Möðruvallamunkarnir (1982-83)

Möðruvallamunkarnir

Möðruvallamunkarnir

Hljómsveitin Möðruvallarmunkarnir frá Akureyri (einnig nefndir Munkarnir) starfaði um nokkurra mánaða skeið 1982 og 83, nafn hennar var fengið frá Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi en hann skrifaði á sínum tíma leikritið Munkana frá Möðruvöllum.

Sveitin var stofnuð síðla árs 1982 og var skilgreind sem rokksveit en innihélt engu að síður engan gítarleikara.

Meðlimir hennar voru bræðurnir Ingjaldur og Sigfús Arnþórssynir hljómborðsleikari og söngvari en aðrir voru Rögnvaldur Rögnvaldsson (Hvanndalsbræður o.m.fl.) bassaleikari og Hreinn Laufdal trommuleikari (Dægurlagapönkhljómsveitin Húfa).

Það stóð alltaf til að gefa út plötu með frumsömdu efni, sveitin fór í því skyni suður í Hraungerðishrepp þar sem Ólafur Þórarinsson (Labbi í Glóru) rak hljóðver, þar tóku þeir upp efni á plötu en eitthvað stóð á sér að útgefendur væru tilbúnir að gefa efnið út. Munkarnir guggnuðu sjálfir á því að gefa út plötuna og í kjölfarið hætti sveitin störfum snemma hausts 1983, hljóðverstímarnir kostuðu sitt og ekki bætti úr skák að Munkarnir ráku eigin hljómsveitarrútu og varð sveitinni í raun slitið af fjárhagsástæðum. Þeir munu þó að lokum hafa gefið efnið út í snælduformi, ekki er ljóst hversu stórt upplagið var. Hún bar titilinn Hingað og ekki lengra og var skírskotun í fyrrnefnt leikrit Davíð Stefánssonar, en leikritinu lýkur á þeim orðum.

Möðruvallamunkarnir komu aftur saman 2009.

Efni á plötum