BG-útgáfan [útgáfufyrirtæki] (1985-91)

Tónlistarmaðurinn Birgir Gunnlaugsson rak um nokkurt skeið blómlega plötuútgáfu í Skeifunni undir merkjum BG-útgáfunnar sem hafði m.a. Rokklingana á sínum snærum.

Þótt Rokklinga-ævintýrið hafi ekki byrjað fyrr en 1989 hafði hann gefið út áður tvær plötur með eigin hljómsveit, Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar en sú fyrri kom út 1985, þær fengu útgáfunúmerin BG 001 og BG 002.

Fáein ár liðu (1989) þar til næsta plata (snælda) kom út en hún hét Barnaleikir og varð fyrsta í röð fjögurra í þeirri útgáfuröð, reyndar hafði ein plata komið út á vegum Birgis 1988, Jólaballið, en hún kom út undir merkjum Ljósra punkta. En þar með var tónninn sleginn í útgáfunni og Birgir sneri sér nú alfarið að útgáfu fyrir börn.

Uppistaðan í útgáfunni voru plötur með Rokklingunum svokölluðu en fyrirmyndin af þeim voru hin bresku Mini pops sem höfðu notið vinsælda um allan heim nokkrum árum fyrr. Birgir auglýsti eftir efnilegum röddum frá sex ára aldri og útkoman varð fjórar plötur sem komu út á árunum 1989 til 91 á vegum BG-útgáfunnar, fjórða og síðasta platan kom út á vegum Skífunnar sem Birgir var þá genginn til liðs við. Rokklinga-plöturnar seldust gríðarlega vel en fyrsta og önnur platan seldust í yfir átta þúsund eintökum hvor, á þessum tíma var útgáfan í formi vínylplatna, snælda og geislaplatna. Birgir rak aukinheldur söngnámskeið, svokallaðan Rokklingaskóla um tíma.

Einnig komu út sem fyrr segir nokkrar snældur í Barnaleikja útgáfuröðinni, Barnasögur ennfremur og VHS-spólan Öll myndböndin en á þeirri útgáfu voru öll myndbönd sem Rokklingarnir sendu frá sér. Alls urður útgefnar plötur á annan tug en fjöldi þeirra liggur ekki nákvæmlega fyrir.

Þá stóð BG-útgáfan ásamt fleirum fyrir Barna- og fjölskylduhátíð í Húsafelli um verslunaramannahelgina 1990 þar sem um tvö þúsund manns skemmtu sér m.a. við söng Rokklinganna.

BG-útgáfan hætti líkast til störfum þegar Birgir réðist yfir til Skífunnar.