Betl (1993-97)

Betl var aldrei starfandi hljómsveit og hugsanlega kom hún fram opinberlega einungis tvisvar, eftir hana liggja þó tvær afurðir – snælda og geisladiskur.

Upphaflega var Betl dúett, Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson og Hreinn Laufdal byrjuðu að vinna jólatónlist haustið 1993 með útgáfu í huga. Gallinn var reyndar sá að Rögnvaldur var staddur norðan heiða en Hreinn sunnan.

Afraksturinn bar heitið Skyldi það vera hjólastóll? og kom út á snælduformi. Tónlistin mun af mestu hafa verið unnin á tölvum en fjölmargir söngvarar veittu þeim lið, s.s. Kamarorghestarnir fyrrverandi Lísa Páls og Kristján Pétur Sigurðsson, Inga Guðmundsdóttir og fleiri. Upplagið, tvö þúsund eintök seldist upp en þeir félagar sáu mestmegnis um dreifinguna sjálfir.

Einn þeirra sem söng á snældunni var Halldór Bragason, honum var bætt inn í Betl árið 1995 og var dúettinn þar með orðinn að tríói þegar kom að því að vinna aðra plötu. Sú plata kom út það sama ár og hlaut nafnið Eilíft betl, sama uppskrift var höfð og við útgáfu jólasnældunnar, tónlistin að mestu tölvuunnin og fjöldi söngvara kom við sögu.

Þó svo að platan hafi ekki fengið sérlega mikla athygli birtist einn dómur um hana, það var í Morgunblaðinu og hlaut hún þokkalega gagnrýni þar.

Sem fyrr segir kom sveitin sjaldan fram opinberlega, líklega aldrei á árunum 1993-95 en tvívegis árin 1996 og 97, þá var hún auglýst undir nafninu Tríó Betl.

Efni á plötum