Gammar [2] (1982-94 / 2006-07)

Gammar

Hljómsveitin Gammar starfaði í rúmlega áratug á síðari hluta síðustu aldar, hætti störfum en birtist svo aftur á nýrri öld. Sveitin hefur sent frá sér nokkrar plötur en tónlist hennar má skilgreina sem djass- eða bræðingstónlist.

Það var gítarleikarinn Björn Thoroddsen sem stofnaði Gamma árið 1982 og voru aðrir meðlimir sveitarinnar í upphafi þeir Hjörtur Howser hljómborðsleikari, Skúli Sverrisson bassaleikari og Steingrímur Óli Sigurðsson trommuleikari. Hugsanlega gekk sveitin upphaflega undir nafninu Jazzgammar. Gammar komu fyrst fram opinberlega síðsumars 1983 og þá voru í sveitinni þeir Björn, Hjörtur, Skúli og Guðmundur Steingrímsson sem virðist þá hafa verið að leysa Steingrím Óla af en litlu síðar var Steingrímur kominn á sinn stað og Stefán S. Stefánsson saxófónleikari kominn í sveitina einnig. Ekki löngu síðar tók Þórir Baldursson við af Hirti Howser.

Sumarið 1984 sendu Gammar frá sér sína fyrstu plötu en hún bar nafn sveitarinnar, platan var tekin upp í Upptökuheimili Geimsteins í Keflavík en Geimsteinn gaf plötuna einnig út, tónlistin var eftir þá Björn, Þóri og Stefán. Gammar fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda, platan fékk til dæmis prýðilega dóma í tímaritinu Samúel, Helgarpóstinum, NT og Morgunblaðinu og einnig ágæta í Degi, platan seldist jafnframt þokkalega.

Lítið heyrðist til sveitarinnar eftir útgáfu plötunnar, þeir félagar voru þó nokkuð virkir í tónlistinni þótt ekki væri það undir Gamma-nafninu, skýringuna er líkast til að finna í að Skúli Sverrisson var í námi í Bandaríkjunum og því starfaði sveitin ekki samfleytt. Það var því ekki fyrr en haustið 1985 að Gammar létu til sín taka á nýjan leik en það var á Jazzvakningarkvöldi. Að því loknu leið aftur langur tími milli gigga hjá sveitinni og þannig var þetta yfirleitt.

Lag (Kókosblaðafönk) með sveitinni kom út á safnplötunni Skýjaborgir sem Geimsteinn gaf út 1986 en það lag kom aldrei út á plötum sveitarinnar. Hins vegar kom önnur plata sveitarinnar, Gammar II um haustið og var hún unnin með svipuðum hætti og fyrri platan, hljóðrituð og gefin út af Geimsteini. Gammar II hlaut ágæta dóma í DV, Þjóðviljanum og Morgunblaðinu en sem fyrr segir var Skúli við nám í Bandaríkjunum og náði sveitin ekki að halda tónleika til að kynna plötuna fyrr en rétt fyrir jólin þegar hann kom heim til Íslands.

Gammar árið 1992

Eftir útgáfu plötunnar haustið 1986 lagðist sveitin í dvala um langa hríð og ekkert heyrðist í raun til hennar fyrr en í febrúar 1990, og svo aftur um vorið þegar þeir félagar léku á Djasshátíð Ríkisútvarpsins. Meðlimir Gamma voru þá Stefán og Björn en nokkrir nýir meðlimir höfðu þá bæst í sveitina í stað þeirra Skúla, Þóris og Steingríms, það voru þeir Bjarni Sveinbjörnsson bassaleikari, Kjartan Valdemarsson píanóleikari, Halldór G. Hauksson trommuleikari og hollenski slagverksleikarinn Maarten van der Valk. Sveitin fór um það leyti á nokkurt flug í bili, var til dæmis töluvert virk um vorið og sumarið 1990 en Þórir Baldursson kom síðan aftur inn í sveitina í stað Kjartans.

Þetta sama ár, 1990 lék sveitin á plötunni Ljóðabrot en á þeirri plötu var að finna tónlist eftir Ingva Þór Kormáksson við ljóð ýmissa skálda en ýmsir nafnkunnir söngvarar komu við sögu plötunnar. Sú plata var endurútgefin tíu árum síðar. Sveitin var síðan nokkuð virk næstu misserin, sumarið 1991 léku Gammar t.a.m. á djasshátíð í Gautaborg en einnig nokkuð hér heima. 1992 lék sveitin á djasshátíð Ríkisútvarpsins og um svipað leyti kom út þriðja plata sveitarinnar, Af Niðafjöllum / From Nithamountains en eins og titill gefur til kynna var henni ætlað að efla hróður sveitarinnar erlendis enda var markaður fyrir tónlist sveitarinnar til staðar erlendis. Í þetta sinn var það PS músík sem gaf plötuna út en hún hlaut góða dóma í Vikunni og Morgunblaðinu. Af Niðafjöllum var endurútgefin af Geimsteini árið 2006.

Haustið 1993 voru fyrstu tvær plötur Gamma endurútgefnar af Geimsteini undir titlinum Gammar 1&2, með örlítið breyttri lagaröð. Af því tilefni var blásið til tónleika og lék þá Steingrímur Óli Sigurðsson fyrsti trommuleikari sveitarinnar með henni, ekki liggur fyrir hvort hann var þá genginn til liðs við sveitina á nýjan leik. Tilefni útgáfunnar var að plöturnar tvær höfðu verið gefnar út á vínylplötuformi og voru því löngu ófáanlegar en Gammar 1&2 var hins vegar í geislaplötuformi og bætti úr þeim skorti, platan fékk ágæta dóma í DV. Í viðtölum sögðust þeir Gamma-liðar myndu spila meira í framhaldinu en af því varð ekki og lítið heyrðist til sveitarinnar í kjölfarið, reyndar svo að síðast kom hún fram opinberlega snemma árs 1994.

Gammar

Mörg ár liðu án þess að Gammarni létu til sín taka og sjálfsagt hafa flestir afskrifað sveitina, hún birtist þó nokkuð óvænt haustið 2006 þegar hún spilaði á Jazzhátíð Reykjavíkur og voru meðlimir þá þeir Björn gítarleikari, Stefán saxófónleikari, Þórir orgelleikari, Bjarni bassaleikari og Scott McLemore trommuleikari. Í mars 2007 spilaði sveitin í djassklúbbnum Múlanum sem þá var staðsettur á Domo við Þingholtstræti, en það reyndist svanasöngur Gamma og síðan hefur ekkert spurst til sveitarinnar. Það er þó varla hægt að afskrifa sveitina með öllu og hún gæti litið dagsins ljós  rétt eins og árið 2006.

Eftir Gamma liggja sem fyrr er getið nokkrar plötur en einnig hafa fáein lög komið út með sveitinni á safnplötum, áður hefur verið nefnd safnplatan Skýjaborgir en einnig má nefna lagið Í góðu lagi (af plötunni Af Niðafjöllum) sem kom út á safnplötunni Ivy: a complex of Icelandic pop music (1996) undir titlinum Thumbs up, svo má nefna lögin Gamm gamm og From Nithamountains (af Niðafjöllum) á sömu safnplötu og lagið Litla stúlka á safnplötunni Þórir Baldursson 60 ára.

Efni á plötum