Galíleó (1989-95)

Galíleó

Hljómsveitin Galíleó var nokkuð áberandi á ballmarkaðnum í kringum 1990, sendi frá sér nokkur lög á safnplötum en lognaðist svo útaf án frekari afreka, tíð mannaskipti einkenndu sveitina.

Galíleó var stofnuð haustið 1989 og hóf að leika opinberlega fljótlega upp úr áramótum 1989-90. Meðlimir voru í upphafi þeir Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, Rafn Jónsson trommuleikari, Jósep Gíslason hljómborðsleikari, Sævar Sverrisson söngvari og Örn Hjálmarsson gítarleikari.

Sveitin fór strax á flug í spilamennsku og lék einkum á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins, Gauki á Stöng og þess háttar stöðum. Mannabreytingar urðu nokkrar, Hjörtur Howser tók við af Jósepi á hljómborðinu og fljótlega eftir það átti sveitin lag á safnplötunni Bandalög 2 (sumarið 1990), fleiri breytingar urðu á sveitinni árið 1991 en þá hafði Baldvin Sigurðarson tekið við bassanum af Haraldi en Jens Hansson hljómborðs- og saxófónleikari leyst Hjört af.

Vorið 1991 kom út lag með Galíleó á safnplötunni Bandalög 3, það hét Syngjum okkur hás og naut nokkurra vinsælda en annað lag, Það ert þú, kom út um haustið á Bandalögum 4 en vakti ekki eins mikla athygli, þá var Jósef Sigurðsson kominn á hljómborð. Þeir Galíleó-liðar komu um það leyti við sögu á sólóplötu Rafns trommuleikara, Andartak.

Galíleó

Árið 1992 urðu enn breytingar á skipan sveitarinnar, Einar Bragi Bragason saxófónleikari var þá genginn til liðs við sveitina og fljótlega kom Birgir Bragason bassaleikari inn einnig í stað Baldvins. Sveitin átti lag á safnplötunni Bandalög 5 en fór svo í pásu haustið 1992 og lá í dvala fram á vorið 1993 og reyndar var hún lítið starfandi næstu tvö árin eftir það, fyrir liggur að Birgir Gunnarsson trommuleikari lék eitthvað með Galíleó og hefur það þá verið á þessu skeiði en Rafn hafði þá orðið að hætta að iðka trommuleika vegna veikinda. 1993 átti sveitin síðan lag á styrktarsafnplötunni Blávatn: Átak gegn áfengi og tveimur árum síðar einnig á safnplötunni Ís með dýfu, þá var Birgir Jónsson trommari sveitarinnar og Ólafur Kristjánsson bassaleikari hennar, þá er ónefndur hljómborðsleikarinn Karl Valgeirsson sem lék með sveitinni á einhverjum tímapunkti.

Galíleó hætti síðan alveg 1995.