeirra og í raun miklu fleiri en höfðu fylgt sveitinni á fyrra skeiði hennar. Fljótlega eftir að sveitin gekk í endurnýjun lífdaga sinna fékk hún heilmikinn liðsauka í formi þriggja söngkvenna sem urðu æ stærri partur af sveitinni, þetta voru þær Brynja Arnardóttir, Iðunn (Dolly) Magnúsdóttir og Kristín Reynisdóttir.

Sveitin spilaði nokkuð um sumarið og haustið en fór svo í nokkurra mánaða pásu eftir áramótin 1996-97, þegar hún tók aftur til starfa um haustið spilaði hún nokkrum sinnum yfir veturinn og þannig var það fram á haustið 1998 en eftir það starfaði hún nokkuð samfleytt um tíma af því er tónleikahald varðar, um það leyti var Grand rokk orðinn vígi sveitarinnar. Þegar hér var komið sögu voru Fræbbblarnir það fjölmenn hljómsveit að þótt einn og einn gengi úr skaftinu þá kom það yfirleitt ekki að sök og stundum leysti Sæunn Magnúsdóttir aðrar söngkonur af ef þurfti næstu árin.

Sveitin hafði verið á fullu við að semja og flytja nýtt efni í bland við annað og vorið 2000 voru tvennir tónleikar hennar á Grand rokk hljóðritaðir og tókst vel til, það sama sumar voru Fræbbblarnir jafnframt ein af tugum íslenskra (og erlendra hljómsveita) sem léku á tónlistarhátíðinni Reykjavik Music Festival sem haldin var í Laugardalnum.

Plata með tónleikaupptökunum kom út um haustið undir merkjum Rokkfræðsluþjónustunnar og bar titilinn Dásamleg sönnun um framhaldslíf, á henni var að finna tuttugu og fimm lög og voru átján þeirra nýleg og frumsamin, samin á þriggja ára tímabili á undan. Sveitin hafði alltaf verið dugleg eins og aðrar pönksveitir að flytja cover-efni og meðal slíkra laga mátti heyra Johnny Cash-slagarann I walk the line. Platan fékk ágæta dóma í Fókusi og Morgunblaðinu.

Fræbbblarnir 1999

Þær breytingar urðu á skipan Fræbbblanna síðla árs 2000 að Tryggvi gítarleikari yfirgaf sveitina og um svipað leyti hætti Ellert bassaleikari einnig, þetta varð til þess að sveitin lá niðri um tíma og birtist ekki á nýjan leik fyrr en um sumarið 2001 þegar hún spilaði á tvennum tónleikum á Grand rokk tileinkuðum Joey Ramone forsprakka bandarísku pönksveitarinnar Ramones en hann var þá nýlátinn, ekki löngu síðar bauðst sveitinni að eiga lag á safnplötunni Life‘s a gas: a tribute to Joey Ramone. Á minningartónleikunum var nýr bassaleikari Fræbbblanna kynntur til sögunnar, Helgi Briem, en sá hafði einmitt ritað lesendabréf í Dagblaðið um tuttugu árum fyrr og hvatt sveitarmenn til dáða þegar blaðamenn og aðrir kepptust við að tala Fræbbblana niður – og um leið orðið þeim hvatning til að halda áfram. Það má segja að hann hafi aftur komið í veg fyrir að Fræbbblarnir hættu störfum með því að gerast bassleikari sveitarinnar.

Fræbbblarnir spiluðu í nokkur skipti á Grand rokk þetta árið (2001) og einnig tvívegis í Kaupmannahöfn um haustið en þar kom Haraldur Reynisson (Halli Reynis) fram með sveitinni og fluttu saman lag eftir hann. Um þetta leyti var farið að vinna heimildamynd um sveitina en hún var í vinnslu næstu árin, og var því ekkert óvenjulegt að sjá myndatökumenn við eða á sviðinu með Fræbbblunum.

Sveitin hélt áfram að spila reglulega næstu misserin, oftar en ekki ásamt fleiri hljómsveitum á Grand rokk og einnig með Halla Reynis en þarna má segja að eins konar samstarf hafi verið byrjað við hann án þess þó að hann væri meðlimur Fræbbblanna en sveitin var þá farin að semja efni á plötu þar sem hann myndi koma við sögu. Vorið 2003 kom sveitin svo fram ásamt fleiri sveitum á minningartónleikum um Joe Strummer söngvara The Clash en hann hafði látist í lok árs 2002. Á þeim tónleikum kom hljómsveitin Palindrome einnig við sögu en söngvari og gítarleikari þeirrar sveitar var Guðjón Heiðar Valgarðsson sonur Valgarðs og Iðunnar, en hann hefur stundum leikið með Fræbbblunum. Og enn léku Fræbbblarnir á minningartónleikum haustið 2003, að þessu sinni um Johnny Cash. Þar fyrir utan lék sveitin víða um borgina og jafnvel á Akureyri, og var með heilmikið af nýju efni í bland við eldri lög enda hafa Fræbbblarnir alltaf verið frjó og skapandi hljómsveit.

Fræbbblarnir lágu í dvala fram eftir ári 2004 og spilaði reyndar ekkert það árið fyrr en á Innipúkanum um verslunarmannahelgina, skýringin á því var líklega sú að sveitin var þá að vinna efni fyrir upptökur sem gengu undir vinnuheitinu Trubbbl en afraksturinn af þeim komu út um haustið og bar þá titilinn Dót, platan var gefin út af útgáfufyrirtækinu Zonet. Dót var sextán laga og fyrsta hljóðversplata Fræbbblanna síðan Warkweld in the west kom út 1982, en hún var hljóðrituð í Thule hljóðverinu. Platan fékk nokkuð góða dóma í Morgunblaðinu, Fókusi og Fréttablaðinu og eitt lag af henni heyrðist nokkuð spilað í útvarpi, Spank the Spice girls. Halli Reynis söng lítillega með sveitinni á plötunni sem og Guðjón Karl Valgarðsson en þeir voru báðir einnig meðal lagahöfunda á henni.

Fræbbblarnir á nýrri öld

Um svipað leyti og platan var að koma út var heimildamyndin sem unnið hafði verið að um tíma tilbúin til sýningar, hún bar heitið Fræbbblarnir og pönkið og fjallaði um pönktímabilið á Íslandi þar sem hljómsveitin var í forgrunni. Framleiðendur myndarinnar voru þeir Örn Marinó Arnarson og Þorkell Sigurður Harðarson undir nafninu Markell. Og meira gerðist markvert í sögu Fræbbblanna þetta haust, sveitin hitaði upp fyrir Stranglers sem komu nú í annað sinn til landsins. Ríflega aldarfjórðungi fyrr hafði sveitin leikið í Laugardalshöllinni og verið fyrirmynd Fræbbblanna, nú var leikið í Smáranum ásamt Fræbbblunum.

Fræbbblarnir spiluðu heilmikið áfram í kjölfar útgáfu plötunnar og heimildamyndarinnar og í mars 2005 hélt sveitin stóra tónleika á Grand rokk en þá voru liðin 25 ár frá útgáfu fyrstu plötu Fræbbblanna. Fjöldi gesta kom fram það kvöld með sveitinni, bæði fyrri meðlimir hennar og aðrir óvæntir gestir. Eftir tónleikana á Grand rokk höfðu Fræbbblarnir hægt um sig í nokkrar vikur meðan verið var að vinna í nýju efni en birtust svo aftur um mitt sumar og léku m.a. á Menningarnótt. Um haustið tók sveitin þátt í sérstöku verkefni þegar hún var meðal tónlistarfólks sem heiðraði söngvaskáldið Hörð Torfa í Borgarleikhúsinu en hann átti sextugs afmæli um það leyti, tónleikarnir voru hljóðritaðir og komu út undir nafninu Hörður Torfason: Heiðurstónleikar 10.09.05 en Fræbbblarnir fluttu þar lögin Guðjón og Brekkan með aðstoð nokkurra félaga úr Karlakór Kópavogs – svo ólíklegt sem það hljómar. Árinu var svo lokað með öðrum hljómsveitum á minningartónleikum um Bjarna „móhíkana“ Þórðarson. Það bar helst til tíðinda í hljómsveitarskipan Fræbbblanna þetta árið að söngkonurnar Brynja og Kristín sögðu skilið við sveitina svo Iðunn var þá ein eftir söngkvenna.

Fræbbblarnir sáust ekki á sviði á árinu 2006 fyrr en um mitt ár og reyndar lék sveitin sáralítið það árið og hið næsta einnig, reyndar kom hún fram á Pönk/diskó-hátíð á Árbæjarsafni sumarið 2006 þar sem Páll Óskar tók Í nótt með sveitinni, og á Nasa um vorið 2007 ásamt Stranglers sem nú hafði endanlega stimplað sig sem Íslandsvini, stuttu eftir það voru Fræbbblarnir gestir í sjónvarpsþætti Jóns Ólafssonar en sá þáttur var helgaður 25 ára afmæli Rokks í Reykjavík.

Næstu árin spiluðu Fræbbblarnir lítið, helst í kringum Menningarhátíð í Reykjavík en sveitin var þá alltaf dugleg að kynna nýtt efni til leiks. Það var svo haustið 2009 að þær fréttir bárust að Stefán trommari hefði sagt skilið við sveitina eftir einhvern ágreining en hann hafði auðvitað verið meðlimur Fræbbblanna frá upphafi og því var stórt skarð höggvið í sveitina. Sæti Stefáns tók Guðmundur Gunnarsson sem hafði leikið með ýmsum þekktum sveitum s.s. Tappa tíkarrass og Das Kapital svo nokkur dæmi séu nefnd. Við þessar mannabreytingar var nafni sveitarinnar breytt í Fræbblarnir (með tveimur bé-um í það þriggja áður) en gamli rithátturinn hefur þó oftar en ekki verið notaður áfram. Frumraun Guðmundar með sveitinni var í febrúar 2010 og í framhaldinu lék sveitin nokkuð reglulega nokkrum sinnum á ári, m.a. á árlegri Punk hátíð á heimaslóðum í Kópavogi. Einnig hefur sveitin oftar en ekki komið fram á Menningarnótt og á „off venue“ viðburðum Iceland Airwaves, Secret solstice og ýmsum tónlistarhátíðum, og svo hefur hún oft látið í sér heyra á hvers kyns styrktartónleikum, t.a.m. fyrir Ingólf Júlíusson sem þá barðist við veikindi.

Fræbbblarnir um 2015

Útgáfusögu Fræbbblanna er klárlega ekki enn lokið því árið 2016 sendi hún frá sér enn eina plötuna, hún heitir Í hnotskurn og kom út undir merkjum Rokkfræðsluþjónustunnar. Platan, sem er „aðeins“ tólf laga var bæði gefin út á geisla- og vínylplötuformi en upplag vínylsins var einungis fjörutíu (tölusett) eintök. Umslag vínyl-útgáfunnar var í „umslags“-formi ekki ólíkt því sem fylgdi Nammi-plötunni á sínum tíma.

Fræbbblarnir eru eftir því sem best verður vitað enn starfandi og eru að vinna að nýrri plötu, og þrátt fyrir ríflega fjörutíu ára sögu er ekkert sem bendir til að sveitin sé að hætta störfum. sveitin hefur jafnvel haslað sér völl á öðrum sviðum en bjór hefur verið settur á markað undir nafninu Fræbbblarnir, í samstarfi við bruggverksmiðjuna Borg þannig að það á ágætlega við að sjaldan sé lognmolla í kringum sveitina  hvort sem það er í kringum tónlistina, textana eða eitthvað annað.

Fræbbblarnir voru auðvitað fremstir í flokki pönksveita á sínum tíma og hafði mikilvægu hlutverki að gegna við rokk- og nýbylgjuæðið árið 1980 og það er ekki lítið þegar litið er til þess að sú bylgja leiddi af sér afkvæmi eins og Kukl og Sykurmolana (og þá um leið stórstirnið Björk), sem opnuðu augu tónlistaráhugafólks erlendis fyrir íslenskri tónlist. Fjölmargar hljómsveitir og tónlistarfólk hafa sem kunnugt er nýtt sér þau sambönd síðar.

Nokkrar safnplötur með lögum Fræbbblanna hafa verið nefndar í umfjölluninni hér að ofan en lög með sveitinni hafa einnig birst á öðrum slíkum plötum sem tileinkaðar hafa verið pönktímabilinu og níunda áratugnum, hér má nefna t.d. Nælur (1998), 100 íslensk 80´s lög (2007, [Soðið] (2016), [Hrátt] (2016) og Snarl 4 (2014). Þá hafa Fræbbblarnir ratað á nokkrar erlendar safnútgáfur s.s. Delerium tremens nr. 4 (1987), Killed by death volume 40 (1998), Teenage treats vol. 7 (1999), Bloodstains across the world / #2 (1999 / 2000), Bloodstains across Europe #2 (2000) og Best of Europe (2004).

Efni á plötum