Gagn og gaman [útgáfufyrirtæki] (1976-79)

Útgáfufyrirtækið Gagn og gaman starfaði um skeið á síðari hluta áttunda áratugar síðustu aldar og sendi þá frá sér tvær plötur.

Gagn og gaman var stofnað sumarið 1976 og var hugsað sem eins konar félag eða klúbbur þar sem fólk keypti sig inn með tveggja ára gjaldi og fékk þá afurðir útgáfunnar á góðum kjörum, Páll Baldvin Baldvinsson var í forsvari fyrir félagið. Söluhagnaðurinn af fyrstu fjögur þúsund seldum eintökum hverrar plötu áttu að skiptast til helminga til félagsins og listafólksins, og eftir því sem platan seldist betur því hærra hlutfall átti listamaðurinn að fá. Einnig stóð til að bækur kæmu út á vegum útgáfunnar og þá stóð jafnframt til að standa í verslunarrekstri samhliða útgáfunni.

Tvær plötur komu út á vegum Gagns og gamans, plata Hrekkjusvína, Lög unga fólksins sem varð gríðarlega vinsæl, og plata Olgu Guðrúnar Árnadóttur, Kvöldfréttir. Einnig kom Gagn og gaman að tónleikahaldi og mun hafa haldið utan um fyrstu sjálfstæðu tónleika Bubba Morthens sem haldnir voru í Norræna húsinu haustið 1978, til stóð að þeir tónleikar yrðu jafnvel gefnir út á plötu sem og plata Arnar Magnússonar trúbadors en útgáfan lagði upp laupana áður en til þess kom.